Fiskveiðiráðgjöf við Færeyjar 2004

Í Fréttablaðinu nýlega (í júní 2004) var haft eftir Einari Hjörleifssyni fiskifræðingi á Hafró og formanni í Ráðgjafanefnd Alþjóða hafrannsóknaráðsins, í tilefni ráðlegginga ráðsins um mikinn niðurskurð í þorskveiðum við Færeyjar að "við sem erum að vinna í þessu hefðbundnu vísindum leggjum fram mat okkar miðað við ákveðnar forsendur". Einnig sagði hann: " Ef Færeyingar ætla að halda áfram þessar stífu sókn, ef ekki kemur inn góður árgangur, þá er spurning hvort þeir lendi í sama ástandi og þeir voru í í upphafi tíunda áratugarins, þegar afli þeirra fór niður fyrir 10 þús tonn nokkuð mörg ár í röð".

Skjótt skiptast veður í lofti því ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan sami Einar hélt því fram í viðtali við 'Fiskifréttir' að færeyski þorskstofninn hefði sérstöðu í Norður- Atlantshafi vegna hóflegrar sóknar í hann og þess vegna hefði hrygningarstofninn ekki minnkað. Þessi skoðun Einars í febrúar sl. kom mér verulega á óvart þar sem eftir viðtalinu að dæma var sem hann hefði litla þekkingu á þorskstofni og þorskveiðum við Færeyjar svo og sögu og liffræðiþáttum stofnsins. Sjálfur hef ég verið til ráðgjafar um veiðar við Færeyjar frá 2001 og því kynnt mér tiltæk gögn um fiskstofna við eyjarnar.

Furðufréttir

Í Fiskifréttum 20. febrúar 2004 var viðtal við Einar Hjörleifsson fiskifræðing Hafrannsóknastofnun en hann hafði haldið erindi í málstofu Hafró í vikunni áður um þróun þorskstofna í Norður-Atlantshafi síðustu 40 ár. Þar hélt hann því fram að þorskstofninn við Færeyjar hefði sérstöðu meðal þorskstofna í Norður- Atlantshafi að því leyti að sóknin í hann hefði verið miklu hóflegri en í hina þorskstofnana síðustu áratugina og væri hinn íslenski þar ekki undanskilinn. Þess vegna hafi færeyski hrygningarstofninn haldist tiltölulega sterkur sem er forsenda fyrir góðri nýliðun og þar með góðum afla áleit Einar:

,,Færeyski þorskstofninn sker sig verulega úr að þessu leyti. Sögulegur veiðidauði í honum er með því lægsta sem þekkist. Hrygningarstofninn hefur ekki minnkað eins og í öðrum stofnum og er nálægt sögulegu meðaltali. Framleiðslugeta stofnsins hefur því ekki skerst eins og í öðrum stofnum," segir Einar. Fram kom í máli hans að hrygningarstofn færeyska þorsksins væri álíka stór í dag og hann var árið 1960. Til samanburðar megi nefna að hrygningarstofn íslenska þorsksins sé aðeins fjórðungur af því sem hann var árið 1960. "Þetta styðji það sem íslenskir fiskifræðingar hafi haldið fram alveg frá árinu 1980 að lélegur hrygningarstofn geti af sér lélega nýliðun".

Ég var mjög hissa á fullyrðingum Einars. Ég hef komið að fiskveiðiráðgjöf í Færeyjum síðan 2001 og slagsmálin hafa staðið um að koma í veg fyrir niðurskurð á sóknardögum em ráðlagðir eru af Hafró þar í landi með blessun ICES, vegna meintrar ofveiði á þorski, ýsu og ufsa. Þess vegna þótti mér skjóta skökku við að heyra Einar, sem er formaður í aflaráðgjafarnefnd ICES, allt í einu tala um hóflega nýtingu. Þá sýnist mér að fullyrðingar hans um stóran hrygningarstofn og gagnssemi hans til viðhalds séu nokkuð fjarri raunveruleikanum. Í því sambandi má benda á eftirfarandi:

1. Hrygningarstofn þorsks við Færeyjar er ekkert stöðugt fyrirbæri. Hann sveiflast upp og niður með reglulegum hætti, frá 20 - 120 þús tonn. Að meðaltali er hann stór eins og Einar bendir á en verður ærið lítill á stundum. Sagði Einar ekki að hann væri stór vegna lítillar veiði og þess vegna væri nýliðun góð?

2. Nýliðun þorsks við Færeyjar hefur verið ærið sveiflukennd (sjá myndir að neðan).

3. Nýliðun og hrygningarstofn sveiflast í takt en í öfugum fasa! Þegar hrygningarstofn vex minnkar nýliðun og öfugt. Ég benti á þetta á ráðstefnu í Bergen 1998 og sendi sjávarútvegsráðherra og Sjávarútvegsnefnd Alþingis bréf um málið vorið 1998. Þar skýrði ég einnig frá orsökum sveiflanna og varaði við: - skv. reglunni myndi þorskstofn við Ísland fara minnkandi, sem kom svo á daginn, þvert á fullyrðingar Hafró, Einars og Co.

