Jón Kristjánsson fiskifræðingur: Janúar 1992
Forsendur fiskveiðistjórnar
(Erindi flutt á ráðstefnu Stafnbúa á Ólafsfirði í janúar 1992)
Hvað er fiskveiðistjórn?
Fiskveiðistjórn nefnist það þegar einhver, oftast hið opinbera, hefur afskipti af veiðum einstaklinga. Markmiðin geta verið misjöfn eftir því um hvers konar veiðar er að ræða. Dæmi: Skipta afla á milli veiðimanna eins og á sér stað í netaveiðinni í Ölfusá og Hvítá. Þar eru frídagar sem net mega ekki vera niðri og er ætlunin að með því móti dreifi fiskurinn sér betur um vatnasvæðið. Verndun hrygningarstöðva í þeirri trú að með því verði góð afkoma tryggð. Þannig eru allar laxveiðar bannaðar á Íslandi eftir 20. september. Þá hefur fiskveiðistjórn í laxveiðiám ekki það markmið að hámarka afrakstur heldur að halda ánægju veiðimanna í hámarki. Markmið stjórnunar getur einnig varið að nýta sem best afkastagetu verksmiðja og má minna á Loðnunefnd í barnæsku loðnuveiða. Tilgangur stjórnar getur einnig verið að sjá um að of margir stundi ekki ákveðnar veiðar til þess að úthald hvers og eins verði arðbært. Þar má nefna leyfisbindingu veiða á humri, hörpudiski, síld og fleiri tegundum. Það markmið sem algengast er að setja er að ná hámarksafrakstri fiskstofna, einum eða fleiri, á sama tíma. Er ég þá kominn að því sem er til umræðu hér: Fiskveiðistjórn í þeim tilgangi að hámarka afrakstur fiskstofna og annarra dýrastofna við Ísland til langs tíma.
Spurningin er hvernig á að fara að því. Vitað er að ef ekkert er veitt fæst enginn afrakstur og ef allt er veitt verður ekkert til á morgun. Einhvers staðar milli þessarra tveggja ytri punkta liggur það veiðiálag sem gefur góðan afrakstur til langs tíma. Ekki er heldur sama hvernig er veitt, er best að veiða stóran fisk, lítinn fisk, geldan eða kynþroska og þá í hvaða hlutföllum? Stjórn fiskveiða krefst yfirgripsmikillar þekkingar á liffræði fiska og annara dýra hvort sem þau eru veidd eða ekki svo og á samspili þeirra milli og við umhverfi sitt, þess sem nefnt er vistfræði.
Forsagan og stefnan
Haustið 1975 sendi starfshópur á vegum Rannsóknarráðs ríkisins frá sér skýrslu um þróun sjávarútvegs. Í skýrslunni var dregin upp mjög dökk mynd af þróun helstu fiskstofna, einkum þorskstofnsins. Í skýrslunni var því spáð að ef ekki yrði tekin upp virk fiskveiðistjórnun til verndunar fiskstofnunum gæti heildarbotnfiskafli á Íslandsmiðum verið kominn niður í 300 þúsund tonn 1985 og að líkur væru á að hrygningarstofn þorsks myndi minnka jafnt og þétt niður í 70-90 þúsund tonn 1979 og þorskaflinn það ár yrði kominn niður í 200-220 þúsund tonn. Þá var lagt til að þorskafli 1976 yrði takmarkaður við 205 þúsund tonn svo hrygningarstofninn kæmist í 410 þús tonn 1980.
Þessi spá gekk ekki eftir. Stjórnvöld tóku ekki mark á hrakspánum og veitt ver langt umfram tillögur. Aflinn varð 348 þúsund tonn 1976 og óx í 469 þúsund tonn 1981 Hrygningarstofninnn varð 730 þúsund tonn, nær helmingi stærri en boðað hafði verið, þrátt fyrir að veitt hafi verið langt umfram tillögur allt tímabilið .
