Hér er eldra efni, frá 2000 - 2004:
Fréttablaðið var með það sem það kallaði úttekt á kvótakerfinu í tilefni þess að það hefði verið brúkað í 20 ár. Úttektin hafði mikla slagssíðu að mínum dómu og hefði þess vagna getað verið kokkuð í herbúðum þeirra sægreifa sem hagsmuna hafa að gæta og vilja fyrir allan mun halda í þetta kerfi - sem hefur tekist, með hjálp Hafró, að minnka þorskveiðar niður í helming frá því sem var. Ég skrifaði grein um málið: Meira
Í septemberútgáfu Fishing News International voru greinar um fiskveiðistjórnun á Íslandi þar sem gagnrýnin fékk að koma fram. Í vikublaði tímaritsins birtist einnig grein skrifuð af breskum sjómanni undir dulnefni um ambögur vísindanna. Greinin, á ensku, er hér, en höfundur vildi ekki láta nafns síns getið því hann var að verja eigin hagsmuni fyrir kerfinu sem hann var að gagnrýna.
Ég var fenginn til að halda erindi á vegum útflutningsráðs Samtaka verslunarinnar og Félags íslenskra stórkaupmanna, ásamt Kristni Péturssyni frá Bakkafirði.
Þar spáðum við því báðir að þorskstofninn væri í afturför, þvert á fullyrðingar ráðgjafanna á Hafró. Við höfðum rétt fyrir okkur, seinna var afturförin afsökuð með 'vanmati' sem frægt er orðið...... Meira
Ekki hefur gengið þrautarlaust að halda fiskidögunum í Færeyjum óbreyttum. Eftir það sem á undan er gengið, sjá hér að neðan, hafa hin sterku öfl róið að því að fækka dögunum. Ríkisstjórnin samþykkt 1,5% 'táknrænan' niðurskurð á landgrunninu og 10% á Færeyjabanka, þaðan sem 5-10% ársaflans kemur. Hafró hafði einnig innlegg í málið þar sem Einar Hjörleifsson varði ráðgjöf ICES, enda er hann formaður ráðgjafanefndar um þetta svæði. Ég sendi honum kveðju í þessum pistli.
Ég skrifaði grein um Færeyjar í 'Fishing News' þann 9. júlí 2004 og einnig í júlíhefti 2004 'FISKERBLADET' í Danmörku, um skipbrot fiskifræðilegra ráðlegginga. Greinin (á norsku) er hér. Einnig má finna hana á íslensku eins og hún birtist í desemberhefti BRIMFAXA 2004.
Ég var í Færeyjum 13.-20. júní sl. á vegum sjómanna og útgerðarmanna að vinna að því að meta fiskveiðiráðgjöf ársins eins og hún birtist frá færeyskum fiskifræðingum og ICES, Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Ég setti fram eigin tillögur en samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu sjávarútvegsráðherra bréf með tillögum sem byggðust á mínu áliti.... Meira
Nú kom hún ráðgjöfin, 5% niðurskurður í þorski, ekki vegna þess að stofninn hefði minnkað í höfðum talið (þeir eru nákvæmir í talningunni þarna á Skúlagötunni), heldur vegna þess að hann hefði lést, - fiskarnir væru horaðir, með tóman maga, horaðri en þeir hefðu gert ráð fyrir í fyrra. Þeir hefðu mátt vita þetta því fiskurinn hefur verið að horast lengi, það er búið að vara þá við og sjófugl hefur verið að drepast úr hungri. En vei, ó nei, ekki hlusta eða læra af reynslunni. -Vér einir vitum- Og nú á að bjarga málunum með því að draga úr veiðum! Láta stofninn éta sig niður og drepast úr hor, engum til gagns.
Fundur með danskri þingnefnd. Þingnefnd sem fer með landbúnaðar- og sjávarúrvegs vildi fá upplýsingar um færeyska fiskveiðistjórnarkerfið og kallaði mig og Jörgen Niclasen á sinn fund til að gefa upplýsingar um kerfið og fá álit okkar á ástandi fiskstofna í Norðursjó. Í samtali við Færeyska útvarpið eftir fundinn kvaðst formaður nefndarinnar hafa verið mjög ánægður með fundinn og hér væri á ferðinni nokkuð sem Danir þyrftu sannarlega að taka til athugunar. Eftir fundinn hrutu þau orð af vörum eins fundarmanna að henn hefði aldrei heyrt svona greinargóðar og auðskildar útskýringar á fiskveiðimálum.
Ég fór á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til Malaví í þeim tilgangi að athug hvort og þá hvernig mætti koma innfæddum til hjálpar við fiskveiðar í Malavívatni, sem er sjötta stærsta stöðuvatn jarðarinnar. Ferðin stóð í mánuð og hef ég nú gert tillögur um aðgerðir.
Borgarstjórinn í Hirtshals og sjómannasamtökin á Jótlandi stóðu fyrir fundi sem bar yfirskriftina: "Neyðarkall frá sjávarþorpum". Þetta var í tilefni eilífs niðurskurðar á veiðiheimildum í Norðursjó sem Danir hafa ekki farið varhluta af fremur en aðrir. Tilgangur fundarins var að vekja athygli á ástandinu og kynna aðra leið í fiskveiðistjórn - Færeyska kerfið. Ég hélt erindi á fundinum ásamt Jörgen Niclasen, fyrrverandi sjávarutvegsráðherra í Færeyjum og Hróðmundi Nilsen bæjarstjóra í Runavík. Meira um málið hér.
