Er röng fiskveiðistjórnun að rústa stærstu þorskstofnum við Norður-Atlantshaf?

Sjómannablaðið Víkingur, 5-6 tbl. 1990, bls. 18-21.

Í fyrri greinum hef ég farið yfir aflaþróun í nokkrum þorskstofnum. Við getum virt þetta nánar fyrir okkur með því að skoða aflalínuritin sem sýnd eru á meðfylgjandi mynd.

Afli í Norðursjó og Eystrasalti

Þrátt fyrir óhefta sókn í marga áratugi jókst afli stöðugt úr þorskstofnum í Norðursjó og Eystrasalti, þar til fyrir örfáum árum.

Í tvo þessara stofna, Norðursjó og Eystrasalti, hefur verið skefjalaus og óheft sókn í marga áratugi, þar til á allra síðustu árum að sett hefur verið aflahámark. Afli úr þessum stofnum hefur verið stöðugt vaxandi þar til að draga fór úr honum fyrir nokkrum árum. Sú skýring er gefin að ekki hafi komið sterkir þorskárgangar í nokkur ár. Athugað hefur verið hvort ætti að stækka möskva í trolli í Norðursjó úr 100 mm í 120 mm, en það þykir ekki ráðlegt. það á sem sé ekki að reyna að byggja upp hrygningarstofninn þrátt fyrir að nýliðun hafi verið léleg í nokkur ár, enda hefur ekki tekist sýna fram á að stór hrygningastofn þorsks gefi af sér fleiri afkvæmi en lítill.

Ísland og Barentshaf

Mynstrið í afla við Ísland og í Barentshafi er óneitanlega skolli líkt, þótt sveiflurnar séu stærri í Barentshafinu.

Í kjölfar 200 sjómílna efnahagslögsögu 1976-1977 var dregið stórlega úr sókn í þrjá þessara stofna, við Ísland, Kanada og í Barentshafi. Ekki er hægt að sjá að minnkandi sókn hafi leitt til aflaaukningar þegar litið er til langs tíma. Þvert á móti er ástand þessara þriggja stofna slíkt að alls staðar er lagt til að dregið verði stórlega úr afla á árinu 1990.

Kanada

Þorskafli við Kanada hefur ekki aukist þrátt fyrir ,,ræktun" stofnsins, eins og spáð var, en afli við Færeyjar hefur aukist og dalað í ótrúlega jöfnum sveiflum.

Er nema von að menn spyrji sig hvað hafi gerst og hvers vegna þurfi alltaf að vera að draga meira og meira úr afla til þess að byggja upp stofnana en þrátt fyrir það séu þeir allta að minnka.

Hinar opinberu skýringar eru þær að sóknin hafi verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir, nýliðun hafi verið undir meðallagi og að meira hafi verið drepið af smáfiski en menn ætluðu. Hvernig skyldi geta staðið á þessu?

Útreikningur á stofnstærð

Skýringin liggur í veikleika þeirrar aðferðar sem mest er notuð við útreikning á stofnstærð fiska, svokallaðri VPA-greiningu (Virtual Population Analysis) eða aldurs-afla aðferð eins og hún hefur einnig verið nefnd. Hún var kynnt af Beverton og Holt seint á sjötta áratugnum og þótti þá mikil bylting. Til þess að skilja vankanta aðferðarinnar er nauðsynlegt að átta sig á því á hverju hún byggist.

Kirkjubókaraðferðin

Aðferðin mælir ekki stofninn beint heldur er stærð hans reiknuð út að fengnum nokkrum grunnupplýsingum. Hugsum okkur að við viljum vita fjölda þeirra íslendinga sem fæddust árið 1900 (stærð 1900 árgangsins). Við getum gert það með því að fara í gegn um kirkjubækur frá 1900 fram til dagsins í dag og skrá niður hve margir af þeim sem fæddust árið 1900 létust á hverju ári. Síðan eru tölurnar frá öllum árunum lagðar saman og við erum búin að fá talsverðar upplýsingar um stærð 1900 árgangsins. Tvennt vantar. Nokkrir eru enn á lífi, við vitum ekki hve þeir eru margir en getum giskað á fjölda þeirra út frá upplýsingum sem við höfum um lífslíkur fólks. Ekki vitum við heldur ekki hve margir fluttust úr landi og dóu þar. En við getum giskað á það á grundvelli annar upplýsinga.

