Afbragðs aflaár í Færeyjum 2002

(Janúar 2003)

Af þorski veiddust 36.300 tonn 2002 (1. des. 2001-1. des. 2002) miðað við 26.400 tonn 2001. Þetta er 38% aukning. Ýsuafli jókst úr 14.200 tonnum í fyrra í 21.700 tonn í ár, sem er 54% aukning. Ufsaaflinn varð 48.200 tonn, miðað við 44.500 tonn í fyrra, sem þá var aflsmet, aukning um 8%. Heildar- botnfiskafli fór í fyrsta sinn í seinni tíð yfir 100,000 tonn, varð 114.500 tonn miðað við 97.700 í fyrra, 17% aukning.

Vorið 2001 ráðlögðu færeyskir fiskfræðingar, og kollegar þeirra hjá Alþjóða hafrannsóknráðinu, stjórnvöldum að stöðva ýsuveiðar, vegna hættu á stofnhruni, og fækka almennum sóknardögum um 6%. Í ár lögðu sömu sérfræðingar til 35-50% samdrátt í sókn, fiskstofnar væru komnir undir líffræðileg öryggismörk eins og sagt var. Ekki var farið eftir þessu eins og lesa má hér neðar á síðunni. Enn er góð veiði, svo fiskur hefur ekki klárast eins og sumir virðast halda.

En afli getur ekki haldið áfram að vaxa endalaust, jafnvel ekki með bestu stjórnun. Þorskafli við Færeyjar hefur t.d. aldrei farið yfir 40.000 tonn, þegar hann hefur náð því marki hefur hann farið að falla aftur. Þetta er eðlilegt og á sínar náttúrulegu orsakir. Því er líklegt að a.m.k þorskaflinn við Eyjarnar fari senn að minnka. Þegar eru farin að sjást teikn um fæðuskort hjá þorski, vöxtur er að hægjast og magainnihald, slöngustjörnur og krossfiskur, ber þess merki að það er að harðna á dalnum. Sýnir það að ekki verður hægt að kenna ofveiði um aflaminnkunina, fremur má segja að sóknin sé ekki nægjanleg til að hemja fjölgun fiskanna og koma í veg fyrir að þeir éti sig út á gaddinn eins og stundum er sagt. Aflaminnkun við Færeyjar væri því eðlileg og hefði ekkert með ofveiði að gera.

Afli 2002

Fiskifræðingar í Færeyjum spá fiskleysi

(Nóvember 2002)

Nýlega sendi Fiskirannsóknastofan í Færeyjum (FRS) frá sér fréttir um að svifgróður væri lítill á miðunum umhverfis eyjarnar. Fiskifræðingar sögðu að yrði gróðurinn jafn lítill á næsta ári og hann er núna, mætti búast við lélegri nýliðun næsta og þar næsta ár. Ástandið væri nú svipað og það hefði verið í kring um 1990 en þá voru léleg aflaár.

Nýlega var skýrt frá að veiðiárið 2002 væri það besta í sögu Beta útgerðarinnar í Færeyju frá 1983-4, en þeir gera út 8 tvílembingstogara og um 80% aflans er ufsi.

Stækkandi stofnar við Færeyjar

(Nóvember 2002)

Nýkomin skýrsla úr togararalli haustsins við Færeyjar sýnir stækkun ýsu- og þorskstofnanna. Mest fannst af ýsu í leiðangrinum, aðallega smárri ýsu og er stofninn í miklum vexti og fiskur í góðu ástandi. Þorskstofninn er í hægum vexti og ástand fisksins sæmilegt. Minnkun var í ufsa, en tekið fram að mikil óvissa sé alltaf í stofnmælingu ufsa.

Það er nokkuð athyglisvert að sömu fiskifræðingar sem lögðu til 35-50% skerðingu fiskidaga í júlí sl. og báru við ofveiði, segja nú frá stofnaukningu án þess að blikka auga.

Stofnmæling

Niðurstöður stofnmælinga á þorski, ufsa og ýsu við Færeyjar 1999-2002

Fiskveiðiráðgjöf við Færeyjar undanfarin ár

Fróðlegt er að skoða ráðgjöf Fiskirannsóknastofunnar í Færeyjum undanfarin ár. Taflan hér fyrir neðan sýnir hvað ráðlagt var að veiða af þorski ýsu og ufsa árin 2000-2002, hve mikið var veitt og stærð hrygningarstofnsins hvert ár. Þrátt fyrir að veiðin fari alltaf langt fram úr ráðgjöfinni vex hrygningarstofninn. Ráðgjafarnir hafa því stórlega vanmetið afrakstursgetu fiskistofnanna, enda eru Færeyingar hættir að taka mark á sínum fiskifræðingum.

Ráðgjöf

Taflan sýnir ráðleggingu um þorsk-, ýsu- og ufsaafla (tonn) árin 2000-2002, veiðina sem varð og stærð hrygningsarstofnsins eins og Fiskirannsóknastofan áætlaði hann á hverju ári. Mat á ufsastofninum hefur tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir að veitt hafi verið helmingi meira en ráðlagt var.

