Deilur um leikstjórnendur:

Veiðimálastjóri (embættið) var lögboðinn umsagnaraðili um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu í Mývatni. Hann fékk Veiðimálastofnun til að gefa sér umsögn. Þar sagði m.a. um skýrsluna sem ég skrifaði, (Áhrif kísilgúrvinnslu á fisk og fiskveiðar í Mývatni) :

"Fyrrnefnd tengsl leirloss, smádýrastofna og stofnstærðar silungs gerir það að verkum að hægt er að hafna tilgátu 1 (að fiskur sé orsakavaldur í sveiflum í Mývatni, aths. J.K.) sem sett var fram á sínum tíma í Sérfræðinganefndinni og Jón Kristjánsson útfærir svo nánar í Viðauka 3 með frummatsskýrslu. Fleira er það líka sem mælir gern því sem sem Jón Kristjánsson heldur fram í viðaukanum. "Ef áhrif fisks væru svo sterk sem hann vill vera láta (top-down áhrif) því ætti þetta þá ekki að vera ráðandi í öðrum vötnum? Það ætti einnig að mæla gegn því að fiskstofnar í vötnum sveifluðust í sama fasa. Þá má benda á það, að magn bleikju í Mývatni (ef notaður er mælikvarði afli/lögn) er lítið á flatareiningu miðað við mörg önnur grunn gögn á Íslandi og því ættu þessi áhrif að koma fram mun frekar víða annars staðar heldur en í Mývatni."

Ég mótmælti þessari athugasemd með því að senda Skipulagssstofnun eftirfarandi bréf þann 13. október 1999:

Málefni:

Umsögn Veiðimálastofnunar um frummatsskýrslu vegna kísilgúrvinnslu í Mývatni

Inngangur

Framlag mitt til matsskýrslunnar var að meta áhrif kísilgúrsnáms á fiskstofna í Mývatni. Þar tengdi ég m.a. niðurstöður úr nýjustu rannsóknum og tilraunum við þær sveiflur í fiskstofnum sem hafa sést í Mývatni (Viðauki 3). Kísiliðjan hefur sent mér umsögn frá Veiðimálastjóra sem hann byggir á "faglegu áliti Veiðimálastofnunar sem unnið hefur að hagnýtum rannsóknum á fiskstofnum Laxár og Mývatns í rúmlega 20 ár". Hið faglega álit Veiðimálastofnunar véfengir ýmislegt sem ég set fram í umræddum viðauka. Verður ekki komist hjá því að svara því sem þar er sagt. Ennig mun ég víkja að fleiru sem kemur fram í áliti Veiðimálastofnunar , en ég hef nýlega rætt við stofnunina um fiskirannsóknir í Mývatni. Þar gerði stofnunin grein fyrir niðurstöðum sínum í samhengi, allt fram til þessa dags.

Almennt

Veiðimálastofnun leggur mikla áherslu á að mikið vanti á úrvinnslu gagna almennt. Stofnunin hefur samt hvorki skoðun hvaða gögn vanti svo segja megi til um hver áhrif Kísilgúrvinnslu hafa verið á fisk á vinnslutímabilinu, og hver þau gætu orðið við áframhaldandi vinnslu, né á því hvaða gögn liggja fyrir sem nota megi til þess arna.

Gagnrýnt er að ekki skuli hafa verið unnið úr gögnum um fiskirannsóknir. Þetta er athyglisvert, því Veiðimálastofnun hefur í meira en áratug haft það hlutverk að stunda fiskirannsóknir í Mývatni skv. samningi við RAMY. Gefnar hafa verið út skýrslur á hverju ári þannig að varla er hægt að segja að ekki hafi verið unnið úr gögnunum. Þá hlýtur hluti af samningnum að vera sá að gera samantekt á niðurstöðum eftir því sem við á.

Áhrif Kísiliðjunnar á fiskstofna

Veiðimálastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að í Mývatni séu samstíga sveiflur í bleikju, fugli, dýrasvifi, fæðu almennt og þörungum. Um það er ekki deilt. Ekki er heldur deilt um að urriði í Laxá sé í öfugum fasa við bleikju í Mývatni, að velgengni hans sé fæðustýrð og stjórnist fyrst og fremst af reki í Laxá.