Nákvæmnin fer eftir því hve vel við getum áætlað óþekktu stærðirnar. En ef við hefðum ekki getað skoðað nema hluta kirkjubókanna þá hefði einnig myndast óvissa af þeim sökum.

Stærð fiskstofna er í meginatriðum reiknuð á sama hátt. Lönduðum afla er skipt í aldurshópa á grundvelli víðtækrar sýnatöku og aldursgreininga. Með því að leggja saman fjölda veiddra fiska með sama fæðingarár um nokkra ára skeið, fást upplýsingar um hve margir fiskar veiddust af hverjum árgangi. Heildarstofninn er svo summa allra árganganna á hverjum tíma.

Til þess að geta reiknað út heildarfjölda þeirra fiska í hverjum árgangi sem voru í sjónum um það bil sem þeir fóru að verða veiðanlegir, verður að vita hve stór hluti fiskanna dó af öðrum orsökum en veiði. Þessi hluti kallast náttúruleg affdöll eða náttúruleg dánartala. Hún tekur til dauða af öllum öðrum orsökum en veiðum. Má þar nefna dauða af völdum sjúkdóma, hungurs eða að fiskar séu étnir.

Heildardánartalan, sem finnst með því að sjá hvernig fækkar í aldurshópunum eftir því sem árin líða, í staðlari sókn, er þannig samsett af tveimur þáttum, fiskveiðidánartölu og náttúrulegri dánartölu. Ef tekst að ákvarða magn og aldursdreifingu landaðs afla með sæmilegri nákvæmni á eftir að leysa jöfnuna:

Heildardánartala (Z) = Fiskveiðidánartala (F) + Náttúruleg dánartala (M),

til þess að hægt sé að reikna út stærð stofnsins.

Stóra gildran, náttúrulega dánartalan

Þegar heildardánartalan (Z) hefur verið fundin verður að þekkja náttúrulegu dánartöluna (M) til þess að geta fundið veiðidánartöluna (F) og reiknað út stofninn. Það er hægt að finna út meðaltals- náttúrulegu dánartöluna með ýmsum aðferðum á löngum tíma. VPA-greiningin gerir ráð fyrir að hún sé um 18% á ári hjá öllum veiðanlegum aldursflokkum, -alltaf.

Þarna er stærsta gildran í aðferðinni því ef náttúruleg dánartala breytist í raun, þá kemur það fram sem breyting á sókn og veldur þar með breytingu á reiknaðri stofnstærð.

Það er alveg klárt að náttúruleg dánartala er breytileg . Þar ræður mestu vellíðan og viðgangur fiskanna. Fiskar sem hafa nóg að éta vaxa hratt og hafa meira mótstöðuafl gegn sjúkdómum og óvinum en þeir sem eru aðframkomnir af hungri. Ekki þarf að fara lengra en í fiskeldisstöð til að sjá þetta. Hinn góði eldismaður hirðir vel um fiskinn í kerinu, sér um að hann hafi nægan mat og nóg pláss. Þetta gerir hann með því að flokka fiskinn reglulega og grisja í kerinu (fjarlægir minnstu fiskana) svo öllum líði vel. Dauði af öðrum orsökum en veiðum (grisjun) er nánast enginn. Ef sami maður hættir nú allt í einu að grisja fiskinn og er trassasamur með fóðrun, líður ekki á löngu þar til fiskur fer að drepast úr vanþrifum og streitu (náttúrulegar orsakir). Við slíkar aðstæður getur dánartalan rokið upp úr öllu valdi á skömmum tíma. Föst dánartala er engum skepnum ásköpuð.

Með því að veiða fisk í sjó, vatni eða eldiskeri, sköpum við betri lífsskilyrði fyrir þá sem eftir lifa. Auknar veiðar minnka náttúrulega dánartölu. Samdráttur í veiðum hefur öfug áhrif, afföll af öðrum orsökum en veiðum aukast.

Og nú kemur það skemmtilega:

VPA-greiningin, sem gerir ráð fyrir fastri dánartölu, dugar vel þar sem sókn er mikil og jöfn og sóknartakmörk ekki við lýði. þá vegur dauði af völdum veiða þungt í heildardánartölu, sterkir árgangar koma fram sem aukinn afli og vöxtur breytist lítið. Þetta á við um t.d. Norðursjó og Eystrasalt.

