Færeyska fiskidagakerfið

(Skrifað fyrir Brimfaxa í desember 2001)

Færeyska fiskveiðistjórnarkerfið hefur verið nefnt þegar rætt hefur verið um hvaða gæti komið í staðinn fyrir hið íslenska kvótakerfi. Talið er að þar sem það byggir sóknarstýringu leiði það ekki til brottkasts i sama mæli og kerfi sem byggist á aflaúthlutun. Magnús Þór Hafsteinsson skrifaði um það í Sjómannablaðinu Víkingi nýverið (2001) og í lok nóvember 2001 var haldin ráðstefna á Ísafirði, að frumkvæði Guðmundar Halldórssonar smábátafélaginu Eldingu, þar sem Færyeingar, Auðunn Konráðsson sjómaður og Olaf Olsen útgerðarmaður, auk annarra kynntu kerfið.

Þó nokkuð hafi verið um kerfið rætt skortir á að menn hafi fengið næga innsýn í hvernig það er, hvernig það vinnur, hvernig sjómenn taka því og hvernig gengur að vinna eftir því.

Eftir að Færeyingar urðu einráðir á eigin miðum um 1977 fóru þeir að stjórna veiðum til að auka afrakstur miðanna. Svipað og hér var álitið að rányrkja og smáfiskadráp stæði í vegi fyrir skynsamlegri nýtingu. Með því að draga úr sókn og vernda smáfisk yrði aflinn meiri til lengri tíma litið. Þessa röksemdarfærslu þekkjum við Íslendingar vel og vitum hvert þessi stefna hefir leitt okkur.

Eftir uppsveiflu í þorskveiðum 83-86 fór aftur að daraga úr afla. Frá 1987 var veiðum haldið niðri, reynt var að takmarka sóknina við fastan dánarstuðul og 1990 var sett 16 þúsund tonna aflamark á þorsk enda niðursveiflan komin á fullt. Þetta olli miklum hörmungum í færeyskum efnahag og sett var á kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd 1994. Danir gerðu þetta að skilyrði, þegar þeir veittu Færeyingum lán í kreppunni. Fiskifræðingar lögðu til veiðibann á þorsk og sögðu að það myndi taka 20 ár að byggja upp stofninn aftur. Raunin varð sú að gefinn var 6000 tonna þorskkvóti svo menn gætu skrimt.

Fljótlega fóru vandamálin að melda sig, svindl og brottkast, enda fór fiskgengd ötrt vaxandi en kvótar nánast engir. Þorskflinn óx gríðarlega hratt þvert ofan í spár fiskifræðinga og síðan er gjarnan talað um "fiskinn sem reis upp frá dauðum". Eftir 18 mánuði þótti vinum vorum nóg komið og hentu kerfinu. Sjómenn, fiskverkendur, embættismenn og fiskifræðingar settust niður og bjuggu í sameiningu til nýtt kerfi sem bygðist á sóknarstýringu, fiskidagakerfið. Það var sett á í júní 1996.

Menn höfðu að leiðarljósi að úr því að miðin hefðu þolað þá sókn sem verið mest alla öldina hlytu þau að þola sviðpaða sókn áfram og ákváðu að taka tillit til þess þegar samsetning og sókn flotans var ákveðin. Þá skyldi sóknarþunginn miðast við að tekin yrðu 33% að fjölda til á ári úr helstu botnfiskstofnum, þorski ýsu og ufsa.

Fiskifræðingarnir, sem í byrjun voru með í að skapa kerfið skiptu síðar um skoðun og telja nú að ekki megi taka meira en 27% af þoski 20% af ýsu og 22% af ufsa úr stofninum. Sagt er að þessi regla sé komin vegna ónákvæmni í stofnstærðarmælingum en marga grunar að megin ástæðan sé sú að erlendir kollegar þeirra hafi beitt þá óbeinum þrýstingi. Færeyskir fiskifræðingar hafi átt í vandræðum með að verja fiskidagakerfið gagnvart þeim kvótatrúarmönnum sem sitja í ICES og öðrum alþjóðasamtökum fiskifræðinga.

