Kvótaúttekt með slagsíðu

14. desember 2004

Fyrir nokkrum dögum hringdi í mig Björn Þór af Fréttablaðinu. Sagðist vera að skrifa greinaflokk um kvótakerfið til birtingar í blaðinu, sagði mig lengi hafa gagnrýnt stjórn fiskveiða og bað mig að gefa álit á kostum og göllum kerfisins. Ég vildi koma miklu að en hann sagði að plássið væri takmarkað, það yrði talað við fleiri og þetta yrði að vera stutt. Lét ég það gott heita. Hann hringdi síðan í mig og las viðtalsstúf sem ég gerði ekki athugasemdir við.

Eftir að fyrsta greininin birtist í fannst mér að ég hefði séð þetta áður. Tal um að nauðsynlegt hafi verið að koma kerfinu á og löng viðtöl við Jakob, Jóhann,Halldór og Kristján Ragnarsson um hvað ástandið hafi verið svakalegt og þorskurinn í alveg gífurlegri hættu, forstjóri Hafró sagði að ofveiðin væri viðvarandi. Næsta dag hélt þetta áfram í svipuðum dúr, talað um kerfið eins og skjólgóða flík sem hafi þurft að klæðast, þá hafi birt yfir öllu. Ef ekki þá hefði allt frosið í hel.

Ég hringdi í blaðamanninn með það í huga að draga viðtal mitt til baka, það voru farnar að renna á mig tvær grímur, minnugur fyrirstpurnarþingsins 2001 þar var ég fenginn til að vera aðal gagnrýnandi á Hafró en var svo gerður að ómerkilegum kverúlant í fyrirfram skrifuðum álitsgerðum frá þinginu. Ekkert sagt frá faglegri gagnrýni minni eða annarra. Skilaboð ráðherra frá þinginu voru að Hafró hefði komist vel frá því og aukið trúverðuleika sinn.

Björn fullvissaði mig um að ekki væri sá þefur af málinu sem ég teldi mig finna, ég skyldi bara bíða morgundagsins, þá yrði kynnt hin hliðin á málinu, viðtöl við mig og aðra gagnrýnendur. Eftir lestur þerrar greinar, hinnar þriðju, varð mér ljóst að samsuðan var kokkuð eftir þekktri uppskrift frá kvótasinnum og sægreifum. Leiðaraskrif blaðsins fullvissuðu mig svo endanlega en þar sagði m.a:

"Andstæðingar kvótakerfisins hafa einkum bent á sóknardagakerfið sem betri kost við stjórn fiskveiða, en hvað sem því líður hefur verið erfitt fyrir andstæðinga kerfisins að benda á eitthvað annað betra kerfi".

Þessi rulla og aðrar sáust m.a. í sjónvarpsþáttum Páls Benediktssonar hér um árið. Þar var þó sá háttur hafður á að allra kostunaraðila ver getið, einnig LÍÚ.

Fjórða og síðasta greinin var í sama dúr, mærðartal um kvótakerfið bragðbætt með nokkrum saltkornum eins andmælanda. Í greinarflokknum var ekkert fjallað um það aðalatriði að eftir tilkomu kerfisins og fiskveiðiráðgjöf Hafró hefur þorskaflinn minnkað um helming.

Mér finnst það rýra trúverðuleika blaðsins að láta sig hafa það að leggja í svona ferð sem fær mann til að renna grun í að ekki sé fullkomið hlutleysi og heiðarleiki á ferðinni.

Gagnrýni mín á þá fiskifræðilegu hugmyndafræði sem beitt hefur verið til að byggja upp stofnana, með því að draga úr veiði til að geta veitt meira seinna, hefur alltaf verið fagleg og stuðst við líffræðileg lögmál um vöxt, afföll og fæðuframboð. Fyrir mér hefur ekkert annað vakað en að bæta hag fólksins í þessu landi sem misst hefur frumburðarréttin á fölskum forsendum og falsvon um að ástandið batni -seinna, bara ef sultarólin er hert nógu mikið - núna.

Út yfir tekur þegar talað er um að ekki hafi verið bent á annað kerfi til stjórnunar fiskveiða.

Ég var svo lánssamur að fá tækifæri til að prófa þær stjórnunaraðferðir sem ég hef talað fyrir í Færeyjum, en Færeyingar hafa í 4 ár farið að mínum ráðum með ágætum árangri. Það er ekki einungis að afli hafi aukist og stofnar stækkað heldur hefur sannast að ráðleggingar mínar voru réttar en færeysku Hafró og ICES rangar. Ég hef breytt sýn Færeyinga á hefðbundna fiskifræðilega ráðgjöf og hafa fjárveitingar til Hafró í Færeyjum verið skornar niður og þeir orðið að segja upp fólki.

Þar ríkir einnig almenn ánægja með veiðidagakerfið sem byggist aðallega á sóknarstýringu en einnig tæknistjórnun svo sem möskvastærð, veiðarfæranotkun, svæðastýringu og flotastjórn.

Er nú svo komið að Færeyjar eru eina lifandi verstöðin sem enn er eftir í N-Atlantshafi og vonandi standast Færeyingar áfram stöðugan þrýsting frá ICES um veiðisamdrátt.

Hér má sjá samdrátt í þorskafla eftir að kvótakerfið var tekið upp. Kerfið var sett á til þess að halda veiðinni niðri, til þess að byggja upp stofninn, gefa fiskinum tækifæri til að stækka og vaxa svo unnt vaæri að veiða meira seinna. Kerfinu tókst að takmarka aflann en enn er beðið eftir árangrinum -auknum afla seinna.

Til baka