Fiskveiðinefnd Evrópubandalagsins lagði til vorið 2003 að tekin yrði upp sóknarstjórn í írska hafinu, sem er milli Írlands og Englands, í stað núverandi kvótakerfis. Að beiðni sjómannasamtaka á N-Írlandi gerði ég athugun á fiskveiðimálum í Írska hafinu sumarið 3003... Meira
Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem fylgjast með fiskimálum að nýlega var lagt til að hætt yrði að veiða þorsk í Norðursjó. Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, taldi stofninn svo illa farinn að það ekki einungis þyrfti að setja veiðibann á þorsk, heldur þyrfti að draga mjög úr sókn í ýsu og aðrar botnfisktegundir. Mér fannst nauðsynlegt að kynna mér þetta af eigin raun, því oft hefur verið haldið fram við mig að þarna væri verið að praktísera mína fiskveiðistefnu: Veiða fjandann ráðalausan.
Mér brá mjög þegar ég mætti á fiskmarkaðinn í Aberdeen, hann var fullur af smáýsu og við endann á fiskikössunum var hrognakassi. Þetta var horuð kynþroska ýsa, 4 ára gömul og 30-33 cm að lengd! Þetta er einkenni á vanveiddum fiskstofni. Lestu meira um þetta (á ensku) hér.
Ég fór til Færeyja í þriðja sinn til að veita ráðgjöf um veiðar fiskveiðiárið 2003-4. Ég fór á vegum sjómannafélagsins, og útgerðarmanna stórra skipa og smábáta. Í færeyska 'skóginum' eru öll dýrin vinir. Ég ræddi við menn skoðaði fisk og fór yfir gögnin frá Fiskirannsóknastofunni í Færeyjum svo og ráðgjöf ICES. Það var met- aflaár 2002, 40 þús tonn af þorski, 25 þús tonn af ýsu og 55 þús tonn af ufsa. Ýsan er falleg og mikið veiðist af smáýsu. Mun meira veiðist af smáufsa en undanfarin ár, minna er um stóran fisk en aflinn er góður. Heldur virðist hafa dregið úr þorskveiði miðað við í fyrra og talsvert ber á horuðum fiski (sjá mynd). Sérstaklega var stærri fiskurinn, yfir 60 sm, horaður og afturmjór. Slíkur fiskur á ekki eftir að vaxa meira, því ég tel að ástandið stafi ekki af minna ætisframboði almennt, heldur sé stofninn kominn í sína hefðbundnu niðursveiflu sem stafar af því að veiðarnar megna ekki við að halda aftur af stækkun stofnsins svo hann étur sig út á gaddinn. Sóknin hefur því verið of lítil undanfarin ár og ekki hægt að ráðleggja annað en að bæta við hana. Ekki geri ég þó ráð fyrir því að eftir því verði farið - núna. Það tekur nokkurn tíma að snúa ofan af sífelldu tali um ofveiði. Skýrsluna (á norsku) má finna hér, 110 kb pdf. ,en hún var birt í FF- blaðinu, blaði verka og veiðimanna í Færeyjum. Ráðherra hefur lagt fram tillögu um óbreytta fiskidagaskipan og verður hún lögð fyrir færeyska lögþingið í þingbyrjun, á Ólavsvöku. Sjómannasamtökin eru óhress með að ráðherrann skyldi ekki hafa lagt til aukningu á dagafjölda.
FF blaðið tekur ICES og Fiskirannsóknastofuna í gegn í nýrri grein. Greinin er hér, á færeysku.
Fiskirannsóknastofan birti svar við tillögum mínum í grein sem birtist í FF- blaðinu 14. ágúst 2003. Greinin er hér og hún er á færeysku.
Hér eru fréttir frá Færeyjum og eldra efni
Allt í einu fóru menn að tala um fiskveiðistjórn í Miðjarðarhafi. Ástæðan var sú að utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sagði að EB ætlaði sér að breyta þar fiskveiðistjórn þannig að aðildarríkin fengju meiri sjálfsstjórn veiða í eigin lögssögu. Var þetta til marks um að EB væri að verða frjálslyndara og gæti orðið til þess að við Íslendingar næðum svipuðum kjörum í samningum við EB, sæktum við um aðild.
Ráðherra veit greinilega ekki hvernig veiðum hefur verið stjórnað við Miðjarðarhaf og almenningur ekki heldur, ef marka má umræðuna sem hefur fylgt í kjölfarið.
Sóknarstjórn
Fiskveiðum í Miðjarðarhafi hefur ekki verið stjórnað samkvæmt hinni sameiginlegu fiskveiðstefnu EB (CFP), heldur hafa hin einstöku ríki stjórnað veiðum í eigin lögsögu og notað til þess sóknarkerfi en ekki aflakvótakerfi eins og EB notar undir CFP í Atlantshafi.
Fyrir nokkrum árum lét EB gera samanburðarrannsókn á veiðistjórnunaraðferðum ríkja sinna í Atlantshafi (kvótakerfi, sameiginleg stjórn) og Miðjarðarhafsins (sóknarkerfi, eigin stjórn). Skýrsla um niðurstöðurnar kom út árið 1997. Samantekt og ályktanir, á ensku, má finna hér.
Betra kerfi
Höfundum finnst að kerfið sem notað er í Miðjarðarhafi sé betra en það sem notað er í Atlantshafi og ef einhverju eigi að breyta þá væri best að færa Miðjarðarhafskerfið yfir í Atlantshaf. Þetta hefur væntanlega komið skriffinnunum í Brussel á óvart ef þeir hafa þá kynnt sér skýrsluna, vonandi hafa þeir gert það.
Hér má finna hér grein úr tímarititinu "World Fishing" þar sem sagt er frá skýrslunni, svo og samantekt sjálfrar skýrslunnar. Báðar greinirnar eru á ensku.
