Grænland

Mikið hefur verið af þorski við Grænland undanfarin ár. Miklar göngur vertíðarþorsks við Ísland 2009- 2013 koma sennilega að hluta til frá Grænlandi en Hafró er hætt að minnast á Grænlandsgöngur í skýrslum sínum þó sjómenn þykist þekkja Grænlandsþorskinn.

Læðist að manni sá grunnur að þeir vilji ekki láta það uppi vegna þess að þá eiga þeir erfiðara með að skrifa þessar miklu göngur á sínar eigin uppbyggingatilraunir.

Hin mikla þorskgegnd við Grænland virðist hins vegar hafa farið framhjá vísindamönnum. Það er eins og þeir geti hvergi fundið fisk. Skemmst er að minnast að þýski togarinn Kiel, sem nýtir þarna aflaheimildir ESB veiddi 700 tonn á einni viku og hefur farið á þessi mið í nokkur ár með viðkomu á Íslandi.

Nú, árið 2013, eru þarlendir vísindamenn (og ICES) enn að "byggja upp stofninn" (sem lengi hefur verið risastór) með því að halda aftur af veiðunum.

Aflaheimildir á djúpslóð, utan við 3 sjm. eru 5000 tonn og á grunnslóðinni 3500 tonn.

Að mínu mati nær þetta ekki nokkurri átt, grænlenska strandlínan er sú lengsta í heimi og fiskveiðilandhelgin er risastór. Skipafloti Grænlendinga gæti hvergi nærri nýtt allt þetta svæði í frjálsri sókn.

Ég gerði úttekt á þorski og horfum þorskveiða við Grænland, fyrst árið 2001 og aftur árið 2007. Meiningin var að ég færi til Grænlands til að kynna skýrsluna ásamt Jörgen Niclasen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, sem hafði fengið mig í vinnu nokkrum árum áður. Hann vildi vera með til að styðja mig og gefa mér meðmæli.

Sú ferð var hins vegar blásin af eftir að grænlenska náttúrustofan frétti af okkur. Þá slitnaði allt samband mitt við Grænland. Skyldu þeir hafa hringt til Íslands og gefið okkur "meðmæli"? - (skifað 2013)

--------------------------------

Hann getur verið stór Grænlandsþorskurinn. Sigurður Þórðarson vinur minn 6 ára um borð í Austfirðingi á Grænlandsmiðum 1952. Faðir hans, Þórður Sigurðsson frá Hvassahrauni, var skipstjóri.