Færeyjasíðan

Fiskimál í Færeyjum

Jón Kristjánsson fiskifræðingur:

Ég hef fengist svo mikið við fiskveiðimál í Færeyjum að viðeigandi er að hafa sérstaka síðu um málefni Færeyja. Þetta hófst með því að ég hitti Olaf Olsen útgerðarmann á ráðstefnu í Bergen í mars 1998. Á ráðstefnunni flutti ég erindi um tilgátu mína um hvernig skýra mætti sveiflur í þorskstofnum í N. Atlantshafi, en ráðstefnan fjallaði um þau mál. Ég byggði tilgátuna á gögnum úr Færeyska þorskstofninum. Ég taldi að það væri þorskurinn sjálfur sem stjórnaði sveiflunum, þegar fæða var nóg fjölgaði honum hratt og gengi þar með nærri fæðunni og æti sig út á gaddinn. Þá færi hann að horast og drepast, stofninn lagaði sig að nýjum aðstæðum. Þegar stofninn hefði fallið úr hor, ykist fæðan aftur, þorski fjölgaði á ný og þannig koll af kolli.

Í ágúst 1998 átti ég erindi til Færeyja og flutti þá erindi í Þórshöfn um sveiflur í þorskstofnum, fiskifræði og fiskveiðistjórn. Fundurinn vakti nokkra athygli og útvarpið hafði við mig langt viðtal og greinar birtust í færeyskum blöðum og norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren. Það var svo vorið 2001 að sjávarútvegsráðherra Færeyja kallaði mig til ráðgjafar og síðan kom ég að fiskveiðiráðgjöfinni í nokkur ár.

Síðan er í tímaröð og eru elstu atburðirnir fyrst og þeir nýjustu síðast. Greinar og skýrslur eru ýmist á íslensku norsku eða íslensku, en ég hef notað norsku í samskiptum við Færeyinga.

NÝJUSTU FRÉTTIR 2011: Þorskstofninn við Færeyjar er á mikilli uppleið, sjá neðst á síðunni.

- Heim -