Kynþroskastærð

(Jón Kristjánsson, janúar 2001)

Þegar menn hafa tekið eftir hrognum eða sviljum í óvenju smáum fiski vaknar oft sú spurning hvernig á því standi. Hvað er það sem stjórnar kynþroskanum? Hvernig stendur að stundum verður fiskur í sama stofni kynþroska smár og stundum, á öðrum tímunm, stór? Hvað stjórnar þessu? Er hægt að hafa áhrif á kynþroskann.

Þekking á þessum málum er mjög á reiki meðal almennings og jafnvel meðal fræðimanna. Á liðnum áratugum hefur smám saman byggst upp þekking og skilningur og má segja að nú liggi þessi mál ljós fyrir í aðalatriðum, nægjanlega til að skilja það sem fiskurinn er að reyna að segja okkur um eigin lífsskilyrði með þessu framferði sínu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að með því að hrygna er hver fiskur að reyna að koma sínum erfðaeiginleikum áfram til næstu kynslóðar í samkeppni við aðra fiska sömu tegundar. Þess vegna er mikilvægt að nota kænsku að koma sem flestum hrognum frá sér í lífinu. Það gerir hann með því að ná hámarks hrognafjölda miðað við tíma og orkubúskap. Hrognafjöldi vex með stærð fisksins og með því að bíða og stækka verða hrognin fleiri þegar hann ákveður að hrygna. Meðan vöxtur er góður bíður hann með kynþroskann, en ef draga fer úr vexti er ekki eftir neinu að bíða og fiskurinn hrygnir. Flestir fiskar hrygna aðeins einu sinni, "uppleggið" er miðað við það. Þannig er það með loðnu og lax t.d.

Þegar laxeldið stóð hér sem hæst fyrir nokkrum árum var eitt af vandamálunum að fiskurinn varð kynþroska áður en hann náði sláturstærð. Eftir það óx hann lítt sem ekkert. Þetta var kallað "ótímabær kynþroski" og margt var reynt til að koma í veg fyrir þetta með misjöfnum árangri. M.a. var fiskurinn geltur og nú er algengt að nota bleikju sem gelt hefur verið með hormónum á hrogna- eða seiðastigi . Menn gerðu sé ekki grein fyrir því þá að ástæðan var að fiskurinn hafði það svo skítt að hann átti einskis annars úrkosta en að eyða síðustu kröftunum í ætlunarverkið, hrygna áður en hann dræpist.

Þegar um er að ræða þorsk eða ýsu í náttúrunni getur málið sýnst flókið. Mjög er mismunandi eftir svæðum og tímabilum hve stór fiskur í "sama " stofni er þegar hann verður kynþroska. Einfaldara er að skoða fiska sömu tegundar sem lifa aðskildir við mismunandi skilyrði, eins og t.d. bleikju og urriðastofna í mismunandi vötnum sem eru tiltölulega smá og einsleit þannig að öllum fiskum í stofninum eru búin svipuð skilyrði. Takið eftir að ég hef einungis talað um kynþroska -stærð , en ekki aldur. Þó má sjá í flestum ritgerðum og skýrslum að miðað er við kynþroska -aldur. Talað er um að svo og svo há prósenta af fjögurra ára fiski sé kynþroska, fiskurinn verði aðallega kynþroska fimm ára, eða ekki fyrr en sex ára, rækja skipti um kyn við þriggja ára aldur og svo mætti lengi telja.

Það er rangt að tala um aldur í þessu sambandi vegna þess að það er ekki aldurinn sem slíkur sem stjórnar kynþroskanum. Fiskar stækka venjulega með aldri og þess vegna skapast þarna visst samband milli aldurs og kynþroska. En fiskurinn kann ekki að telja og veit ekki hvað hann er gamall.

Hann "finnur" hins vegar hvað hann er stór með því að mæla eða meta hversu vel honum gengur í lífinu, hvernig hann þrífst, því það verður stöðugt erfiðara verður að framfleyta sér eftir því sem hann stækkar. Fæðuþörf vex, hann þarf að éta fleiri og stærri bita sem sífellt erfiðara er að ná í og meiri orka fer í að anda og viðhalda sér því stærri sem hann verður. Loks kemur að efri mörkum, hann getur ekki stækkað meira, hann vex upp í þakið eins og sagt er. Þegar svo er komið er orðið of seint að hrygna og auka kyn sitt. Hann er kominn á tamp með orku og getur ekki þroskað hrogn og svil. Þess vegna hefur hann þá fyrirhyggju að verða kynþroska áður en hann nær upp í þakið og hættir að vaxa.