Í tilefni þess að nokkrir vísindamenn hafa talið sig beitta þrýstingi til að skrifa annað en þeir helst vildu, hafa fallið orð í þá átt að sumir þeirra láti pólitískar skoðanir sínar lita rannsóknir og niðurstöður. Af þessu hefur orðið nokkurt fjaðrafok. Talað er um það sem aðför að vísindaheiðri "virtra og viðurkenndra" vísindamanna, hvað svo sem það hugtak þýðir, og hvort þetta væri þá í lagi ef um væri að ræða "ótínda" vísindamenn.
Allir menn eru breyskir, líka viðurkenndir vísindamenn, m.a.s. tveir þeirra sem verið hafa í umræðunni í tengslum við Norðlingaöldu undanfarið, þeir Gísli Már Gíslason og Arnþór Garðarson, það hef ég fengið að finna á eigin skinni.
Í rannsóknum mínum í Mývatni gat ég ekki fundið neitt orsakasamband milli starfssemi Kísiliðjunnar og fiskleysis eða annarra breytinga í lífríkinu. Eftir starf mitt í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir, þar sem ég var skipaður af Kísiliðjunni sem óháður sérfræðingur, var G.M.G. ekki par hrifinn af mínum vísindatúlkunum. Eftir þetta hef ég fengið að heyra frá honum: ... þú færð aldrei að bjóða í fiskirannsóknir í Mývatni...., niðurstöður voru keyptar....., og annað í þeim dúr. Gísli hefur enda ekki verið iðinn við að tína steina úr minni götu í tengslum við mitt vísindastarf og lifibrauð. Það hefur heldur verið á hinn veginn, og mikið var um grjót á leiðinni upp í Elliðavatn.
Arnþór tók einnig rispu á mér og sagði það falsvísindi sem ég kynnti á fundi í Vísindafélagi Íslendinga haustið 1999, en þar talaði ég um fiskinn sem áhrifavald í tengslum við sveiflur í Mývatni. Hér má lesa nánar um þau afskipti.
Um miðjan janúar fór dauðan svartfugl, aðallega langvíu og stuttnefju, að reka á fjörur NA-lands. Eðlilega sperra menn eyrun þegar svona fréttir berast. Fugladauði vegna hungurs þýðir að ekkert sé fyrir hann að éta á slóðinni. Ef ekkert er að éta fyrir fugl er sennilega lítið að éta fyrir fisk. Þessi fugl lifir aðallega á ungloðnu sem einnig er kjörfæða þorsks. Loðnan heldur sig uppi í sjó, þar sem hún nærist á svifdýrum (rauðátu). Má því leiða líkur að því að þorskurinn á þessu svæði hafi lítið að éta. Sú eðlilega spurning vaknar hvernig á því standi að loðnan og önnur síli séu ekki þar sem þau eiga að vera. Fyrir því geta verið margar ástæður og skulu hér tvær nefndar:
Fari á versta veg gæti fugladauðinn verið fyrirboði lélegrar loðnuvertíðar 2002-2003 og enn frekari minnkunar þorskstofnsins. Ekki brást Hafró neitt sérstaklega við þessum tíðindum. Spunnu upp með eindæmum langsóttar skýringar um samspil íss og fæðu, ísrek í austur og vestur sem ruglaði fuglinn svo að hann missti af matnum.... -- Einhvern tíma hefði þetta þótt ástæða til að senda rannsóknaskip á staðinn, en - það er bundið við bryggju.
Ungþorskurinn kallar á að vera veiddur og enn er verið að berjast gegn því að menn veiði hann. Stöðugar skyndilokanir eru í gangi til þess að ná markmiðinu: Byggja upp stofninn með friðun. Mig minnir að þetta sama vandamál hafi líka verið í gangi fyrir ári og þá hafði Árni Matt sagt að þetta færi að lagast þegar fiskur stækkaði og gengi til hrygningar. Sagan endalausa?
Vísindanefnd NAFO viðurkenndi mistök við veiðiráðgjöf og lagði til 50% aukningu á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni frá því sem þeir ráðlögðu í fyrra. Þegar ráðgjöfin, um 30 þús tonna veiði á árinu 2001, var birt var tekið fram að trúlega yrði að draga úr aflanum á árinu 2002 ef veiðin færi fram úr ráðgjöfinni. Veiðin fór í 50 þús. tonn en nú hafa þeir ekki staðið við hótunina um samdrátt heldur hækkað sig um 45%. Ráðgjöfin hefur verið della frá upphafi og spurning vaknar um hvers vegna sé yfirleitt verið að standa í þessu. Meira um málið og Flæmska hattinn.
Færeyski sjávarútvegsráðherrann, Jørgen Niclassen, bað mig um álit á því hvort breyta ætti sókn á Færeyjamiðum, einkum hvort rétt væri að minnka veiðiálag á þorsk, ýsu og ufsa. Nánar til tekið skyldi álit mitt fjalla um þrennt;
Í heimsókn til Færeyja 9-13. júlí ræddi ég við aðila úr sjávarútvegi, fólk með reynslu af veiðum, veiðiaðferðum, sögu veiðanna og verndunaraðgerðum. Tölulegar upplýsingar um ástand og sögu fiskstofna voru fengnar frá ICES og Fiskirannsóknastofunni í Færeyjum. Ég skilaði ráðherra skýrslu 16. júlí sl. þar sem ég lýsti sjónarmiðum mínum í ljósi þeirra gagna sem lágu fyrir. Skýrslan er á norsku og hér er slóðin:
Árið 2001 var eitt besta aflaár í Færeyjum er varðar botnfisk. Ýsuafli stóð í stað, þorskafli jókst talsvert og ufsaaflinn var einn sá mesti í 23 ár. Gæftir hömluðu veiðum í lok árs og hafa verið stirðar það sem af er. Afli er enn mikill og á stundum hefur fiskvinnslan ekki haft undan svo Færeyingar hafa flutt út fisk til Íslands.
