Hvað gerðist í Barentshafi? (Er Barentshafið drullupollur?)

Sjómannablaðið Víkingur, 1. tbl. 1990, bls. 10-12.

Við Lofoten í norður Noregi er einhver mesta hrygningarstöð þorsks í heiminum. Þar hafa verið stundaðar veiðar um langan aldur og aflinn oft verið ævintýralegur. Það sem hefur þó einkennt þessar veiðar er hve þær hafa verið sveiflukenndar. Í fyrsta lagi er um að ræða árlegar sveiflur sem stafa af mismunandi gæftum. Í öðru lagi eru sveiflur sem einkennast af 4-5 góðum aflaárum í röð, með jafn mörgum lélegum árum á milli. Þessar sveiflur má tengja missterkum árgöngum. Þriðja gerðin af sveiflum er jafnframt sú alvarlegasta. Svo virðist sem um langtímasveiflu sé að ræða, þar sem um er að ræða 25 ára löng tímabil þar sem stofninn virðist stór og jafnlöng timabil þar sem hann er í lægð. Þannig var lítill afli frá síðustu aldamótum fram undir 1925 og allt bendir til þess að þá hafi stofninn verið mjög lítill. Eftir 1925 blómstraði stofninn og afli var góður. Eftir 1950 hefur aflinn sigið niður á við, og síðustu vertíðir hafa verið með eindæmum lélegar.

Aðdragandi hrunsins nú (1990)

Þorskurinn sem hrygnir við Lofóten elst upp í Barentshafi, sem nær frá Noregi til Svalbarða og Frans Jósefs lands í norðri og austur til Novaja Semlja. Vertíðin við Lofoten endurspeglar því velgengni þorsksins í Barentshafi.

Árið 1983 kviknaði mög sterkur árgangur þorsks í Barentshafi. Árgangarnir sem á eftir komu virtust einnig vera þokkalegir. Norskir fiskifræðingar spáðu því árið 1985 að afli færi vaxandi og unnt yrði að veiða 8-900 þúsund tonn árið 1990. Útgerðarmenn bjuggu sig undir að mæta þessum mikla afla, ekki skyldi standa á þeim.

Strax vorið 1987 kom í ljós að ekki var allt með felldu. Þorskurinn var horaður og miklar selavöður gengu upp að norsku ströndinnni í ætisleit. Sú skýring var gefin í Noregi að loðnustofninn hefði verið ofveiddur og því hefði þorskurinn ekkert að éta.

Norskir fiskifræðingar lögðu til að þorskkvótinn yrði minnkaður, og þeir héldu svo áfram að leggja til minni og minni þorskkvóta ár frá ári uns þeir lögðu til, ásamt alþjóða hafrannsóknaráðinu í október sl. að kvóti Norðmanna í Barentshafi yrði skorinn niður í 100 þúsund tonn. Hvað hafði gerst?

Ekki vantaði skýringar og þær voru hefðbundnar. Talað var um ofveiði, rányrkju, smáfiskadráp og breytt skilyrði í hafinu. Einnig var sett fram tilgáta um að sprengingar hefðu drepið fisk. Jakob Jakobsson forseti Alþjóða hafrannsóknaráðsins sagði í blaðaviðtali: " Ég tel ofveiði og röskun vistkerfisins miklu líklegri orsakir hruns fiskstofna í Barentshafi en sprengingar í rannsóknarskyni."

Nýtt hljóð í strokkinn

Allt til nú hafa skýringar á hruninu í Barentshafi verið í svipuðum dúr og nefnt var hér að ofan. Því kom mér það verulega á óvart að heyra nýja skýringu sem brýtur í bága við allt sem hingað til hefur verið sagt. Og það var ekki neinn maður út í bæ sem gaf hana, heldur sjálfur Odd Nakken, forstjóri norsku Hafrannsóknastofnunarinnar.

Í dagblaðinu Bergens Tidende laugardaginn 6. janúar sl. (1990) er haft eftir Odd Nakken:

"Niðurstöður úr fjölstofna rannsóknum benda til þess að fæðuþörf hins mjög svo vaxandi þorskstofns hafi tvöfaldast frá 1984 til 1986."

"þetta kom mest niður á loðnunni. Loðnuát þorsksins þrefaldaðist frá 1984 til 1985 með þeim afleiðingum að loðnustofninn nær kláraðist. Jafnframt át þorskurinn stöðugt meiri síld, smáþorsk og ýsu. Árið 1985 og 1986 át þorskurinn um 500 þúsund tonn af síld, og trúlega er þetta meginskýringin á því að þessir tveir síldarárgangar eru horfnir."