Ágreiningurinn stendur um hvað það er sem kemur sveiflunum af stað og stjórnar þeim. Varðandi námaleyfið er lykilatriði hvort Kísliðjan kemur þar við sögu eða ekki, en enn sem komið er hefur ekki verið hægt að tengja sveiflurnar við starfssemi Kísiliðjunnar, og er það ein meginniðurstaða umhverfismatsins.

Þess vegna verður að leita annara skýringa á sveiflunum.

Margar tilgátur hafa verið settar fram og mörgum verið hafnað. Ein tilgátan er sú að fiskurinn (bleikja og hornsíli) stjórni atburðarrásinni:

Fiskurinn fjölgar sér óheft, étur upp alla fæðu og fellur svo sjálfur úr hor þegar allt er upp urið.

Þessi tilgáta var fyrst sett fram 1986 (Jón Kristjánsson 1986. Fiskifræðilegar rannsóknir í Mývatni 1985. Veiðimálastofnun, fjölrit VMST-R 86001, 17 bls.) og ítrekuð í skýrslu Sérfræðinganefndar 1991 (Sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir 1991. Áhrif Kísiliðjunnar h.f. á lífríki Mývatns. Nefndarálit. Umhverfisráðuneytið, fjölrit, 72 bls.). Þessari tilgátu hefur enn ekki verið hafnað, en hún hefur átt erfitt uppdráttar vegna þess að flestir líffræðingar sem nærri málinu hafa komið hafa ekki viljað fallast á svo "einfalda" skýringu.

Hugleiðingar Veiðimálastofnunar um að gera þurfi samanburð við aðra fiskstofna á þessu svæði eru út í hött, því með því er verið að athuga hvort það séu umhverfisþættir sem valdi sveiflunum. Það hefur ekkert með áhrif Kísiliðjunnar að gera.

Nýjar rannsóknir á ofauðgi vatna, "biomanipulasjon"

Veiðimálastofnun virðist ekki vera kunnugt um þær rannsóknir og viðamiklu tilraunir sem sl. 20 ár hafa farið fram á gagnkvæmum áhrifum fisks og fæðudýra í vötnum. Það sést á fullyrðingu Veiðimálastofnunar um ekki geti verið að fiskur stjórni sveiflunum en í umsögn stofnunarinnar segir:

" Fyrrnefnd tengsl leirloss, smádýrastofna og stofnstærðar silungs gerir það að verkum að hægt er að hafna tilgátu 1". Þessi fullyrðing stofnunarinnar er órökstudd og þess vegna út í loftið.

Tilraun til rökstuðnings, um að "Ef áhrif fisks væru svona sterk ... því ætti þetta þá ekki að vera ráðandi í öðrum vötnum?", lýsir ókunnugleika Veiðimálastofnunar á þeim rannsóknum sem eru og hafa verið í gangi.

Nýlega var gefin út bók (Lars -Anders Hansson 1998. Biomanipulering som restaureringsverktyg för næringsrika sjöar. Naturvardsverkets förlag, Lund, Rapport 4851, 107 bls.) þar sem þessi fræði eru tekin fyrir og til upplýsingar fylgir með ljósrit af formála bókarinnar, sem segir frá því hvers vegna hún var skrifuð. Í bókinni er einnig langur listi yfir vísindagreinar um efnið.

Fiskirannsóknir, úrvinnsla gagna, tilgátur

Veiðimálastofnun segir að "gögn um silunginn eru sama marki brennd og flestir aðrir rannsóknaþættir að þau eru ekki fullunnin en túlkun þeirra við aðra þætti er ábótavant.."

Það er athyglisvert að eftir að hafa unnið að rannsóknum í vatninu í rúman áratug og gefið út árlegar skýrslur um framgang skuli stofnunin halda því fram hún hafi trassað að vinna úr gögnunum og enn ekki hafa séð samhengi í niðurstöðum.