Ýsa var sett í kvóta hjá smábátum þann 1. sept. sl. ásamt steinbít keilu og löngu. Rökin voru þau að það þyrfti að takmarka sókn í þessa stofna, þ.e. vernda þá fyrir ofveiði. Ég hef skrifað margar greinar um ýsu undanfarin ár og allar fjalla þær um að mikið sé um hægvaxta ýsu, vöxtur ýsunnar stöðvist við u.þ.b. 1 kg í Faxaflóa og margt bendi til að stofninn sé vanveiddur. Í maí tók ég saman enn eina álitsgerð um ýsustofninn og kemst að sömu niðurstöðu, að stofninn sé vanveiddur og það sé skýringin á hinum litla afrakstri. Mér er kunnugt um að Sjávarútvegsráðherra veit af þessum skoðunum mínum og annarra fræðimanna um að eitthvað sé bogið við nýtingu stofnsins en hann heldur enn við að stofninn sé ofnýttur og hefur ekki á því neinn fyrirvara. Ekki hefur hann gert neinar athugasemdir við álit mitt og ekki hefur hann haft samband við mig hvorki til að fá frekari upplýsingar eða til að hafna fullyrðingum mínum. Málinu er hreinlega ýtt út af borðinu og ekki rætt. Það virðist henta stjórnvöldum að "ýsustofninn sé ofveiddur" þó svo verið sé að hafa af þjóðinni verðmæti með rangri stjórnum. Þessar ýsugreinar eru hér:
Vegna tíðra skyndilokana sinni hluta árs 2000 vaknaði sú spurning hvort hluti af þessum smáfiski sem var verið að loka á væri orðinn kynþroska (fullorðinn).
Frá sjómönnum heyrðist að sumt af þessum smáfiski hefði verið með hrogn og svil. Þetta skiptir máli vegna þess að kaflaskil verða í lífi fiska sem fullorðnast og til lítils er að bíða með að veiða þá. Ég tók saman pistil um kynþroska og hér má smella til að fræðast meira um kynþroskastærð fiska.
Nú hefur Hafró látið erlenda reiknimeistara yfirfara aðferðir sínar og mat þeirra var að þær væru í góðu lagi en veiðanleikinn hefði verið rangt metinn og þorskstofninn því ofmetinn þegar uppbyggingin stóð sem hæst. Óljóst er hver tilgangurinn er með þessu því þeir á Hafró hafa alltaf verið vissir í sinni sök.
Hér hlýtur að liggja fiskur undir steini. Ýmislegt, m.a. minnkandi þorskafli, bendir til þess að þorskkvótinn verði skorinn niður enn frekar á næsta ári og þá getur verið gott að hafa uppáskrifað vottorð þess efnis að allt sé í lagi um borð.
Árið 1998 ríkti almenn ánægja með að tekist hefði að byggja upp þorskstofninn úr lægðinni 1994 og bjart væri framundan. Menn gerðu ráð fyrir að þorskstofninn héldi áfram að vaxa, uppbyggingin hefði tekist. Stjórnmálamenn höfðu hlýtt ráðleggingum (les: fyrirmælum) fiskifræðinga og sjómennirnir höfðu haldið sig á mottunni.
Á opnum fundi í maí þetta ár hélt ég því fram að stofninn væri kominn yfir hámarkið, væri aftur farinn að minnka og myndi ná nýrri lægð 2003-2004.
Hafró rak upp ramakvein og sagði þetta óábyrgt tal og út í hött. Ráðgjöfin 1998 varð óbreytt frá árinu áður en rúmu ári síðar ráðlagði Hafró um 20% samdrátt
Á þessum tíma, 1977- 98, var þorskur fyrir V- og NV- landi farinn að horast og mikið var um sjálfát. Stofninn var að bregðast við minnkandi fæðuframboði á einstakling, þeir smáu horuðust og þeir stóru átu þá litlu eins og stundum í mannheimum. Sú stefna að geyma fisk og "láta" stofninn stækka hafði brugðist eina ferðina enn og náttúran var að grípa í taumana. Ekki er þó nóg með að þorskurinn éti sjálfan sig, of stór þorskstofn er einnig í samkeppni við aðra nytjastofna og étur annað hvort úr þeim eða frá þeim. Flestir nytjastofnar hafa verið á niðurleið um sinn. Þorskstofninn er á niðurleið og hann mun fara neðar, kraftaverk kemur ekki í veg fyrir 20-25% niðurskurð í vor (2001). Til þess þyrfti nefnilega stefnubreytingu hjá Hafró.
Þessi "tíska í fiskifræði" að draga saman afla og friða smáfisk, er að eyðileggja sjávarútveg í byggðum landsins.
Nú er það sem sé veiðanleikinn sem hefur sett strik í reikninginn. Veiðanleiki er vandamál hjá Hafró sem ég minnist ekki að hafa heyrt þá tala um áður. Mikill veiðanleiki skapar góð aflabrögð, lítill veiðanleiki veldur ördeyðu. Í eina tíð voru notuð hugtök eins og að fiskur gæfi sig til, væri tregur, handóður eða væri við. Nú heitir þetta breytilegur veiðanleiki og væntanlega verður þá til veiðanleikastuðull sem þarf að meta (giska á).
Oft verður maður fyrir barðinu á svona "veiðanleika". Ég var við laxveiðar í tvo daga en fékk ekki neitt. Kunningi minn var á sama stað síðar í sömu vikunni og fékk 11 laxa. Veiðanleikinn hafði breyst svona skyndilega. Ekki þó alveg, því veiðifélagi kunningja míns hafði ekki fengið neitt í sama veiðitúr þannig að veiðanleikinn virðist gera mannamun. Hafró ætlar enda að rannsaka veiðanleikann svo minnka megi skekkjur í stofnmatinu.