"Þrátt fyrir að þoskurinn æti upp loðnu og síld og seinna bæði ýsu og þorsk, fékk hann samt ekki nóg æti. Frá 1986 hefur þorskurinn vaxið miklu hægar en hann gerði áður. Meðalþyngd 5 ára þorska var 1.8 kg veturinn 1986 en meðalþyngd 5 ára fiska árið 1988 var einungis 0.7 kg."

"Auk þessarra náttúrulegu orsaka bættist við að miklu af smáfiski var kastað fyrir borð, sérstaklega 1986/7. Þó það sé smáræði samanborið við vaxtarrýrnunina og það sem étið var, má ekki alveg líta fram hjá því."

Odd Nakken sagði ennfremur að ekki hefði verið hægt að komast hjá hruninu í loðnustofninum þótt dregið hefði verið úr loðnuveiðunum, eða þeim næstum hætt, frá árinu 1983. En hrunið hefði etv. ekki orðið eins snöggt. Nú er loðnustofninn að rétta við aftur.

"Seiðaárgangurinn frá 1989 virðist vera af eðlilegri stærð og vekur vonir um að stofninn sé í framför. Allt útlit er á að hægt verði að hefja loðnuveiðar snemma á þessum áratug, þó ekki sé hægt sé að tímasetja það nákvæmlega."

"Ekki er hægt að búast við að þorskstofninn rétti við fyrr en nýr sterkur árgangur lítur dagsins ljós. Í fyrsta lagi fæðist slíkur árgangur á þessu ári og yrði hann þá veiðanlegur 1994-95."

Hver er reynslan?

Auðvelt er að vera vitur eftir á. Þá virðast hlutirnir auðskiljanlegir og auðskýrðir. En hvað voru mennirnir að gera á hafrannsóknastofunni í Bergen á meðan þorskurinn var að hreinsa upp Barentshafið, eitthvert auðugasta hafsvæði jarðar? Voru þeir að bíða eftir því að Þorskstofninn stækkaði svo hægt væri að veiða mikið af stórum fiski? Sáu þeir ekki hvað var að gerast fyrir framan nefið á þeim? Hefði verið hægt að gera eitthvað til þess að draga úr þessu gereyðingarafli sem sveltandi þorskurinn var? Hefði verið rétt að ráðast á þorskinn með öllum tiltækum flota?

Víst var að á þessum tíma voru norskir fiskifræðingar að reyna að fá Rússana til þess að stækka möskvann og veiða minna af smáfiski. Þeir voru ómeðvitaðir um það sem var að gerast í hafinu, blindaðir af hugmyndinni að hægt væri að byggja upp fiskstofna með friðun.

Hver verður sóttur til ábyrgðar? Er einhver borgunarmaður fyrir þessum mistökum? Og ef til vill er mikilvægasta spurningin: Eru fiskifræðingarnir sem í hlut áttu, menn til þess að viðurkenna sín mistök og notfæra sér hina nýju dýrkeyptu reynslu?

Ef skýringar Nakkens eiga við rök að styðjast, þá hefur "hin hefðbundna fiskifræði" beðið alvarlegt skipbrot. Þá þarf að fara að viðurkenna að fiskarnir í hafinu stóra lúti sömu líffræðilegu lögmálum og önnur dýr sem lifa í afmarkaðra umhverfi, eins og í heiðatjörninni til dæmis.


Hvað gerðist svo?

Greinin hér að ofan var skrifuð 1990, fyrir um 9 árum. Þá þótti út í hött að vera að gera því skóna að svona hlutir gætu gerst aftur, Norðmenn væru að byggja upp þorskstofninn á ábyrgan hátt, friða smáfisk og fara varlega við veiðar.

Fróðlegt að skoða hvernig greinin hefur staðist tímans tönn og skoða í því sambandi vaxtarþróun þorsks í Barentshafinu á þessum áratug.

Vöxtur þorska í Barentshafi

Vöxtur þorsks í Barentshafi táknaður sem meðalþyngd aldursflokka í stofni. Hér má glöggt sjá atburðarrásina sem spáð er í greininni. Árið 1990 þegar greinin er skrifuð, er fiskur enn að þyngjast og allt virðist í lukkunnar velstandi. Menn uggðu ekki að sér, stóðu á bremsunum og vernduðu smáfisk. Þó svo að draga færi úr vexti þegar líða tók á áratuginn var stefnunni haldið og þegar verulega fór að halla undan fæti, fiskur að tregast og nýtt hrun blasti við, hófst söngurinn um vanmat ofveiði og brottkast. Ekki virðast menn hafa lært neitt af þessum mistökum.


Aftur á heimasíðu