Stofnunin gaf út skýrslu um tímabilið 1986-90 (Guðni Guðbergsson 1991. Silungsrannsóknir í Mývatni 1986-1990. Skýrsla Veiðimálastofnunar, VMST-R/91013. 81 bls.) og starfsmaður hennar gaf út skýrslu á norsku um sveiflur í bleikjustofni Mývatns árið 1994 (Guðni Guðbergsson 1994b. Populasjonssvingninger hos röyje i Myvatn, Nordöst-Island. Fauna, vol 47, nr.3 bls. 230-235.)

Ég hef á nýlegum fundum með Veiðimálastofnun farið munnlega í gegn um tímaraðagögn fyrir tímabilið 1986-1999.

Á fundinum sem var í september sl. spurði ég Veiðimálastofnun hvaða skýringar hún hefði á sveiflunum. Það lá í spurningunni að fá að vita um rannsóknaráherslur stofnunarinnar til að skýra sveiflurnar.

Svarið var að um gæti verið að ræða einhver konar eitrun. Ég spurði hvaðan stofnunin héldi að eitrið kæmi, utanfrá eða innanfrá. Við því fékkst ekki svar, en skýrt var frá því að í undirbúningi væri að efnagreinina gamlar bleikjukvarnir.

Það er staðreynd að Veiðimálastofnun hefur ekki lagt sig fram við að uppfylla samning sinn við RAMÝ, en finnst samt við hæfi að býsnast yfir því að úrvinnslu og niðurstöður vanti til að hún geti gefið umsögn um væntanleg áhrif kísilgúrvinnslu í Mývatni. Rannsóknarspurningarnar sem stofnunin átti að svara voru þessar :

Virðingarfyllst, J.K.


Höggvið á hnútinn

Að frumkvæði Kísiliðjunnar fékk ríkisstjórn Íslands erlenda sérfræðinga til að fara yfir rannsóknargögn er tengdust Mývatni í þeim tilgangi að meta áhrif Kísiliðjunnar á lífríkið. Sérfræðingarnir voru þrír prófessorar, tveir frá Noregi þeir Dag Hessen Oslo og Arnfinn Langeland Þrándheimi og einn frá Svíðjóð, Lennart Persson Umeå, allir viðurkenndir sérfræðingar í vatnalíffræði. Viðfangsefni þeirra var eftirfarandi:

Þeir hófu störf í júní 1999 og skiluðu skýrslu í árslok sama ár. Íslenska þýðingu skýrslunnar má finna með því að smella hér (PDF skrá 138 Kb).

Sérfræðingarnir, settu fram tvær tilgátur um hvað það væri sem stjórnaði sveiflunum í lífríki vatnsins: Mýflugan Tanytarsus, slæðumý eða fiskurinn, hornsílið og bleikjan. Sá kafli í skýrslu þeirra sem fjallar um þetta er þannig:

2.2 Hugsanlegar tilgátur

Rannsóknir í Mývatni hafa ekki verið fólgnar í tilraunum. Þess vegna er einungis unnt að byggja tilgátur um orsakir sveiflna í fæðukeðjunni, miðað við núverandi þekkingu, á fræðilegum grunni, og tilrauna er þörf til að prófa gildi mismunandi þátta sem koma við sögu. Til skýringar á sveiflunum munum við hér á eftir ræða tvær andstæðar tilgátur og það sem annaðhvort styður þær eða veikir miðað við þau gögn sem til eru. Fjallað verður um rannsóknir og tilraunir sem gera þyrfti til að meta á gagnrýninn hátt hugsanlegar orsakir sveiflnanna í verkefni 4 hér á eftir.

Ekki er gert ráð fyrir að önnur tilgátan útiloki hina, enda margt sameiginlegt með þeim, en með því að gera ráð fyrir því er hins vegar unnt að setja fram skýrari spurningar um það en ella hvað stjórni hverju. Einnig munum við, jafnframt því sem við fjöllum um tilgáturnar tvær, benda á helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi.

Í báðum þessum tilgátum kemur Tanytarsus mikið við sögu.

