Fundur í Vísindafélagi Íslendinga 1999

Ég hélt erindi í Norræna húsinu þann 27. október 1999. Það væri ekki í frásögur færandi ef ekki hefðu komið viðbrögð við auglýsingu fundarins áður en hann var haldinn. Arnþór Garðarsson prófessor við Líffræðideild Háskólans sá ástæðu til að amast við auglýsingum stjórnar Vísindafélagsins og sendi þeim tóninn á tölvupósti. Þar sagði hann að félagið væri að stuðla að ranghugmyndum með því að halda þennan fund. Mér finnst það nú ekki í anda frjálra skoðanaskifta og vísindalegrar umræðu að ritskoða fundarefni. Frummælandi hlýtur að hafa rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri, verja þær, taka við gagnrýni o. s. frv.

Því þykir mér ástæða til að birta hér þessar aðfinnslur, svo menn geri sér betur grein fyrir þeim vanda sem vísindasamfélag vort virðist vera í . Það eru sumsé til "réttar og "rangar" skoðanir.

Hér á eftir fer auglýsingin frá stjórn Vísindafélagsins sem send var til allra félagsmanna, svo og prentfjölmiðla á tölvupósti:

>From: Sigurður Steinþórsson <sigst@raunvis.hi.is> > Subject: Fundarboð

FUNDUR Í VÍSINDAFÉLAGI ÍSLENDINGA

Miðvikudag 27. október, í Norræna húsinu kl. 20:30, flytur Jón Kristjánsson fiskifræðingur fyrirlestur hjá Vísindafélagi Íslendinga, um:

"Mat á áhrifum kísilgúrvinnslu á fisk og fiskveiðar í Mývatni"

Fyrirlesturinn er í tilefni af nýrri skýrslu þar sem kynnt er frummat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Þar kemur m.a. fram að ekki sé hægt að tengja sveiflur í lífríki Mývatns við starfssemi Kísiliðjunnar. Fyrirlesari kvöldsins, Jón Kristjánsson, skrifaði um áhrif vinnslunnar á fisk og fiskveiðar og setti þar fram þá skoðun að fiskur væri mikill áhrifavaldur í þessum sveiflum og geti jafnvel stjórnað þeim. Þá er gert ráð fyrir að fiskstofnar, bleikja og hornsíli, gangi svo nærri fæðudýrum sínum að stofnarnir hrynja. Það leiðir svo aftur til hruns í fiskistofnum og öðrum stofnum sem háðir eru sömu fæðu, fuglum til dæmis. Sagt verður frá rannsóknum og tilraunum sem sýna að fiskur hefur mikil áhrif í vistkerfinu og verður leitast við að skýra atburðarásina í Mývatni í ljósi þessarrar vitneskju.

>Fyrirlesturinn er öllum opinn.

>Stjórn Vísindafélagsins > Með kveðju

Þessi auglýsing varð til þess að einn félagsmanna, Arnþór Garðarsson prófessor við H.I. sendi stjórninni athugasemdir:

Athugasemdirnar sem Arnþór sendi félagsmönnum 27.október, áður en fundurinn hófst:

Vegna fundarboðs stjórnar Vísindafélags Íslendinga um mat á áhrifum kísilnáms á fisk og fiskveiðar í Mývatni vil ég benda félögum á að þar er á alið á ranghugmynd um stofnsveiflur í Mývatni og hugsanleg tengsl þeirra við kísilgúrnám.

Áhrif kísilgúrnáms Stærsta atvinnustarfssemin við Mývatn er kísilgúrvinnsla úr botnseti vatnsins sem er dælt upp og, þurrkað og brennt (sjá t.d. Jón Ólafsson 1979, Oikos 32, 82-112). Kísilgúr samanstendur af örsmáum kísilskeljum þörunga sem vaxa á botni vatnsins og eru ein helsta undirstaðan í allri lífrænni framleiðslu þess. Árleg efnistaka nemur um þrefaldri ársframleiðslu nýmyndaðs sets og er því ekki sjálfbær.

Kísilnám hófst árið 1967, 6 árum áður en Mývatn og Laxá voru friðlýst með sérstökum lögum. Á þeim tíma sem kísilvinnsla hófst var lítið um sérfræðiþekkingu í vatnalíffræði hér á landi og því var haldið fram án rökstuðnings eða nokkurra niðurstaðna byggðum á rannsóknum að námagröfturinn væri annað hvort meinlaus eða jafnvel til bóta i vatninu sem grynnist á löngum tíma. Engar rannsóknir á umhverfinu fóru fram í upphafi þessarar starfsemi.

Síðari rannsóknir hafa sýnt að taka kísilgúrs hefur ýmsar alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir vistkerfi Mývatns. Þessar afleiðingar stafa af því að efnistakan losar um næringarefni í botnsetinu (Jón Ólafsson 1979, Oikos 32, 82-112; 1991, Náttúra Mývatns, 140-165) og breytir landslagi á botni sem m.a. leiðir af sér röskun á setburði (Helgi Jóhannesson og Sturla Birkisson 1989, Setflutningar í Mývatni, Vegagerðin, 29 bls; Gunnar Tómasson and Snorri Páll Kjaran 1993, Árbók Verkfræðingafélags Íslands 1992/93, 294-305).