Ég get lagt ýmislegt í púkkið. Mér var kennt að fiskur gæfi sig helst til á aðfallinu, lúða veiðist helst um fallaskiptin. Þá vissum við strákarnir að veiðanleiki jókst stórlega ef við notuðum hvítmaðk við silungsveiðar í fjörunni fyrir vestan. Mikla lotningu bárum við þá fyrir þeim sem áttu spún. Það var nú tæki sem jók veiðanleikann svo um munaði.
Og eina sögu verð ég að segja um veiðanleikann. Ég var við laxveiðar og eftir nokkra þolinmæði fann ég flugu sem snarbreytti veiðanleikanum. Ég veiddi sex laxa á hana í beit en sá sjöundi sleit og fór með fluguna góðu. Ég fékk ekki meira þann daginn því flugurnar sem ég átti eftir í boxinu gátu ekki skapað svona veiðanleika. Ef rannsóknirnar ganga vel verður etv. hægt að kaupa veiðanleika á litlum flöskum. Þá þarf kannske að draga úr sókn en útgerðarkostnaður ætti að minnka. Eitthvað fyrir Kára að fást við? Stefán faðir hans vissi mikið um veiðanleika, skrifaði bækur um hann.
Þessa dagana veiðist lítið af þorski. Ekki vegna þess að minna sé af fiski. Nei, það er veiðanleikastuðullinn sem er svona lágvaxinn.
Í pistlinum hér á undan lét ég að því liggja að verið væri að undirbúa niðurskurð vorið 2001. Síðan hafa komið fram fleiri vísbendingar um að sú ályktun hafi veri rétt. Fyrstu niðurstöður úr togararalli vorsins gefa til kynna að vísitala sé ein sú minnsta sem mælst hafi, svipuð og hún var árið 1994. Þetta gefur til kynna að kvótinn verði lækkaður um 30 þúsund tonn, en það er mesta leyfileg breyting milli ára. Sú regla var notuð í fyrsta skipti í fyrra, var reyndar búin til þá til að þurfa ekki að lækka kvótann of mikið. Ef kvótinn verður settur í 190 þúsund tonn hefur hann lækkað um 60 þúsund tonn á tveimur árum. Hvað með uppbygginguna?
Hér á eftir fer grein sem ég skrifaði og birti í "Fiskifréttum" í tilefni smáfiskaumræðunnar um áramótin 2000-2001.
(Janúar 2001, skrifað fyrir "Fiskifréttir")
"Það þarf að vernda smáfiskinn til þess að hann fái að þyngjast og gefa meira af sér" sagði Sigfús Schopka talsmaður Hafró um tillögur togaraskipstjóra þess efnis að færa viðmiðunarmörkin niður.
Þetta er með ólíkindum því búið að reyna þetta árangurlaust í 20 ár. Allan tímann er búið að reyna að segja þeim á Hafró að þetta sé rangt og þeir hafa fengið nær aldarfjórðung til að kynna sér málið. Fyrir utan að þetta sé í blóra við alla vistfræði og verði að flokkast undir þráhyggju þá hrannast upp vitneskja sem sýnir að ekki standist að "geyma fiskinn í sjónum og láta hann stækka".
Þetta virðist engan enda ætla að taka því valdastrúktúr stofnunarinnar leyfir ekki gagnrýni innan frá og gagnrýni utan frá er vísað á bug með fúkyrðum eða einhverju þaðan af verra. Ráðamenn horfa hugsunarlaust upp á þetta og segja að þetta séu virtustu sérfræðingar. Aðrir gefa þeim skip..
Um allan heim er árangur svipaðrar stefnu að koma í ljós, fiskstofnar eru skakkt veiddir með þeim árangri að stórfiskur hverfur og hungraður hægvaxta smáfiskur tekur við. Ofveiði er kennt um og viðbrögðin eru að draga frekar úr veiðum, einkum á smáfiski. Nægir að nefna Barentshaf í austri og Nýfundnaland í vestri. Hinum megin á hnettinum í Ástralíu, er sama umræða í gangi, þar er talað um að ekki sé heil brú í því sem fari frá opinberum ráðgjöfum.
Fróðlegt var að sjá línuritið yfir fjölda skyndilokana frá árinu 1991 til dagsins í dag. Í því er svipaður hrynjandi og í þorskaflanum á sama tímabili.
Ætla má að fjöldi skyndilokana sé til marks um mergð smáþorks hverju sinni og mætti því ætla að í kjölfar tíðra lokana kæmi tímabil aukins afla, í takt við hugmyndafræðina um að hann muni stækka og gefa af sér meiri afla -síðar.
Skyndilokanir (lína) og þorskafli (súlur) 1991-2000.
Hér má sjá saman fjölda skyndilokana (línurit) og afla (súlurit). Þarna er greinilega sami taktur en tveimur árum eftir að fjöldi skyndilokana nær hámarki minnkar aflinn (-síðar)! Greinilega ekki það sem ætlast var til.
Innstreymi smáfisks vex frá 1991 og nær hámarki 1993. Á meðan fellur aflinn (stofninn minnkar). Smáfiski fækkar og lágmark verður 1997. Aflinn vex frá 1996 en er nú aftur farinn að minnka aftur en skyndilokunum heldur áfram að fjölga. Það sem af er árinu eru þær orðnar 35 og því enn að fjölga. Miðað við þessa reynslu ætti þorskafli að halda áfram að falla 2001 og ná lágmarki 2 árum eftir hámark lokana, þ.e. árið 2003. Verður þetta þróunin?
Fræðunum hefur einnig fleytt fram og sýnt hefur verið fram á að viðtekin nýtingarstefna sé röng. Til hliðar við hina viðurkenndu opinberu sérfræðinga er hópur fræðimanna sem talar fyrir daufum eyrum og á jafnvel í erfiðleikum með að fá birtar greinar sem eru á skjön við hinn opinbera sannleika.