Þegar við höfðum náð yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni og rekið útlendinga af miðunum var hægt að hefjast handa við að hámarka afrakstur fiskimiðanna. Stefnan var sett á að draga úr sókn, aðallega á smáfiski.
Sú stefna sem Hafrannsóknastofnun markaði var að byggja skyldi upp þorskstofninn, stækka hann, svo hann gæfi af sér meiri afla og öruggari nýliðun. Möskvi var stækkaður úr 120mm í 155mm og beitt var skyndilokunum til þess að friða smáfisk svo hann næði að vaxa og stækka stofninn. Eftirfarandi glefsur úr skýrslum stofnunarinnar sýna svo ekki verður um villst hvað átti að gera. Í skýrslu um horfur 1978 segir:
"Ört minnkandi hrygningarstofn hefur leitt til vaxandi líkinda á því, að klak þorsksins misfarist. Enda þótt ekki hafi verið sýnt fram á samhengi milli stærðar hrygningarstofns og niðjafjölda, er þó augljóst, að einhver eru þau stærðarmörk hrygningarstofnsins, þar sem hann verður ófær um að gegna líffræðilegu endurnýjunarhlutverki sínu. Hér að lútandi er athyglisvert að viðkoma þorskstofnsins hefur verið mjög sveiflukennd síðustu 4 ár, þ.e. eftir að stofninn fór niður undir og niður fyrir 200 þús. tonn. Lítill hrygningarstofn samsettur af tiltölulega fáum aldursflokkum, kemur til hrygningar á takmörkuðu tímabili og veltur því á miklu, að umhverfisaðstæður séu hagstæðar einmitt þá. Þegar hrygningarstofn er stór og í honum margir aldursflokkar, dreifist hrygning yfir lengri tíma, sem stuðlar að því að einhver hluti stofnsins hrygni við hagstæðar aðstæður. Líta má á stóran hrygningarstofn sem aðlögun tegundarinnar að breytilegum umhverfisaðstæðum og tryggingu fyrir viðhaldi hennar. Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að byggja upp hrygningarstofninn og þorskstofninn í heild og tryggja þannig viðkomu stofnsins og hámarksafrakstur hans. Telja má eðlilegt að haga nýtingu þorskstofnsins á þann veg að, að nota stóru árgangana frá 1973 og 1976 sérstaklega í þessu skyni."
Ári síðar er enn hnykkt á þessu, en þá segir í skýrslunum:
"Þó ekki hafi verið sýnt fram á að núverandi hrygningarstofn sé orðinn ófær um að gegna endurnýjunarhlutverki sínu, þá er ljóst, að ástand stofnsins og veiðanna sem á honum byggjast eru með öllu óviðunandi. Hafrannsóknastofnunin ítrekar fyrri skoðanir sínar og telur brýnt að byggja upp hrygningarstofninn og þorskstofninn í heild til þess að tryggja viðkomu hans og afrakstur um alla framtíð."
Árangur fiskveiðistjórnar
Friðunaraðgerðirnar snöggdrógu úr afla á smáfiski eins og til var ætlast. En jafnframt fór að draga úr vexti þorsksins og náði stærð eftir aldri lágmarki 1983. Þannig minnkaði meðalþyngd 6 ár þorska úr 4.01 kg frá meðaltali árin 1977-79 í 2.96 kg 1983, og meðalþyngd 7 ára þorska fór úr 5.86 kg niður í 4.01 kg, fiskurinn léttist um rúm 30%. Það ár snarminnkaði stofninn og afli var svo lélegur að flotinn náði ekki einu sinni að að veiða upp í veiðiheimildir. Í framhaldi af þessu voru kvótalögin sett, tímabundið þar til ástandið myndi breytast til batnaðar.