Í hinni fyrri er það samspilið milli Tanytarsus og lífsskilyrða þess sem skapar skilyrði fyrir sveiflurnar. Frumorsök atburðarásarinnar er seinkunarbundin, þéttleikaháð dánartala í flugustofninum sem fræðilega hefur verið sýnt fram á að geti leitt til þeirrar atburðarásar sem sjá má (Á. Einarsson, pers. uppl.).

Á það skal bent að hér er um að ræða atburðarás sem einungis hefur verið sýnt fræðilega fram á að gæti staðist en hefur ekki verið prófuð með tilraunum. Ekki eru til nein gögn um möguleika Tanytarsus til að afla sér fæðu. Einu vísbendingarnar um að þéttleikaháðir þættir gætu verið að verki eru gögn sem sýna að neikvæð, seinkunarbundin tengsl eru milli líkamsstærðar fullorðinna flugna og stofnstærðar þeirra (Á. Einarsson o.fl., handrit).

Ef undanskildar eru rannsóknir Péturs Jónassonar (1979) einskorðast flugugögnin við sýni af fullorðnum flugum, veiddum í gildrur, en engin gögn eru til um vöxt eða afföll hjá lirfum. Þar sem það er á lirfustiginu sem gert er ráð fyrir að þéttleikaháð áhrif geti verið að verki er nauðsynlegt við gagnasöfnun að taka mið af þessu í framtíðinni, svo unnt sé að skera úr um hvort þéttleikaháð áhrif séu til staðar.

Áhrif slæðumýs á aðra þætti vistkerfisins í Mývatni hafa verið tengd rörunum sem lirfurnar búa til [og lifa í meðan þær eru á botninum, innskot þýðanda]. Með tilraunum í rannsóknastofu hefur verið sýnt fram á að því fleiri sem lirfurnar eru á hverja flatareiningu, því meira viðnám veiti botnsetið ölduhreyfingu. Tilgátan er þess vegna sú að hrun í lirfustofninum leiði til eyðingar þessara röra eða lirfuhúsa og þá aukist líkur á því að öldugangur nái að róta upp seti og grugga með því vatnið.

Þótt þessi tilgáta geti staðist og megi jafnvel teljast líkleg, þá eru ekki enn sem komið er til nein gögn, byggð á vettvangsrannsóknum, sem sýna tengsl milli slæðumýs (Tanytarsus) og styrkleika sets á einhverjum tilteknum tímum og ekki heldur til nein gögn sem sýna hve fljótt lirfuhúsin brotna niður eða eyðast eftir að lirfan hefur yfirgefið þau og flogið burt úr vatninu fullsköpuð. Þess vegna er nauðsynlegt að kanna þetta tvennt með vettvangsrannsóknum og tilraunum, svo unnt sé að mæla þetta hugsanlega samhengi milli slæðumýs og styrkleika setsins.

Breytingar á botnseti og aukið grugg hafa svo verið tengd því að meira verður vart en ella við bláþörunga (leirlos) og stofnar krabbaflóa á og yfir botni hrynja, eins og nánar verður lýst hér á eftir. Samkvæmt fyrri tilgátu eru áhrifin á dýrin aftar í fæðukeðjunni auðskýrð. Fækkun svifdýra veldur hungri og auknum afföllum hjá hornsílum. Það kemur heim við það að í árum þegar lítið er um svifdýr hafa menn séð hornsíli yfirgefa vatnið í stórum stíl og ganga niður í Laxá. Unnt er að tengja fækkun svifdýra og hornsíla við fækkun bleikju. Það er bending um hve hornsílin geta verið mikilvæg fæða bleikjunnar að tveggja og þriggja ára bleikja fer að horast áður en henni fækkar verulega. Þetta eru þeir aldursflokkar bleikju sem að líkindum geta ekki étið hornsíli. (G. Guðbergsson, óbirt gögn).

Áþreifanlegar sannanir fyrir því að hornsíla- og bleikjustofnarnir hafi drepist úr hungri eru af skornum skammti ef frá er talin staðfesting á því að fyrir hrunið horaðist tveggja og þriggja ára bleikja.