Ég hlustaði á fyrirlestur um daginn. Það var lokafyrirlestur í viku syrpu um fiskveiðistjórnun, haldinn fyrir nemendur í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Fjallað var um stjórnun í því sem kallað var "small scale fisheries", sem útleggja má veiðar einyrkja eða lítilla útgerða, og voru dæmi tekin úr stóru vötnunum í Afríku. Þar háttar svo til, eins og í vistkerfum fiska almennt, að hver étur annan sem étur enn annan sem lifir á öðrum o.s.frv.
Til þess að geta staðið undir beitarálaginu verður stofn þeirra sem étinn er (bráðarinnar) að vera miklu stærri en stofn ránfiskanna. Oft er miðað við tífalda stærð. Með því að éta stjórnar ránfiskurinn stofnstærð bráðarinnar. Ef ránfiskurinn er veiddur, en ekki bráðin, þá fjölgar í stofni bráðarinnar og afleiðingar í þeim stofni verður hungur eða dauði. Ef bráðin er veidd, sveltur ránfiskurinn.
Sem dæmi má taka þorsk og loðnu. Algengt er að heyra menn segja að ekki megi veiða svo mikið af loðnu því þá geti þorskurinn ekki vaxið. Allir kinka kolli þegar þetta er sagt. Þetta gildir einnig á hinn veginn. Ef veiddur er þorskur en ekki loðna, leiðir það til fjölgunar loðnu. Afleiðingin er aukin samkeppni, hungur og meiri afföll í loðnustofninum.
Auðvelt er að fá menn til að skilja að jafnvægi verður að vera í veiðum á loðnu og þorski en minna er þekkt að þetta getur einnig innan stofns sömu tegundar.
Við vitum að stór þorskur étur smáþorsk sem etv. étur enn smærri þorska. Þannig má segja að þorskurinn sé á mörgum þrepum í fæðukeðjunni og þar ríki eitthvert innbyrðis jafnvægi í stofninum. Þegar þrengja fer að stórum þorski með mat, vegna þess að smærri þorskur afétur hann, fer hann að éta hina mærri þorska og laga þar með eigin stöðu og koma á jafnvægi.
Ef við veiðum eingöngu stóran þorsk erum við að fjarlægja einn þann þátt sem heldur smáþorski í skefjum. Hungur fer þá að sverfa að smáþorskinum, hann horast, horfellur eða étur enn smærri þorska og þannig koll af kolli. Útkoman er smávaxinn stofn, stofnstærðarsveiflur, eða sambland af hvoru tveggja.
Í lok áðurnefnds fyrirlesturs voru nemendur spurðir um hvað væri til ráða. Ekki stóð á svari: Nota veiðarfæri, eða sambland af veiðarfærum, sem veiða jafnt allan fisk án tillits til stærðar.
"Rétt" sagði kennarinn, "það verður að taka sneið af kökunni upp úr og niður úr, ekki éta úr henni botninn eða tína ofan af henni jarðarberin".
Nýlega kom út "RIT FISKIDEILDAR", tileinkað Unnsteini Stefánssyni. Í þessu riti er athyglisverð grein eftir Björn Björnsson fiskifræðing hjá Hafró. Greinin heitir: Takmarkast vöxtur íslenska þorskstofnsins af fæðu?
Í niðurstöðu samantektar segir í lauslegri þýðingu:
"Það virðist því vera að fæðuskortur þjái Íslenska þorskstofninn í heild sinni, niðurstaða sem gæti haft áhrif á fiskveiðistjórnun og rannsóknir á því hvernig auka megi afrakstursgetu stofnsins."
Ályktunarkaflinn í lok greinarinnar er stuttur og laggóður, en hann er svona:
"The results suggests that the growth rate of wild cod is usually food-limited. This finding may have some implication on fisheries management and stock enhancement. Thus largescale releases of juvenile cod may not be feasible but the possibilities of feeding a part of a cod stock on inexpensive industrial fish to increase growth rate and yield may be worth exploring."
Þetta útleggst:
"Niðurstöður benda til að vaxtarhraði hjá villtum þorski takmarkist að öllu jöfnu af fæðuframboði. Þessi niðurstaða gæti haft nokkur áhrif á fiskveiðistjórnun og aðgerðir til aukinnar afrakstursgetu. Þannig sýnist ekki vænlegt til árangurs að setja út mikið magn af ungviði (seiðasleppingar), en athuga mætti þann möguleika að fóðra fiskinn með ódýrum bræðslufiski (loðnu) til þess að auka vöxtinn."
Menn geta svo botnað hvað þetta þýðir á mæltu máli!
Mikið var um skyndilokanir árið 2000 eða 152 en þær voru 79 árið áður. Það sem er af þessu ári (2/2/2001) eru þær orðnar 37 og stefnir því í nýtt met. Skyndilokun merkir að ákveðnu svæði er lokað fyrir veiðum eða settar eru takmarkanir varðandi ákveðin veiðarfæri. Ástæðan er sú að of mikið veiðist af smáfiski en stefnan er að vernda hann, geyma hann þar til hann er orðinn stór (!). Ef fjöldahlutfall fiska undir 55 cm að lengd í afla fer yfir 25% þá er viðkomandi svæði lokað í viku. Að sögn talsmanns Hafró er ástæða tíðra lokana sú að sterkir árgangar eru nú að koma inn í veiðina. Núna er það þorskárgangur 97, en á eftir honum koma að sögn þrír aðrir sterkir. Sagði talsmaðurinn að þetta vandamál myndi fara vaxandi.
Brátt verður því ekki veiðandi á Íslandsmiðum fyrir smáfiski- sem ekki má veiða vegna þess að það að það er alltaf verið að bíða eftir því að hann verði stór-.