Vert er að skoða nánar árangurinn af þessarri róttæku breytingum sem urðu á sóknarmynstri, og sem hafa verið við lýði síðan með auknum áherslum. Það sýndi sig svo ekki varð um villst að sókn í þriggja ára þorsks varð nánast engin eftir möskvastækkunina og sókn í 4 ára þorsk minnkaði verulega. Segja má að við breytinguna hafi sókninni í þorskinn verið frestað um eitt ár, árgöngum í veiði hafði verið fækkað. Von manna og trú var auðvitað sú að þessi friðun á smáfiski myndi skila sér í meiri afla á stærri fiski seinna. Varð það raunin? Lítum nánar á gögn um landaðan afla frá 1970 fram til 1990. Tímabilið 1970-76 sýnir aldursflokkaskipun aflans áður en möskvanum var breytt, tímabilið 1977-83 eru fyrstu árin eftir breytinguna og tímabilið 1984-90 sýnir ástandið eftir að fiskstofninn er búinn að aðlaga sig breytingum á möskvastærð. Á myndinni má sjá hvernig dregur úr afla yngri árganga eftir að möskvi er stækkaður. Eftir 1984 fer afli 3 ára fiska að vaxa aftur, væntanlega vegna aukins fjölda þeirra, en einnig kemur í ljós að minna veiðist af eldri fiski í nýja sóknarmynstrinu en því gamla. Aukin friðun á smáfiski hefur ekki skilað sér sem aukning í stórum fiski síðar, þvert á móti. Stofninn sýnir nú einkenni þess sem gerist þegar "veitt er ofan af" og fæðuskortur veldur hægari vexti með aukningu á náttúrulegri dánartölu.
Svipað hefur gerst í ýsustofninum, þar eru einkenni rangrar veiði enn meira áberandi vegna þess að ýsan er ekki eins fjölhæfur fiskur við fæðuöflun og þorskurinn. Sl. haust (1990) var svo komið að ýsan í Faxaflóa var aðeins um 900 g að þyngd 5 ára gömul í nóvember í stað um 2 kg sem er venjulegt fyrir ýsu með eðlilegan vöxt. Núna, ári síðar, er ýsan enn jafn þung, en hefur elst um eitt ár. Enda er hætt að beita skyndilokunum á þessa "dvergýsu" en skýringar á vaxtarstöðvun hennar vefjast mjög fyrir þeim sem bera ábyrgð á fiskveiðistjórninni.
Árangur stjórnunar með friðun hefur gefið þann árangur að minni afli berst nú á land af flestum tegundum botnfiska. Það gefur tilefni til að endurskoða þær stjórnunaraðferðir sem notaðar hafa verið.
Stærð hrygningarstofna
Rök fiskveiðistjórnar hafa byggst á að hrygningarstofnar þurfi að vera stórir til þess að örugg afkoma fiskstofnanna sé tryggð. Ekki þarf að hafa mörg orð um þessi rök, því í ljós hefur komið að nýliðun er óháð stærð hrygningarstofns. Það sem meira er, nýliðun virðist best þegar hrygningarstofninnn er lítill og er það auðskiljanlegt ef gert er ráð fyrir þéttleika tengdum áhrifum, þ. e. ef stofninn er lítill er "pláss" fyrir aukningu og öfugt. Hér er sýnt línurit um nýliðun þorsks og sjá má að hjá nýliðun virðist óháð stærð hrygningarstofns. Nýlega var viðurkennt af starfsmönnum Hafró að reyndar fyndist ekkert samband milli hrygningarstofns og nýliðunar, (Mbl. 14/1 92).
Stærð veiðistofna
Önnur megin kennisetning um fiskveiðistjórn hefur verið að veiðistofninn ætti að vera stór, núverandi stofn sé ekki nógu stór, þess vegna þurfi að stækka hann og alltaf er verið að reyna að ,,byggja hann upp" eins og það er kallað. Þess vegna er alltaf verið að leggja til að draga verði úr afla til þess að þeir fiskar sem ekki eru veiddir bætist við stofninn seinna svo hann verði stærri, og þá verði unnt að veiða meira. Hér má skjóta því inn að sé dregið úr afla eitt ár um 10%, hlýtur forsenda þess að hægt verði að auka aflann síðar um þessi sömu 10%, að viðbættum raunvöxtum. Á þessu hefur orðið verulegur brestur svo ekki sé meira sagt. Uppbyggingin, eða fórn afla eitt árið til þess að fá meira seinni ár, hefur því mistekist.
