Færeyska kerfið til umræðu í Danmörku

Eftir Magnús Þór Hafsteinsson (Af vef Frjálslynda flokksins, www.xf.is)

Færeyska sóknardagakerfið vekur æ meiri athygli í löndum Evrópusambandsins. Eftir fjölda ára með kvótastýrðum fiskveiðum í lögsögu sambandsins stendur varla steinn yfir steini, og djúp kreppa blasir meðal annars við bolfiskveiðum í Norðursjó. Þessi kreppa einkennist af kvótaniðurskurði, gjaldþrotum, gengdarlausu kvótasvindli og brottkasti á fiski. Kannast einhver við lýsingarnar?

Í byrjun þessarar viku var Jón Kristjánsson fiskifræðingur fyrirlesari á fjölmennum opnum fundi sem haldinn var með sjómönnum, embættismönnum, fiskifræðingum og öðrum í Hirtshals í Danmörku. Með honum í för var Jörgen Niclasen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja og þingmaður á færeyska lögþinginu.

Þeim var báðum boðið til fundarins af Dönum. Báðir hafa í vetur haldið svipaða fundi á Írlandi, í Bretlandi og Skotlandi þar sem Jón hefur haldið fyrirlestra um kenningar sínar í fiskifræði og Jörgen Niclasen síðan lýst reynslunni af færeyska kerfinu sem byggir á kenningum Jóns Kristjánssonar og hefur skilað metafla um nokkurra ára skeið við Færeyjar. Flýgur fiskisagan, og nú er svo komið að það líður vart sá mánuður að þessu ágæta tvíeyki sé ekki boðið að halda erindi vítt og breitt í löndum innan Evrópusambandsins.

Fyrirlestrar þeirra félaga og umræður í framhaldi af þeim hafa vakið mikla athygli og umfjöllun í Danmörku. Greinar hafa birst í nokkrum af stærstu dagblöðum landins og frétt birtist í fréttatíma danska sjónvarpsins sem sendur var um allt landið á besta útsendingartíma. Sjónvarpsfréttina má sjá hér.

--------------------------------------------------

Hér fyrir neðan fer svo þýðing á fréttagrein sem birtist í Jyllandsposten þriðjudaginn 6. janúar 2004

Stórfundur í Hirtshals

Hirtshals, Jyllandsposten:Góð reynsla frá Færeyjum og skarpar yfirlýsingar frá íslenskum fiskifræðing um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins skapar nýjar væntingar hjá dönskum sjómönnum. Kreppan í grein þeirra beinir athyglinni að afnámi margbölvaðs kvótakerfis í fiskveiðum.

Hópur danskra sjávarútvegsbyggða sendi í lok síðasta árs neyðarboð til danska þjóðþingsins og ríkisstjórnar Danmerkur þar sem bent var á þörf fyrir skjóta aðstoð til dansks sjávarútvegs, sem er í efnahagskreppu. Það leiddi meðal annars til fundar með Mariann Fischer Boel (Venstre), en hún er fæðumálaráðherra Danmerkur og fer með sjávarútvegsmál. Þrátt fyrir þetta halda sveitafélögin áfram baráttu sinni fyrir betri tíð.

Ákvarðanir í ráðherranefnd Evrópusambandsins rétt fyrir jól, þýða að stórum hluta danskra fiskveiða er nú stjórnað bæði með kvótum og svokölluðum sjódögum. Slíkir dagar koma sem viðbót við kvóta og segja til um það hve oft einstök skip mega róa til fiskjar.

Fundurinn í Hirtshals Á mánudag var einmitt boðað til fundar um fiskveiðistjórnun í Hirtshals. Fundurinn sýndi bersýnilega að fiskveiðarnar einkennast enn af erfiðum deilumálum þar sem mikið ber í milli. Það gildir ekki síst varðandi spurningar um hina líffræðilegu ráðgjöf, sem framkvæmdaráð Evrópusambandsins og ráðherrarnir byggja ákvarðanir sínar á.

Fundurinn á mánudag bauð upp á mjög harkalegt orðaskakseinvígi á milli hins óháða íslenska fiskifræðings, Jóns Kristjánssonar, og formanns ráðgjafanefndar Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Það er einmitt ICES sem árlega skilar inn ráðgjöf um veiðar, og hefur meðal annars síðustu árin mælt með að þorskveiðar í Norðursjó yrðu stöðvaðar þar sem tegundinni er ógnað.

Hafa rangt fyrir sér Jón Kristjánsson sem meðal annars hefur starfað sem fiskveiðiráðgjafi fyrir færeyjinga, er þeirrar skoðunar að ICES og Evrópusambandið hafi rangt fyrir sér, varðandi þorskveiðar til að mynda í Norðursjó. Andstætt núverandi pólitík med gríðarlegum niðurskurði í kvótum, þá fullyrðir íslenski líffræðingurinn þvert á móti að það sé þörf fyrir auknar veiðar í Norðursjó.

"Ef við fjarlægjum ekki fiskinn, þá gerir náttúran það. Þorskfiskar í Norðursjó líða hungur við núverandi aðstæður og við getum ekki bætt úr því með því að veiða minna. Þvert á móti þá sýna sögulegar tölur að auknar veiðar leiði til aukningar í stofnstærð, og öfugt", segir Jón Kristjánsson. Hann byggir á eigin rannsóknaniðurstöðum, og setur fram harða gagnrýni á ráðgjöf og vinnubrögð ICES.

Þessu var strax andmælt á mánudag af Poul Degnbol sem er formaður ráðgjafanefndar ICES og hefur aðsetur einmitt í Hirtshals. "Það hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir síðustu 20 árin varðandi þetta, og þetta hefur verið tekið með í vinnu ICES", sagði Poul Degnbol. Hann hvatti íslenska fiskifræðinginn til að taka þátt í starfsemi ICES.

Vandleg kynning Á fundinum fengu um 150 áheyrendur, þar sem meirihlutinn var sjómenn frá jótlenskum hafnabæjum, einnig vandlega kynningu á því hvernig fiskveiðum er stjórnað við Færeyjar. Þar var kvótakerfið afnumið um miðbik tíunda áratugs síðustu aldar. Í staðinn fær hvert skip úthlutað ákveðnum fjölda sóknardaga árlega. Allt sem veiðist berst á land. Þar með eru vandamál vegna brottkasts á matfiski og svokallaðar "svartar landanir", úr sögunni.

Það verður þó erfitt fyrir Danmörku að taka upp slíkt kerfi þar sem dönskum fiskveiðum er stjórnað samkvæmt sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Þrátt fyrir þetta þá hlustuðu margir þingmenn út matvælanefnd danska þjóðþingsins með athygli á umræðurnar á mánudag. "Við höfum gert samning við Fiskifélag Danmerkur um að það komi með tillögur um stjórnun matfiskveiða innan hálfs árs. Þar á eftir verðum við að meta hvað hægt er að gera, og hvaða möguleika við höfum til að taka í gildi nýjar reglur í Danmörku", segir þingmaðurinn Ole Vagn Christensen sem er talsmaður sósíaldemókrata í sjávarútvegsmálum.

Fréttagrein sem birtist í Jyllandsposten þriðjudaginn 6. janúar 2004. Þýdd af Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Hægt er að nálgast danska textann með því að senda tölvupóst til Magnúsar (magnush@althingi.is)

Til baka