Írska hafið 2003

Fiskveiðinefnd Evrópubandalagsins lagði til vorið 2003 að tekin yrði upp sóknarstjórn í írska hafinu, sem er milli Írlands og Englands, í stað núverandi kvótakerfis. Mætti ætla að auka ætti frjálsræðið og gera mönnum kleift að stunda veiðarnar án þess að þurfa að henda fiski sem þeir ættu ekki kvóta fyrir. En það var nú ekki raunin.

EB hefur sagt að írska hafið sé að verða fisklaust vegna ofveiði, kvótakerfið hafi ekki getað hindrað ofveiðina- nú skuli bæta um betur og koma í veg fyrir að helvítin rói og skammta þeim daga. Úthlutað verði kílóvattdögum, þ.e. vélarorka sinnum dagar, sem nægi til að veiða þann litla kvóta sem leyfður er. Sjómenn sjá sæng sína útbreidda, því þeir hafa aldrei farið eftir kvótunum, bara látið vera að skrá aflann og nú er svo komið að einungis örfá % af þorski og ýsu eru skráð sem afli. Hitt fer í land sem svartur fiskur. Þannig er ýsukvótinn 650 tonn en álitið er að aflinn sé 12000 (tólf þúsund) tonn. Vísindamenn telja að þorskaflinn sé 2500 tonn, en ýmsir telja að hann geti verið allt að 15000 tonn. Þorsk og ýsukvóti hjá meðal togara er 2 kassar á mánuði, en algengur afli er 4-6 kassar á togtíma!

En nú á sumsé að stöðva glæpinn. Það myndi þýða endalok fiskiðnaðar við Írska hafið. Sjómenn hafa því ákveðið að snúa vörn í sókn og helstu útgerðarfélög á Írlandi og Bretlandi hafa sameinast í þeiri baráttu. Mikill ágreiningur er um ástand fiskstofna milli sjómanna og vísindamanna. Vísindamenn halda því fram að fiskurinn sé búinn og vilja loka öllu, sjómenn segja hið gagnstæða, nógur fiskur sé á ferðinni. Félög sjómanna og fiskframleiðenda fengu mig til að gera úttekt á ástandi fiskstofna í Írska hafinu. Ég fór út með togara, Sparkling Sea, sem er einn nýjasti togarinn á N-Írlandi, 25 m langur, byggður 1982. Við veiddum í botnlægt flottroll og fengum þokkalegan afla af afbragðs þorski og fremur smárri ýsu.

Fundur með fiskifræðingum í Belfast

Í júlí 2003 átti ég, ásamt sjómönnum, fund með Hafró í Belfast. Þar skiptust menn á skoðunum eins og gengur. Þar sagði einn skipstjóri að miklu meiri veiði væri í Írska hafinu en skýrslur segðu, t.d. væri hann búinn að landa ýsukvótanum 18 sinnum án þess að gefa upp umframveiði. Fiskifræðingar ypptu bara öxlum. Þeir virðast ekki hafa áhuga á að vita sannleikann. Það virðist komið svo að þeir kæri sig ekki um að þetta fréttist. Þeir vilja halda blekkingaleiknum áfram svo ekki komist upp að þeir hafi sofið á verðinum í mörg ár. Ekki skiftir máli þó þeir með hegðun sinni séu að verða búnir að eyðileggja fiskiðnaðinn. Helmingur flotans er farinn í brotajárn og ekki blasir við annað en veiðibann til bjargar þorskinum í ímynduðu fiskleysi.


Kynning á niðurstöðum í Kilkeel N-Írlandi 5. september.

Ég kynnti niðurstöður mínar á sérstökum fundi eða ráðstefnu í byrjun september.

Til fundarins var einnig boðið Jörgen Niclassen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, þeim sama og gaf skít í hina hefðbundnu ráðgjöf, samdrátt, á sínum tíma. Einnig var á fundinum Sigurjón Þórðarson alþingismaður.

Fyrir fundinn var beitt hefðbundnum aðferðum, hringt var í forsvarsmenn sjómannasamtaka og þeim sagt að ekki tæki því að fara og hlusta á svona bull. Aðal- fiskifræðingurinn í Belfast treysti sér ekki til að mæta og verja hina hefðbundnu stefnu, í staðinn var fenginn fiskifræðingur frá Dublin. Hann sagði mér reyndar að hann hefði verið beittur þrýstingi til að mæta ekki, alveg undarlegt sagði hann en mætti galvaskur þrátt fyrir hótanir. Þessi vinnubrögð sannfærðu sjómenn á Írlandi endanlega um að fiskifræðingar þeirra hefðu eitthvað að fela.

Fundurinn tókst vel og 'okkar' málflutningur vakti mikla lukku. Ákveðið var að halda slíkar ráðstefnur á Englandi og í Skotlandi í haust. Hið víðlesna svávarútvegsblað 'Fishing News' gerði vinnufundinum skil í opnu grein 19. september. Þar sögðu þeir einnig frá aðferðum ICES til þess að drepa gagnrýni: Rægja gagnrýnendur og gera lítið úr þeim. Hér er að finna (á ensku) frásögn Fishing News af fundinum. Skýrsla mín um úttekt á ástandinu í Írska hafinu er hér (PDF 235 Kb), og hún er einnig á ensku.

Til baka