Samkvæmt rannsóknum á eðli og vexti dýrastofna þá gefa þeir mest af sér þegar þeir eru af meðalstærð, ekki þegar þeir eru nálægt hámarksstærð. Þetta er vegna þess að þá er vaxtarhraðinn í hámarki, en hann ásamt nýliðuninni ræður framleiðninni. Athugun á gögnum um stærð veiðistofna þorsks og ýsu við Ísland sýnir að það er alls ekki beint samband milli stærðar veiðistofns og afla. Stækkun veiðistofnsins gefur ekki þá aflaaukningu sem búast mætti við. Úr línuritinu má lesa að ef þorskstofninn tvöfaldast í stærð, frá 1200 þúsundum tonna í 2400 tonn, eykst aflinn ekki nema um 20%. Ef stofnstærðin er rétt reiknuð mætti álykta að flotinn væri ekki nógu stór til þess að ná mögulegum afla. Líklegra er þó að þegar við bætum 1200 þúsund tonnum í frítt fæði og húsnæði þá er það ekki ókeypis.
Vistfræðin segir okkur það að heppilegast er að halda öllum stofnum fremur litlum, þannig fæst hámarksafrakstur af frumframleiðninni.
Tillaga að breyttum stjórnaraðferðum
Af því sem sagt hefur verið þarf ekki að hafa áhyggjur áhyggjur af svokallaðri "ofveiði". Í raun er mjög djúpt á öllu sem heitir ofveiði, því ber að tala um ranga veiði þegar afrakstur fiskstofna verður minni en hann "ætti" að vera. Samkvæmt því er flotinn ekki of stór en það þarf að sjá um að hann nýti fiskstofnana sem best. Það gengi t.d. ekki að allir lægju í þeirri fisktegund sem gæfi mest af sér hverju sinni en létu aðrar lítt- eða ónýttar. Fiskveiðistefnan á að vera jákvæð, þ.e. að sjá um að sem flestar tegundir séu nýttar á fullu. Hingað til hefur verið beitt neikvæðri stefnu sem felur í sér að takmarka rétt á veiðum á flestum tegundum.
Ákvæði um möskvastærðir eru byggð á röngum forsendum. Eitt hið fyrsta sem ber að gera er að smækka möskva í veiðarfærum til þess að stýra sókninni framar í stofnana, veiða meira af yngri árgöngum og möskvinn verður að taka mið af þeim vaxtarskilyrðum sem ríkja á hverjum stað og tíma. Einnig ber að sjá til þess að allar tegundir sem máli skipta séu veiddar. Það mætti til dæmis gera þannig að til þess að fá að veiða 1000 tonn af þorski þyrfti skip eða útgerð fyrst að skila að landi 500 tonnum að karfa og/ eða 500 tonnum af ufsa svo dæmi sé tekið. Slík stefna krefðist þess að rannsóknir á vaxtarhraða fengju miklu meiri forgang en nú er. Þær aðferðir sem hingað til hafa verið notaðar til þess að finna sambandið milli aldurs og lengdar hafa flestar verið gerðar í þeim tilgangi að afla gagna í VP-aðferðina, þ.e. að skipta lönduðum afla í aldursflokka. Hún segir lítið um raunverulegan vöxt í stofnunum.
Ef þarf að auka eða minnka afla á einhverri tegund á að nota sóknarstýringu en ekki aflakvóta. Aflamarksstýring í síbreytilegu vistkerfi hefur svo marga ókosti að hún er ekki réttlætanleg nema í undantekningartilfellum.
Samantekt, eftirmáli.