--------------

Þá er þess að geta að mjög hefur dregið úr vexti bæði þorsks og ýsu við Færeyjar og fiskurinn er að horast niður. Gögnin sem Einar hefur (ICES gögnin) eru frá í fyrra, 2002 og vor 2003, og þá var þetta ekki farið að sjást. Mér fannst þetta hins vegar greinilegt í júní 2003 þegar ég var að vinna að ráðgjöf ársins og lagði því til aukningu sóknardaga um 15% til þess að hjálpa fiskinum í gegn um hallærið. Haustið 2003 fékkst svo frekari staðfesting á samdrættinum í Færeyskum rannsóknaleiðöngrum, m.a. kom fram að merktur þorskur um og yfir 60 cm langur hafði lítið sem ekkert stækkað á heilu ári. Þá lækkaði vísitalan um helming á Færeyjabanka og þyngdarstuðull fiska hafði lækkað verulega.

Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins um stöðvun þorskveiða kemur svo þegar þeir, seinastir allra, gera sér grein fyrir því að þorskstofninn sé að minka, en kenna um ofveiði, ályktun sem er út úr kú þegar stofninn er í svelti. Færeyskir sjómenn, útgerðarmenn og fiskverkendur, svo og fiskidaganefndin sem er ráðherra til ráðgjafar, hafa lagt til að ráðgjöfin verði hundsuð, vilja jafnvel sumir að bættverði við dögum. Færeyingar skilja nefnilega þetta með ítölu á afréttinn.

Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, um fiskveiðar í Færeyjum 2001-2003

Þorskafli 2000: 22,000 t

Þorskur 2001: ICES mælir með að sóknarstuðull verði lækkaður um a.m.k 25% en það svarar til að afli verði 22,000 tonn

(Advice on management: ICES advises that fishing mortality in 2002 should be reduced by at least 25% towards the F pa, corresponding to landings of no more than 22,000 t .)

Hér var ég kallaður til ráðgjafar og mælti með óbeyttri sókn - og það var farið eftir því.

Aflinn 2001 varð 30,000 tonn

Þorskur 2002

ICES leggur til að dregið verði úr sókn um 50%. Ef ekki er hægt að gera þetta í einu stökki ætti að byrja á að lækka fiskveiðidánartölu um a.m.k. 35% 2003.

(Advice on management: ICES advises a reduction in fishing mortality to below F pa (0.35), corresponding to an effort reduction of 50%. If this cannot be done in one year then as a first step, the fishing mortality in 2003 should be reduced by at least 35% in accordance with the fishing mortality advised (0.46) in 2001.)

Það ber að athuga að núverandi sókn er langt umfram forsvaranleg mörk er (Fpa) en verið er að endurskoða þau mörk. Minnkun sóknar í forsvaranleg mörm tilsvarar 23,000 tonna afla og 23% lækkun veiðidánartölu 2003 þýðir að afli verður 28,000 tonn.

(Relevant factors to be considered in management: Current fishing mortality is far above the F pa, but the basis for F pa is under revision. A reduction in fishing mortality to F pa corresponds to landings of less than 23,000 t, and a 35% reduction in fishing mortality in 2003 corresponds to landings of less than 28,000 t.)

Aflinn 2002 varð 40,000 tonn

Þorskur 2003

ICES leggur til að dregið verði úr sókn um 25%

(Advice on management: ICES advises an effort reduction of at least 25% compared to the recent level to bring the fishing mortality towards F pa . )

Ég lagði til 15% aukningu á sókn vegna þess að fiskur var horaður og vöxtur var að minnka vegna offjölgunar að mínu mati. Ekki var farið eftir því en það mun koma mér til góða síðar, þegar skýra þarf minnkaðan afla og samdrátt í stofni. Ekki má kenna ofveiði um minnkun stofnsins eins og oftast er gert, fremur má segja að sóknin hafi verið of lítil, hún megnaði ekki að halda aftur af stækkun fiskstofnanna með þeim afleiðingum að fiskur veslaðist upp af fæðuskorti - .

Aflinn 2003 varð 30,000 tonn

Þorskur 2004

ICES leggur til að þorskveiðar verði stöðvaðar.

-------------------------------------

Samband hrygningarstofns og nýliðunar sett fram á hefðbundinn hátt. Ekki er með nokkru móti hægt að halda því fram að unnt sé að sjá að stór stofn gefi meira af sér en lítill stofn. Samt er þetta alltaf sett fram svona.

Hér er hrygningarstofn og nýliðun sem fall af tíma. Greinilega má sjá að ekki fer saman stór hrygningarstofn og góð nýliðun, þvert á móti, toppar í nýliðun koma þegar stofninn er lítill og öfugt.

Með því að meðhöndla gögnin, filtera burt truflanir og óreglu og nota hlutfallslegar stærðir, þ, e, frávik frá 9 ára meðaltali, skýrast sveiflurnar: Þegar hrygningarstofninn vex dregur úr nýliðun og öfugt.
Stofninn leitar jafnvægis við fæðuskilyrðin, sem hann skapar sér að hluta til sjálfur. Þegar hrygningarstofninn er stór er heildarstofninn einnig stór og lítið um mat og pláss handa ungviði, en ungviðið fær 'tækifæri' þegar stofninn minnkar aftur, úr hungri og sjálfáti.