-----------------------------------------------

Fiskveiðiráðgjöf í Færeyjum 2002

(Ágúst 2002)

Í fyrra óskaði sjávarútvegsráðherra Færeyja eftir því að ég segði álit mitt á þeirri ráðgjöf sem hans menn höfðu veitt honum í fiskveiðimálum. Sjómenn, útgerðarmenn og fiskverkendur vildu óbreytta sókn en fiskifræðingar Fiskirannsóknastofunnar í Færeyjum (FRS) lögðu til 6% samdrátt og bann við ýsuveiðum. Ég sá ekki ástæðu til að draga úr sókn og ráðherra lagði tillögu fyrir lögþingið sem samþykkti hana og ákvað að fjöldi fiskidaga skyldi verða óbreyttur.

Fór svo að afli jókst í flestum tegundum, sérstaklega í ufsa, þar sem veiðin varð sú besta í rúma tvo áratugi eða um 50 þúsund tonn. Þess má geta að ufsakvótinn við Ísland verður 24 þúsund tonn á komandi fiskveiðiári.

Ný ráðgjöf kom í júní sl. fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september. Enn var lagður til niðurskurður í fjölda fiskidaga, ekki 6% eins og í fyrra heldur lagði FRS til 35% niðurskurð, eftir að ICES í Kaupmannahöfn hafði lagt til 50% !

Sjómenn, útgerðarmenn og fiskverkendur fóru yfir ráðgjöfina og lögðu til óbreyttan dagafjölda. Byggðu þeir það á að allir stofnar virtust í góðu standi, fiskur væri feitur, mikið virtist um ungfisk og aflabrögð væru með ágætum.

Fiskirannsóknastofan í Færeyjum áleit að stofnar ufsa, ýsu og þorsks væru í vexti, nýliðun virtist góð og fiskur almennt í góðu ástandi. Rök þeirra voru: ástand fiskstofnanna er gott, en það gæti versnað og þá yrðu menn illa settir. Þess vegna væri gott að draga úr veiði svo menn hefðu upp á eitthvað að hlaupa ef ástand skyldi versna. - Ja, mikið skal maður heyra áður en eyrun detta af.

Svo fór að sjómenn og útgerðarmenn báðu mig að fara yfir ráðgjöfina og gefa álit mitt á henni. Hélt ég fund með þeim í Færeyjum í byrjun júli. Benti ég þeim á að þar sem allir stofnar væru í vexti væri ekki hægt að halda fram að sóknin væri of mikil. Eina sjáanlega hættumerkið væri að svo virtist sem fæðuframboð væri að minnka og við slíkar kringumstæðum væri varasamt að draga úr sókn. Frekar ætti að auka hana.

Lítið virðist að marka stofnmat FRS og sveiflast það út og suður. Skv. matinu hafði hrygningarstofn ýsu, sem í fyrra var talinn vera að nálgast hættumörk, vaxið verulega og nýliðun mældist miklu meiri en álitið var í fyrra, sama með þorskinn, hrygningarstofn og nýliðun í vexti. Matið á ufsastofninum, sem fyrir 2-3 árum var talinn við dauðans dyr, hafði nær tvöfaldast milli ára og stofninn álitinn vera um 300 þúsund tonn sem er sögulegt hámark.

FRS sagði að sókn í þorsk hefði aukst frá F= 0.45 í fyrra í F= 0.71 í ár en það svarar til að um 50% fiskanna séu veiddir. Eftir að hafa farið yfir útreikningana komst ég að raun um það að veiðiálagið var vitlaust reiknað, þeir höfðu mælt sóknina með því að taka meðaltal af sókn í 3 -7 ára fiska, leggja saman og deila með 5, þó mismunandi fjöldi fiska væri í hverjum árgangi! Hér má finna skýrsluna (PDF, 132 kb).

NÝTT, júlí 3003. Ekki líkaði þeim Fiskirannsóknarmönnum í Færeyjum við ráðleggingar mínar og skrifuðu blaðagreinar sem birtust í helstu blöðum, 'Sosialen' og 'Dimmaletting' að ógleymdu FF-blaðinu.

Grein eftir Pétur Steingrunn er hér og grein eftir forstjórann, Hjalta í Jakobsstovu, er hér. Það er fróðlegt að ári seinna, 2003, kom í ljós að ég hafði haf rétt fyrir mér því ICES leiðrétti dánarstuðulinn (sjá grein Óla Jakobssen frá júlí 2003). Einnig stakk ég upp á að Hjalti færi í hraðnámskeið í fiskifræði með smá pistli.

Veiðar hafa gengið vel í sumar. Ufsinn var fremur smár framan af en nú veiðist stærri ufsi. Gott þykir ef ufsaafli togaratvílembinga er 3000 tonn á ári hjá hverju pari, en aflinn er nú þegar orðinn 4000 tonn svo ekkert lát virðist á ufsaveiðinni.

Til baka