Kort af fiskimiðunum í kring um Færeyjar. Rauðu svæðin eru hrygningarsvæði friðuð fyrir veiðum á hrygningartíma, frá miðjum febrúar til loka apríl í flestum tilfellum. Stærri togarar og tvílembingar fá ekki að veiða innan 12 mílna. Gráu svæðin eru flest friðuð fyrir togveiðum allt árið nema svæði aa, syðst á Færeyjabanka sem er lokað í júní, júlí og ágúst, b, sem er lokað 20. janúar- 1. mars. Svæði e er opið í febrúar og mars. Fyrir innan innri rauðu línuna má aðeins veiða á handfæri. Ytri rauða línan kallast innri fiskidagaslóð. Ef línuskipin fara út furir þessa línu meiga þau nota 3 daga fyrir hvern einn sem þau fá úthlutað fyrir innan. Þetta stuðlar að dreifingu sóknarinnar á miðinn og væntanlega meiri uppskeru úr stofnunum.

Flotanum var skipt í flokka, frystitogara, togara 400 hö eða meira, togskip með vélar undir 400 hö, tvílembingstogara sem eru tveir saman um eitt troll, stór og lítil línuskip og færabáta.

Miðunum var skipt í svæði og settar reglur um hvaða skip mættu veiða hvar og hvenær. Myndin sýnir nánari útfærslu á veiðifyrirkomulaginu.

Frystitogarar meiga ekki veiða í færeysku landhelginni, slík skip eru jafnan á fjarlægum miðum, í Barentshafi, við Grænland eða á Flæmingjagrunni.

Stærri togarar með 400 hö eða meira og tvílembingar eru ekki á dagakerfi en verða að halda sig utan 12 mílna markanna. Auk þess eru svæði utan 12 mílna sem eru lokuð togveiðum meira eða minna allt árið. Það eru gráu svæðin á myndinni. Þannig er Færeyjabanki ofan 200 m dýptarlínu lokaður fyrir togveiðum allt árið og svo hefur reyndar verið í 18 ár. Þar eru eingöngu leyfðar línuveiðar, en sjómönnum ber saman um að eftir að honum var lokað fyrir togveiðum sé þar lítið af fiski.

Litlir trollbátar fá að fara inn fyrir 12 mílur yfir sumarmánuðina en þá má hlutfall þorsks og ýsu ekki fara yfir ákveðin mörk. Sagt er að einu dæmin um brottkast séu vegna þessarrar reglu, þess vegna eru sjómenn almennt ekki sáttir við þær veiðar.

Leyfilegt er að flytja fiskidaga milli skipa og ganga þeir kaupum og sölum. Ekki er þó leyfilegt að flytja daga af bátum yfir á togara eða trollbáta. Þegar dagar eru fluttir milli skipaflokka breytist gildi daganna og gilda um það ákveðnar reglur. Sem dæmi má nefna að einn fiskidagur sem fluttur frá 40-60 tonna báti gildir 0,4 sé hann fluttur yfir línubát yfir 110 tonnum. Sé hann fluttur á minni bát, 15-40 tonn, gildir hann 1,25. Algengt verð á veiðidegi mun vera um 10.000 ísl. krónur.

Ákveðnar reglur gilda um endurnýjun fiskiskipa. Þar er tekið mið af stærð og hestaflatölu skipa þannig að gefinn er punktafjöldi sem er kvaðratrótin af markfeldi tonnatölu og hestafla. Þannig getur útgerðarmaður sem er að endurnýja flota sinn fengið 6 ný aflmeiri og stærri skip fyrir 8 gömul sem hann mun leggja.

Kerfið er lokað, ekki er hægt að komast inn í það nema kaupa bát. Þá fylgja veiðidagarnir bátnum. Flokkur smábáta er þrískiptur, þeir sem hafa fulla atvinnu af fiskveiðum eru á svo kölluðu A leyfi og hafa fiskidaga samkvæmt því, þeir sem hafa minni afkomu af veiðum eða stunda veiðar í frístundum hafa B eða C leyfi. Hægt er að vinna sig upp í kerfinu, kaupa bát með C leyfi og vinna sig upp í A.

