Mývatn

Ný vísindauppgötvun um stofnsveiflur í Mývatni (2008)

Eftirfarandi frétt um tengsl vinnslu og átubrests í Mývatni var lesin í útvarpsfréttum 6. mars 2008:

"Lítil röskun á umhverfinu getur valdið margfaldri sveiflu í vistkerfinu og þannig haft afdrifarík á hrif á lífsafkomu okkar. Þetta er niðurstaða nokkurra vísindamanna sem rannsökuðu breytingar á mýflugustofninum við Mývatn.

Vísindamönnunum hefur nú í fyrsta sinn tekist að setja fram reiknilíkan sem lýsir sveiflum í stofnstærðinni. Í tilkynningu frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn segir að sveiflurnar hafi verið óreglulegar og valdið því að bleikjuveiði í vatninu heyrir nú sögunni til.

Rannsóknin sýnir að þar sem mýlirfur alast upp í botnleðju í dýpri hluta vatnsins, getur lítilsháttar röskun á fæðustreymi af grunnsvæðum til dýpi hluta vatnsins valdið allsherjar fæðuskorti og hruni í stofninum.

Rannsóknin sýnir einnig að sveiflur í mýflugustofninum mögnuðust eftir að kísilgúrvinnsla af botni vatnsins hófst árið 1967 en henni var hætt fyrir fjórum árum. Fræðilegt samhengi á milli röskunar á botni Mývatns og átubrests í vatninu liggur því ljóst fyrir.

Tímaritið Nature birtir í dag grein um rannsóknina en það var Anthony R. Ives, prófessor í stofnvistfræði við Wisconsinháskóla í Bandaríkjunum, sem stýrði henni. Með honum störfuðu m.a. Arnþór Garðarsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatni."

Þetta eru alveg dæmalaus vísindi

Þegar Alþjóðlegi matshópurinn, sérfræðinganefndin, lauk störfum með skýrslu sinni 1999 leit hann svo að ekki væru bein tengsl milli kísilgúrvinnslu og sveiflna í lífríki Mývatns. Hópurinn lagði til ýmsar rannsóknir til að skýra sveiflurnar, en nánar er sagt frá þessu neðar á þessari síðu.

Í framhaldinu var klárað umhverfismat og ráðuneytið veitti svo Kísiliðjunni leyfi til að haefja vinnslu í Syðri Flóa með skilyrðum. Til þess kom þó ekki því Iðnaðarráðherra seldi verksmiðjuna til þess að leggja hana niður. Endir þeirrar sögu.

Ekki er mér kunnugt um að rannsóknum hafi verið beint í þann farveg sem Matshópurinn lagði til.

Nú, skv. frétt útvarpsins, búið að reikna út af hverju sveiflurnar stafa: "Vísindamönnunum hefur nú í fyrsta sinn tekist að setja fram reiknilíkan, sem lýsir sveiflum í stofnstærðinni".

Starfsmenn Háskólans og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn hafa gengið til rannsókna sl. 30 ár með það að markmiði að klína öllu sem miður hefur farið í Mývatni á Kísiliðjuna og starfssemi hennar.

Á engan hátt er unnt að halda því fram að þarna séu hlutlægar rannsóknir á ferðinni. Til þess eru aðstandendur of innvafðir í eigin kenningar.

Mat á umhverfisáhrifum

Kísiliðjan fór á árinu 1999 fram á mat á umhverfisáhrifum í því skyni að geta haldið áfram starfssemi sinni í Mývatni. Kísilgúrvinnsla í Mývatni hefur verið umdeild, sumir halda því fram að hún skaði lífríki vatnsins, aðrir telja að vinnslan hafi engin áhrif. Mývatn hefur síðustu ár einkennst af miklum sveiflum í lífríkinu, stundum er þar allt í blóma, önnur ár eru þar miklar hörmungar með ungadauða og veiðileysi. Deilt hefur verið um hvort þetta tengist starfssemi Kísiliðjunnar.

Mér var falið að skrifa álitsgerð í umhverfismatið um hvort kísilgúrvinnslan hefði haft áhrif á fisk og fiskveiðar í Mývatni: Áhrif kísilgúrvinnslu á fisk og fiskveiðar í Mývatni

Fundur í Vísindafélaginu

Vísindafélag Íslendinga fékk mig til að halda erindi um þetta efni fyrir félagsmenn og aðra er á vildu hlýða. Erindið var haldið í Norræna húsinu í október 1999, og varð úr hinn hinn fjörugasti fundur. Ég var þeirrar skoðunar að fiskurinn, bleikjan og hornsílið, stjórnuðu sveiflunum í vatninu en menn voru mér alls ekki sammála. Prófessor við Háskóla Íslands sendi félagsmönnum tölvupóst til þess að vara þá við að "þar [á fundinum] yrði alið á ranghugmyndum um stofnsveiflur í Mývatni" og: " ...megum við eiga vona á því að vísindalegar niðurstöður verði framvegis afbakaðar í fundarboðum?" Ekki þótti honum þetta hafa verið nóg því hann lauk samskiptunum með þessum orðum : "Það er með ólíkindum að Vísindafélag Íslendinga sé farið að dreifa svo ómerkilegu kjaftæði." Þessar aðvaranir munu einnig hafa verið sendar starfsmönnum Háskólans.

Finna má frásögn af fundinum í Norræna húsinu með því að smella hér: Fundur í Vísindafélagi Íslendinga um sveiflur í lífríki Mývatns.

Erlendir sérfræðingar koma að Mývatnsmálum

Að frumkvæði Kísiliðjunnar fékk ríkisstjórn Íslands erlenda sérfræðinga til að fara yfir rannsóknargögn er tengdust Mývatni í þeim tilgangi að meta áhrif Kísiliðjunnar á lífríkið. Sérfræðingarnir voru þrír prófessorar, tveir frá Noregi þeir Dag Hessen Oslo og Arnfinn Langeland Þrándheimi og einn frá Svíðjóð, Lennart Persson Umeå, allir viðurkenndir sérfræðingar í vatnalíffræði. Viðfangsefni þeirra var eftirfarandi.:

Þeir hófu störf í júní 1999 og skiluðu skýrslu í árslok sama ár. Íslenska þýðingu skýrslunnar má finna með því að smella hér (PDF skrá 138 Kb).

Sérfræðingarnir, settu fram tvær tilgátur um hvað það væri sem stjórnaði sveiflunum í lífríki vatnsins: Mýflugan Tanytarsus, slæðumý eða fiskurinn, hornsílið og bleikjan. Hölluðust þeir að því að það væri fiskurinn sem væri í aðalhlutverkinu. Það var athyglisvert vegna þess að það var samstíga því sem ég hafði áður sett fram en menn hér, bæði í Háskólanum og á Veiðimálastofnun voru ekki tilbúnir til að kyngja. Sjá má meira um þann þátt málsins með því að smella á "Skiptar skoðanir um leikstjórnanda"

Aftur á heimasíðu