Ekki verður annað séð en að nýliðunin, sem búið var að bíða eftir í 12 ár, sé hið versta vandamál þegar stefnan er sú að veiða ekki smáfisk. Nú er spennandi tími fram undan: Hvernig vindur Hafró sér út úr þessu?
Þorskstofninn mældist núna um 20% minni en í fyrra. Ef farið hefði verið eftir aflareglunni hefði niðurskurður orðið 20%, í 203 þúsund tonn, en ráðherra ákvað að "breyta" reglunni og veiða 220 þúsund tonn. Athyglisvert er að Hafró álítur ekki að stofninn hafi minnkað í raun, heldur hafi hann verið ofmetinn í fyrra. Hann hafi því staðið í stað en ekki minnkað. Nokkrar ástæður eru svo taldar hafa valdið vanmatinu í fyrra.
- Einhvers staðar er einhver úti að aka -. Sjómenn eru vissir um að stofninn sé að minnka, góðærið hafi varið látið sigla hjá og afli hafi tapast. Sjálfur er ég þessarar skoðunar og fullyrti þetta á fundi á Grand Hóteli í maí 1998, þar sem ég kynnti niðurstöður mínar á rannsóknum á stofnsveiflum í þorski í N-Atlantshafi. Á þeim fundi sagði Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró að ég færi með staðlausa stafi, ég hefði ekki nein gögn sem sýndu þetta. Þetta vakti athygli, eins það að ekki hafði hann sjálfur nein gögn sem hröktu það sem ég sagði.
Merkilegt þetta með gögnin. Í viðtali við DV föstudaginn 9. júní s.l. sagði þessi forstjóri þegar hann var spurður að því hvað honum fyndist um þá hugmynd mína að þegar þorskstofninn nái ákveðinni stærð byrji hann að éta ungviði sín og minnki óhjákvæmilega: "Mér finnst í rauninni ótrúlegt hvað fjölmiðlar gefa Jóni Kristjánssyni mikið vægi miðað við hvað hann leggur lítil gögn á borðið máli sínu til stuðnings" ...
Jóhann virðist ekki leggja mikið upp úr því að Hafró gefur árlega út stóra skýrslu með öllum sínum gögnum sem allir hafa aðgang að og allir geta túlkað, ekki síst fagmenn. Forstjórinn er greinilega létt pirraður á að því að aðrir leyfi sér að túlka gögnin öðruvísi en þeir á Skúlagötunni.
Brottkast
Enn fer af stað umræðan um brottkastið en það kallast svo þegar fiski er hent vegna þess að kvóti er ekki til fyrir honum eða hann er það verðlítill að hann stendur ekki undir kvótaleigunni. Þetta er öðruvísi en áður fyrr þegar fiski var hent vegna þess að hann var of smár, sbr. grænjaxla sem koma með við berjatínslu, eða að ekki var markaður fyrir hann eins og á árum áður þegar ekki var annað við karfa og ufsa að gera en að landa honum í bræðslu. Á þeim árum fór í sjóinn úrkast, sem var sannarlega ekki til fyrirmyndar. Núna kemur skipunin úr landi beint eða óbeint, kerfið kallar á þetta. (Sjá nánar um þetta í : Tillaga að nýju stjórnkerfi fiskveiða )
Aftur að stofnmælingunum.
Eins og alltaf þegar umræðan dúkkar upp er forstjóri Hafró beðinn um álit. Gagnstætt fyrri svörum talsmanna Hafró sem töldu brottkast lítið, u.þ.b. 5000 tonn, sagði forstjórinn núna að það væri talsvert og að þeir hefðu alltaf vitað það! Það skipti þó ekki máli við stofnútreikninga þó það væri talsvert og óþekkt svo lengi sem það héldist svipað frá ári til árs, en ef það breyttist þá skipti það máli. Einnig sagði hann að þeir á Hafró felldu þetta inn í náttúrulega dánartölu, svipað og afföll vegna sjúkdóma, afráns og elli.
Þetta er faglega rangt og ber vott um ókunnugleika forstjórans á stofnfræðum fiska eins og ég mun nú rökstyðja:
Stofnstærð þorsks er ekki mæld heldur er hún reiknuð út. Til þess að unnt sé að gera það þarf að þekkja tvennt: Hve stór hluti stofnsins er veiddur (veiðidánartalan) og hve sá hluti er stór (aflinn). Ef við veiðum annan hvern fisk (50%) og aflinn er 100 fiskar þá hefur stofninn verið 200 fiskar. Ef hent hefði verið 50 af þessum 100 fiskum án þess að við vissum, hefðum við reiknað stofninn samsvarandi minni eða 100 fiska. Vanmat stofnsins er í réttu hlutfalli við brottkastið. Hafró metur því stofninn minni sem nemur hlutfallslegu brottkasti og ráðleggur veiði í samræmi við það. Þetta er svo sem í lagi, því ráðgjöfin er samkvæm sjálfri sér, en allar tölur um stofnstærð (það með stærð hrygningarstofns, nýliðun og þess háttar) eru rangar (verið er að veiða úr miklu stærri stofni, en tölur um aflann eru rangar).
Forstjórinn sagði að þeir litu á brottkast sem náttúrulega dánartölu. Þá varð honum heldur betur fótaskortur, því brottkast verður að skilgreina sem óséðan afla sem leiðir til vanmats á stofni. Náttúruleg dánartala er allt annað. Hugtakið er notað um það brotthvarf sem verður af fiski úr stofninum af öllum öðrum orsökum en veiði. Þetta hlutfall er óþekkt og það er giskað á að það sé 18% á ári hjá öllum stærðum fiskjar, ungum sem öldnum. Ástæða þess að það er verið að burðast með þetta hugtak er sú að eingöngu er hægt að mæla heildarafföll fiska, hvernig fækkar í árgöngunum eftir því sem árin líða. Til þess að unnt sé að áætla þátt veiðanna þar í verður að mæla, eða giska á ef ekki vill betur, hve mikið hverfur af öðrum orsökum en veiðum.