Sagt á annan hátt: Þegar fiskurinn sér fram á að hann getur ekki vaxið meira og aukið þannig hrognafjöldann, sér hann sitt óvænna og hrygnir.

Það er vel þekkt að bleikja í íslenskum vötnum verður misstór. Ef skoðuð er hámarksstærð og kynþroskastærð bleikju í vötnum þar sem skilyrði til einstaklingsvaxtar eru mismunandi, kemur fram það samhengi sem sýnt er á myndinn i hér að neðan. Sterk fylgni er milli þeirrar hámarksstærðar sem unnt er að ná í viðkomandi vatni og kynþroskastærðar í því sama vatni.

Sums staðar finnast bleikjulontur sem verða kynþroska 8 cm og verða aldrei stærri en 10 sm. Þetta má sjá í gjánum í Þingvallavatni. Annars staðar verður bleikjan að sjálfssögðu mun stærri. Útreikningar sýna að bleikjan verður kynþroska við um 80% af hámarksstærð.

Nýlega hefur svipað samband fundist hjá rækju, sú stærð þar sem 50% dýranna eru orðin kynþroska kvendýr er um 80% af þeirri hámarksstærð sem rækjan getur náð á hverjum stað. Þessa sömu reglu má finna hjá fleiri tegundum. Ekki skal farið nánar út í þetta hér, heldur skal ítrekað mikilvægi þessa þáttar fyrir stjórn fiskveiða. Eftir að fiskurinn hefur orðið kynþroska er ekki til neins að geyma hann, og reyndar orðið of seint að veiða hann, því hann er að mestu hættur að stækka og farinn að setja orkuna í annað en vöxt.

Lítum aðeins á myndina hér að neðan en hún sýnir vaxtarferla ýsu í Faxaflóa 1995 og þorsks í Arnarfirði 1999 (eigin rannsóknir).

Kynþroskastærð var ekki athuguð nákvæmlega en ýsa í Flóanum er öll orðin kynþroska 40 sm löng, og verður oft kynþroska mun styttri. Sjá má hvernig smám saman dregur úr árlegum lengdarvexti og hvernig vaxtarferillinn virðist stefna í ákveðið þak. Athyglisvert er hve tiltölulega smá ýsa er orðin gömul og hve lítill stærðarmunur er á 4 og 7 ára ýsu. 45-50 cm ýsa er um eitt kg á þyngd.

Nú kann einhver að segja: Þetta getur ekki verið rétt, ýsa er oft ókynþroska stærri og oft sjást mun stærri ýsur en 50 cm í Faxaflóa. Eins má sjá ókynþroska þorsk af öllum stærðum og þorskar geta orðið risastórir. Allt saman rétt því undantekningar eru á öllum hlutum og oft algengar. Það sem lýst hefur verið hér að ofan er hin almenna regla, hið stóra meðaltal ef svo má segja. Sagt var að fiskurinn fyndi það hvernig erfiðara yrði um aðdrætti þegar hann stækkaði. En fiskur getur skipt um lífshætti og þá breytist margt. Hann getur t.d. skipt um fæðu, farið að éta fisk, jafnvel bræður sína, í staðinn fyrir botndýr. Þá verður hann ekki í neinum vandræðum með að stækka og hann heldur áfram að vaxa og "frestar" kynþroskanum. Því er það algengt, sérstaklega hjá þorski, að finna stórar ókynþroska fiskætur. Mörgum þykir það góð fiskveiðisttjórn að veiða aðeins stóra fiska en hlífa smáfiskinum. Þetta er kolröng stefna, því fiskæturnar eru þungar á fóðrum. Það þarf nefnilega um 10 kg af fóðri (fiski) til að framleiða 1 kg af fiskætum í náttúrunni. Léleg búvísindi það.

Hér hefur verið bent á að það sé rétt að veiða fiskinn um það bil sem hann verður kynþroska, þó hann sé ekki stórvaxinn, annars tapist afli. Hér hefur ekki verið talað um hrygningarfisk sem nauðsyn þess að viðhalda stofninum, en margir eru andvígir að veiða kynþroska fisk því hann sé svo mikilvægur til viðhalds stofninum. Betra sé að lofa honum að hrygna, helst sem oftast, það gefi af sér ungviði þegar fram í sækir.

Heilan kafla og jafnvel marga má skrifa um þau mál en það verður ekki gert að sinni. Ein ástæða þess er sú að ég tel ekki að vandamál fiskveiða okkar liggi í skorti á seiðum. Að mínum dómi felst vandamálið í offriðun og vanveiði. Það er til lítils gagns að búa til fleiri einstaklinga sem ekki má veiða.


Aftur á forsíðu