Fullkomin gögn vantar um vöxt eftir aldri, holdafar og afföll bæði hornsíla og bleikju til þess að unnt sé að meta hvaða þátt fæðuskortur á í sveiflum beggja þessara tegunda.

Loks er því við að bæta að það sem takmarkar skilning okkar á tengslum milli bleikju, hornsíla og svifkrabbadýra er að nær ekkert er vitað um bleikjuna tvö fyrstu æviár hennar.

Önnur tilgáta er sú að dýr sem eru á hærri þrepum fæðuvefsins hafi veruleg áhrif á þrepin fyrir neðan sig (top-down control), en sú kenning hefur bæði verið studd á fræðilegan hátt og með tilraunum. (Carpenter og Kitchell 1993).

Auk þess hefur verið sýnt fram á, fræðilega og með tilraunum, að samspil milli stærðarflokka fiska getur valdið stofnsveiflum, svipuðum þeim sem sjást í Mývatni, annaðhvort vegna samkeppni milli aldurs-/stærðarflokka eða samblands af slíkri samkeppni og áti stærri fiska á þeim minni (Hamrin og Persson 1986. Persson o.fl. 1988, Persson o.fl. 2000, Claessen o.fl. 2000).

Þessi kenning tekur til flestra þátta sem getur í hinni fyrri, þar sem gert er ráð fyrir því að Tanytarsus og samspil þess við eigið lífsrými stjórni sveiflunum, en fiskurinn (bleikja eða hornsíli) er settur í hlutverk stjórnanda. Ástæða þess að sú kenning kemur til álita er:

(a) vitneskjan sem nýjar vistfræðirannsóknir hafa leitt í ljós um sveiflur sem orsakast af samskiptum stærðarflokka fiska, og

(b) sú staðreynd að stofnstærðarbreytingar hornsíla stangast á við fyrri kenninguna (Tanytarsus -kenninguna).

Þrisvar hefur orðið fall í hornsílaafla í gildrur á síðasta 10 ára tímabili (árin 1990, 1994 og 1998), en einungis tvisvar (1990 og 1998) hefur aflabresturinn tengst hruni í stofni slæðumýs og svifkrabba. Þess vegna vaknar sú spurning hvort það hafi verið breytingar í afráni bleikju á hornsíli sem hafi valdið hruninu 1994. Stærðarháð afföll hafa sést í bleikju, og bendir það til stærðarháðra áhrifa en eins og áður hefur verið sagt, þá vantar okkur gögn um fyrstu tvo aldursflokka bleikjunnar til þess að geta metið skýringargildi þessarar seinni tilgátu.

Bleikja getur haft áhrif á hornsílin á tvennan hátt: Með því að styggja þau burt af búsvæðunum og með því að éta þau (Langeland 1982).

Beitaráhrif hornsíla á svifkrabba í vötnum þar sem bleikja og hornsíli eru saman eru vel þekkt úr norrænum vötnum (Langeland 1982, Dahl-Hansen 1998).

Beitaráhrif fisks á rykmý, sérstaklega slæðumý, eru lítt þekkt. En mýflugan á öllum stigum, þ. á m. slæðumý, eru hugsanleg bráð, bæði hornsíla og bleikju á fyrsta ári (Ranta-Aho 1983, Gíslason o.fl. 1998).


Mývatn er nú enn í mati (júni 2000) og það ræðst í haust hvernig málið fer, hvort Kísiliðjan fær námaleyfi eða ekki. Skýrsla norrænu sérfræðinganna lagði þungt lóð á vogarskál okkar sem haldið hafa því fram að fiskurinn í Mývatni leiki þar hlutverk stjórnanda. Svo er að sjá hvað setur.


Umhverfismat var klárað haustið 2000 og ráðuneytið veitti svo Kísiliðjunni leyfi til að hefja vinnslu í Syðri Flóa með skilyrðum. Til þess kom þó ekki því Iðnaðarráðherra seldi verksmiðjuna til þess að leggja hana niður. Endir þeirrar sögu.


til baka