Fyrrverandi forstjóri norsku Hafró, sem sagður var í sjónvarpsfréttum 15. júlí sl. vera virtasti fiskifræðingur Norðmanna, var jafnvel enn meira úti að aka þegar hann lét hafa eftir sér að brottkast (óséður afli) hefði leitt til þess að svo illa fór með þorskinn í Barentshafi. Brottkastið hefði nefnilega leitt til rangran ráðgjafar. - Þetta stenst ekki, því vegna brottkastsins héldu þeir stofninn minni en hann í raun var og hegðuðu ráðgjöfinni í samræmi við það. Brottkastið fór fram úr þeim hluta stofnsins sem þeir héldu að væri ekki til ef svo má að orði komast.
En það er víst lenska allra Hafróa að kenna öðrum um allar ófarir. Lesa má meira um stofnstærðaráætlanir og skekkjuvalda í greininni: "Röng fiskveiðistjórnun væri að rústa stærstu þorskstofnum við Norður-Atlantshaf ?" .
Ég er nýkominn úr rannsóknarferð af Flæmska hattinnum. Var þar um borð í Taurusi, rækjutogara sem dregur tvö troll. Rækjan var að skipta um skel í miðjum apríl en skelskiptum var að ljúka í lok apríl. Ástæða þess að rækja skiptir um skel er sú að skelin, eða hamurinn, er úr kítíni og vex ekki með dýrinu. Þegar rækjan stækkar innan í skelinni kemur að því að hún verður of þröng, rækjan sprengir hana utan af sér og það myndast ný skel sem er þunn og mjúk fyrstu dagana. Smám saman harðnar skelin og þá lýkur svokölluðum skelskiptum. Ástæða þess að talað er um "skelveikitímabil" er að þá skipta flestar rækjur um skel á sama tíma. Kvendýrin bera eggin á fótum sér allan veturinn. Á vorin, í upphafi nýs vaxtartímabils, kasta þau eggjunum, og þá fyrst er hægt að skipta um skel, annars myndu eggin farast með skelinni. Þess vegna eru margar rækjur að skipta um skel í einu. Ef vöxtur er góður, þarf nýja skel fyrir haustið og verður þá annað skelveikitímabil. Á svæðum þar sem vöxtur er hægur, veður einungis eitt slíkt tímabil á ári.
Veiðin var fremur slök á skelveikitímabilinu, rækjan virðist "hverfa", enda er hún berskjölduð óvinum. Ekki er þó vitað hvert hún hverfur, eða hvernig hegðunin breytist. Hún er einnig að para sig á þessum tíma þegar skelin er mjúk.
Veiðin fór að hressast verulega núna eftir miðjan maí, hjá sumum skipum tvöfaldaðist dagsaflinn, fór úr 8 í 16 tonn. Rækjan er smá, þ.e. mikið er af smárri rækju, stórri rækju hefur fækkað.
Veiðarnar hafa þróast á nokkuð dæmigerðan hátt síðan þær hófut á þessu svæði 1993. Í fyrstu var mikið af stórri rækju en lítið af smárri. Stofninn var ósnertur, gömlu og stóru dýrin réðu ríkjum, þau ungu komust ekki að. Eftir því sem veiðarnar hjuggu í stofninn fækkaði gömlu rækjunum og nýliðun jókst, ungu dýrin fengu tækifæri til að spjara sig. Eftir því sem ungu rækjunni fjölgaði fór að draga úr vexti hennar. Nú er svo komið að þriggja ára rækjur eru jafn stórar og tveggja ára rækjur voru árið 1996, tæp 3 g, eða 350-400 stk/kg. Veiðarnar hafa ekki við að hamla á móti nýliðunininni og því "skekkist " stofninn: Mikið af smárri rækju sem vex fremur hægt, lítið af stórri rækju. Allar veiðireglur á Flæmska hattinum miða samt að því að vernda smárækju og sjá má í skýrslum NAFO að sterkir árgangar eru taldir af því góða.
Þær fréttir koma nú frá Noregi að nýliðun þorsks í Barentshafi sé með eindæmum léleg, sú slappasta í tvo áratugi að sögn norsku Hafró eftir þeirra síðasta leiðangur. Þorskurinn er einnig horaður segja þeir, þriggja ára fiskur að meðaltali 209 grömm, sá léttasti í sögunni, en árið 1991 var 3. ára þorskur þarna um 800 grömm. Á sama tíma og þorskurinn sveltur er ráðlagt að draga úr veiðum (!). Hvað gerist næst? Lesa má um Barentshafið annars staðar á þessum vef.
Einn eigenda Samherja seldi hlut sinn í fyrirtækinu fyrir um 3 milljarða króna. Hann hefur fullt leyfi til að gera það sem hann vill við peningana. Hann gæti, eins og heyrst hefur að sumir hafi gert, flutt peningana úr landi. Nú hefur þetta pláss, hlutabréfin sem losnuðu, verið fyllt af aðilum í verslunarrekstri sem fluttu peninga frá sínum rekstri í Samherja, peninga sem koma frá kúnnunum.
Ef nú annar aðili í Samherja myndi selja sinn hlut og taka út sína peninga, myndi myndast nýtt gat sem væntanlega yrði fyllt aftur, e.t.v. af lífeyrissjóðum (peningum fólksins).
Þannig getur þetta gengið - endalaust.
Þarna er komin lensidæla sem sogar til sín fé, verslunargróða, sparifé almennings og lífeyri landsmanna, dælir þeim inn í sjávarútveginn og þaðan út hinum megin: Til þeirra sem "labba sig út úr greininni" eins og það er sagt. -Sniðugt, ekki satt?