Þorskafli við Færeyjar frá 1904. Aflinn einkennist af reglulegum sveiflum og sjá má hvernig hann féll í seinna stríði þegar einungis heimamenn stunduðu veiðarnar. Þrátt fyrir friðun í stríðinu verður afli í toppum eftir stríð aldrei meiri en hann var fyrir stríð. Ekki er að sjá að friðunin hafi gert stofninum neitt gagn, minnkun sóknar leiddi aðeins til aflataps. Sveiflurnar fara að skýrast og dýpka eftir 1960, einmitt þegar farið er að friða meira með útfærslu landhelgi og lokunum svæða. Dýpsta sveiflan verður svo þegar aflatakmarkanir eru hertar verulega í niðursveiflu um 1990 og þá stendur niðursveiflan lengur. Menn geta velt fyrir sér hvort þetta sé tilviljun. Þá ályktun er hægt að draga af þessu mynstri að ekki sé hægt að ofveiða stofninn, hann rís jafnan aftur þó sóknin sé sú sama, en fellur aftur. Því má einnig álykta að veiðarnar valdi ekki sveiflunum heldur þættir í náttúrunni.

Helsta vandamál sem hrjáir færeyska fiskidagakerfið eru þær deilur sem standa um fjölda fiskidaga. Menn greinir á um sóknina sumir halda því fram að hún sé þegar of mikil og fari vaxandi. Fremstir í flokki eru fiskifræðingar. Þeir segja að sóknargeta flotans aukist að meðaltali um 3-5% á ári og þess vegna verði að fækka dögum í takt við það. Tillaga komn frá færeyskum fiskifræðingum að draga úr sókn og fækka dögum um 25% á þremur árum. Frá því að kerfið var sett á hefur dögum verið fækkað um 17,5% og finnst mörgum að þar sé komið nóg. Þar fara fremstir í flokki forsvarsmenn sjómannasamtamkanna og halda því fram að frekari fækkun daga muni eyðileggja kerfið.

Sl. vor kom einnig ráðgjöf frá ICES, Alþjóða hafrannsóknráðinu, sem vildi stöðva ýsuveiðar, ekki að stofninn væri kominn í hættu, heldur til þess að byggja upp hrygningarstofninn til að tryggja góða nýliðun. Kenningin var sú að til þess að tryggja góða nýliðun þyrfti hrygningarstofninn að vera stór. Þetta eru hin klassísku ICES vísindi. Það má ekki veiða þegar fiskstofn er í lélegu ástandi því þá er hætta á hruni. Ekki skal heldur veiða þegar hann er í góðu ástandi, hann gæti minnkað við það og þá verði hætta á nýliðunarbresti.

Þegar betur var að gáð reyndist þetta jákvæða samband hrygningarstofns og nýliðunar ekki vera til staðar hjá ýsunni og einnig þótti ógerlegt að stöðva veiðar á ýsu en leyfa veiðar á þorski og ufsa. Það hefði einungis leitt til brottkasts. Færeysk stjórnvöld ákváðu í sumar (2001) að fara hvorki að tillögunni um bann við ýsuveiðum né fækkun fiskidaga.

Hrygningarstofn og nýliðun ýsu við Færeyjar. Sjá má taktinn í þessum tveimur þáttum með því að pússa burtu ójöfnur og skoða frávik frá meðaltali. Þá kemur í ljós að þessir þættir sveiflast nokkuð reglulega þannig að þegar hrygningarstofninn fer stækkandi dregur úr nýliðun og öfugt. Það er eins og stofninn sé að leita jafnvægis við umhverfið. Þegar stofninn er stór er ekki pláss fyrir ungviði, þegar stofninn er lítill aukast lísfslíkur seiðanna, það vantar fisk, nýliðun eykst og stofninn stækkar á ný. Menn geta svo velt því fyrir sér hver áhrif veiðanna hafi verið á stofninn, en næsta víst er að sóknin breyttist ekki svona taktfast.

Ein af þeim breytingum sem varð 1994 var að fiskvinnslunni í landi var bannað að eiga skip og síðar komu reglur sem skylduðu menn til að landa að minnsta kosti 30% aflans á fiskmarkað.

Þetta hafði í för með sér fiskverð sem Færeyinga hafði einungis dreymt um. Fyrst héldu menn að öll frystihús færu á hausinn en raunin varð önnur. Öll fiskvinnslan fékk aðgang að hráefninu, húsin gátu sérhæft sig á hinum ýmsu sviðum fiskvinnslunnar og síðan hefur þeim gengið ágætlega.

Almennt eru Færeyingar ánægðir með sitt dagakerfi, jafnt sjómenn sem útgerðarmenn og það er alveg víst að enginn vill fara aftur í kvótakerfið. Svartsýnismenn hafa sagt að óbreytt sókn og hundsun á þeim viðvörunum sem minnst var á leiði til ofveiði og hruns fiskistofna. Nú er að bíða og sjá.


Aftur á forsíðu