Augljós grundvallaráhrif á lífríki Mývatns eru sem hér segir:

1. Ákoma næringarefna hefur aukist, ákoma niturs um 90% og ákoma fosfórs (sem fosfats) um 7% frá því að kísilnám hófst (Jón Ólafsson 1991, Náttúra Mývatns, 140-165).

2. Flatarmál grynninga með rótföstum botngróðri minnkar, en það hefur í för með sér röskun á árstíðaferli í framboði næringarefna (Lie 1979, í J. E. Breck o.fl. (ritstj.) Aquatic plants, lake management, and ecosystem consequences of lake harvesting, 101-126, Madison; Granéli og Solander 1988, Hydrobiologia 170, 245-266; Gerður Stefánsdóttir 1991, Skýrsla til Sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir, 34 bls.).

3. Flatarmál grynninga, þar sem vatnafuglar (flórgoðar, endur og álftir) í ætisleit ná auðveldlega til botns, minnkar (Árni Einarsson og Margrét L. Magnúsdóttir 1993, Biological Conservation 66, 55-60).

4. Rýrnun verður á fæðu þeirra botndýra sem eru undirstaða fuglalífs og silungsveiða í Mývatni, svo og í Laxá, vegna þess að setburði er raskað með námagreftri, þ.e.a.s. næringarríkt set er flutt af grunnum svæðum á dýpri svæði. Þessi niðurstaða hefur augljós áhrif á botndýrin vegna þess að þau lifa á rotnandi leifum og kísilþörungum í efsta lagi botnssetsins (sbr. Jón S. Ólafsson, 1990, Rannsóknastöð við Mývatn, skýrsla 8, 35 bls.; Erla B. Örnólfsdóttir, 1998, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, fjölrit 1, 89 bls., Gísli M. Gíslason, 1991, Náttúra Mývatns, bls. 218-235 ).

Ýmsir tæknilegir örðugleikar eru á því að tengja breytingar á einstökum lífverustofnum í Mývatni við ofangreind fjögur atriði, þannig að óyggjandi sé. Þar kemur einkum til að rannsóknir á þessu sviði eru nýjar af nálinni, ekki er líklegt að samband stofna sem verða fyrir neikvæðum áhrifum og stækkandi námasvæðis sé línulegt, og flestir þessara stofna eru afar breytilegir milli ára eða árabila.

Námaleyfi fyrir Kísiliðjuna, sem gefið var út af iðnaðarráðuneytinu í apríl 1993 og gildir til 2010, tekur mið af þessu og er gert ráð fyrir að starfsemin verði að hætta þegar takmarkað efni í Ytriflóa Mývatns klárast. Sýnt hefur verið fram á miklar stofnsveiflur í Mývatni hjá mörgum tegundum dýra og þörunga. Slíkar sveiflur eru sumar þekktar langt aftur í aldir og virðast ekki tengjast kísilgúrnámi. Það er hins vegar allútbreiddur misskilningur meðal almennings að tilvist náttúrlegra stofnsveiflna, sem ekki stafa af röskun af völdum kísilvinnslu, segi eitthvað um umhverfisáhrif þessarar starfsemi að öðru leyti. Þessi misskilningur er því miður tekin upp í fundarboði Vísindafélags Íslendinga fyrir fyrsta fund félagsins veturinn 1999-2000, sem höfuðatriði í umhverfisáhrifum Kísiliðjunnar á fisk og fiskveiðar í Mývatni. Um leið virðist gleymast að silungsveiði í Mývatni hefur minnkað stórlega við tilkomu kísilgúrnámsins og meðalveiði 30 ára eftir 1970 er um helmingur af meðaltali 30 ára þar á undan.

Mér sýnist að stjórn Vísindafélagsins hafi orðið á alvarleg mistök í auglýsingu þessa fyrirlesturs. Hyggst stjórnin vanda meira til fundarboða á næstunni eða megum við eiga vona á því að vísindalegar niðurstöður verði framvegis afbakaðar í fundarboðum?

Bestu kveðjur

Arnþór Garðarsson prófessor Háskóla Íslands

Athygli á fundinum var einnig vakin með því að senda viðtalið sem kom í Degi og var aðgengilegt á neti.

Þá sendi Arnþór meiri póst til stjórnar:

"Ég tel að auglýsingar ykkar stjórnarmanna séu komnar út fyrir velsæmismörk og fer fram á að þú dreifir athugasemd sem ég sendi áðan til sömu viðtakenda eins og hafa fengið þennan póst. Það er með ólíkindum að Vísindafélag Íslendinga sé farið að dreifa svo ómerkilegu kjaftæði."

Með kveðju, Arnþór Garðarsson

til baka


Aftur á heimasíðu