Ef sóknarmynstri er snögglega breytt, dregið skyndilega úr veiðum og möskvi stækkaður eins og lýst hefur verið í fyrri grein um fiskveiðistjórnun í Kanada og á Íslandi, þá fer allt úr böndunum og VPA-greiningin, sem áður hafði dugað þokkalega, fer að mæla allt skakkt: Vegna minnkaðs veiðiálags dregur úr vexti, náttúruleg dánartala vex og hlutur hennar í heildardánartölunni, þessari sem er mælanleg, eykst en af því að líkanið heldur náttúrulegu dánartölunni fastri (18%) þá kemur þetta fram sem aukin sókn mæld með fiskveiðidánarstuðli! Af því leiðir að stofninn reiknast minni en hann raunverulega er og nýliðun reiknast einnig minni. Þá verður að leiðrétta vaxtartöflur mjög ört svo eitthvert vit verði í skiptingu landaðs afla eftir aldri.

Allt þetta veldur því að ráðlagt er að draga enn frekar úr sókn. Þetta getur svo endað með hungruðum og mögrum fiski, jafnvel stofnhruni, eins og varð í Barentshafi.

Tímamót

Fiskveiðistjórnun stendur nú á tímamótum. Varla er boðuð sú ráðstefna að ekki sé rætt þar um fjölstofnalíkön (sjá Víkinginn 11-12/89). Fjölstofnalíkan tekur tillit til samspils fiskstofna og fæðudýra og menn vilja taka þau í notkun vegna þess að ýmsir hafa gert sér grein fyrir því að ekki er hægt að líta á fiskstofna sem einangruð fyrirbæri. þar með er í raun verið að dæma ónothæfar þær aðferðir sem hingað til hafa verið notaðar þótt fáir þori að segja það beint, enn sem komið er.

Fjölstofna hugsanagangur er ekki neitt nýtt fyrirbrigði þó hans hafi ekki notið sem skyldi við stjórnun fiskveiða. Hann flokkast undir almenna vistfræði og er reyndar flestum bændum tamur. Bóndinn veit það að þó að hægt sé að fá 100 kg af rófum úr skika eða 150 kg af kartöflum úr jafn stórum skika þá er ekki hægt að fá bæði 100 kg af rófum og 150 kg af kartöflum úr þessum sama skika.

P.S.

Nú berast þær fréttir (Morgunblaðið 29/4 1990) að niðurstöður síðasta togararallsins hafi sýnt að meðalþyngd þorsksins hafi lækkað um 5-10% fyrir Suðurlandi og um 10% að meðaltali fyrir norðan. Einnig var talað um að ástandið í mars hafi verið eins og "eyðimörk". Þetta er athyglisvert í ljósi þess að nánast alla vertíðina hefur flotinn verið að flýja þorsk, ef dæma má af blaðafréttum, og sókn á norðurlandsmið hefur verið í lágmarki, sbr. grein um það hér í blaðinu. Menn bíða nú spenntir eftir veiðiráðgjöf sumarsins. Skyldi ólin verða hert um eitt gat enn? - Hvenær skyldi annars sultarólin slitna?


Eftirmáli

Á þessum tíma, árið 1990, sögðu ráðgjafarnir að yrði skorið niður myndi allt verða gott. En það hefur ekki gerst enn. Aflaheimildir minnkuðu stöðugt og náðu lágmarki 1995, 160 þúsund tonnum. Svo fór stofninn að mælast stærri og aflaheimildir voru auknar. Þá fóru menn að tala um að árangur hinnar góðu stjórnunar væri að koma í ljós: "Tekist hefði að byggja upp stofninn." Þorskaflinn er samt langt um minni en hann var árið 1987, árið sem farið var að skera niður til að byggja upp. Hann er minni nú en hann var árið 1990 þegar greinin að ofan var skrifuð.

Aflaþróun eftir 1990

Myndin sýnir þróun veiðanna frá því að kvótakerfið hófst. Greinin er skrifuð fyrri part ársins 1990, þegar verið varr að skera niður til að byggja upp. Reikniaðferðin sem lýst er í þessarri grein er sjálf- niður- reiknandi, eins og skýrt er út. Ekki óraði höfund fyrir því á þessum tíma að hlutirnir yrðu látnir ganga svona langt, greinin var skrifuð til að vara við einmitt þessu. Hvernig væri að fara að beita s.k. "afturspá", (e. hindcasting) og skoða hlutina þannig. Hver hafði rétt fyrir sér?


Aftur á heimasíðu