Hér hefur verið sýnt fram á að eftirfarandi kennisetningar, sem hafa verið helsta röksemd fiskveiðistjórnar hingað til, standast ekki eða eru rangar:
1. Stór hrygningarstofn er nauðsynlegur til þess að tryggja mikla og jafna nýliðun.
2. Stór veiðistofn er nauðsynlegur til þess að tryggja mikinn afla.
Einnig hefur verið sýnt fram á að sú aðferð sem beitt hefur verið til að ná fram ofangreindum markmiðum, stækkun möskva, friðun smáfiskasvæða og niðurskurður á afla, hefur ekki aðeins reynst árangurslaus, hún hefur breytt aldurssamsetningu stofnsins til hins "verra", færri árgangar eru nú í veiðinni en áður en farið var að stjórna.
Á fundinum upplýsti fulltrúi Hafró (Gunnar Stefánsson) að stærð náttúrulegs dánarstuðuls væri og hefði verið ágiskun. Einnig staðfesti hann að þorskur hefði ekki verið viktaður fyrr en sl. 3-4 ár, en stuðst hefði verið við lengdar-þyngdar samband sem fundið var 1945, og aftur 1978-79. Það þýðir að svæðisbundnar og skammtíma breytingar á holdafari hafa farið fram hjá rannsóknarmönnum.
Heimildir:
Skýrslur Hafrannsóknastofnunar um ástand og horfur.
Ricker, W.E 1975. Computation and Interpretation of Biological Statistics of Fish populations. Bull. Fish. Res. Board Canada 191:382p.
Viðauki 1
Svo betur megi sjá þær breytingar sem hafa orðið á aldurssamsetningu þorksstofnsins við að möskvi var stækkaður og farið var að beita svæðalokunum vegna of mikils smáfisks í afla, er hér birt mynd sem sýnir aldusrdreifingu aflans fyrir og eftir þessar breytingar. Rétt er að taka það fram að nýliðun er svipuð þessi tímabil, en erfitt er að slá fram nákvæmum tölum um hana, m.a. vegna þess að erfitt er að draga fram hvaða árgangar eru mest einkennandi fyrir hvort tímabil fyrir sig. Öll gögn um nýliðun eru þó fyrir hendi og menn geta sjálfir leikið sér að því að finna hve sterkir árgangar eru á ferðinni á þessum árum og hvort það kemur til að breyta heildarmyndinni. Myndin sýnir hvað hefur gerst. Tilgangurinn var að friða smáfisk svo hann skilaði sér í veiði seinna sem eldri fiskur. Það hefur ekki gengið eftir. Það tókst að draga úr afla á ungfiski, eins og myndin ber greinilega með sér, en það hefur einnig dregið úr afla á eldri fiski, gagnstætt því sem ætlast var til. Friðun smáfiskjar hefur leitt til þess að dregið hefur úr afla á stórum fiski. Vandséð er hvaða rök mæla með því að halda slíkri fiskveiðistjórnun áfram.
Þessi grein er frá árinu 1992, í anda þess að þorskaflinn 1991 var kominn niður í 308 þúsund tonn. Ekki er hægt að sjá að mikið hafi breyst síðan. Haldið var áfram að byggja upp með friðun og árangurinn varð sá að aflinn 1995 fór niður í 165 þúsund tonn, þann minnsta á öldinni. Núna er ársaflinn að komast upp í 250 þúsund tonn og sagt er að það sé vegna góðrar stjórnunar fiskveiða!! Engin teikn eru á lofti um að þessu verði breytt.
Ég tel að ástæða þess að ekki sé unnt að byggja upp stofn með friðun sé sú að fæðuframboð ráði stærð fiskstofna. Sé fiskur ekki veiddur verða fleiri um mat sem er af skornum skammti og það leiðir til smækkunnar og óþrifa einstaklinganna í stofninum. Fiskur veslast upp af hungri og drepst, sumir komast af með því að éta bræður sína o.s. frv. Stofninn stækkar ekki en meira af framleiðslu sjávar, fæðunni, fer í sjálfa sig.
Til þess að fá góða uppskeru þarf að veiða það mikið að fiskarnir þrífist vel og fæðan nýtist til vaxtar (sem verður að afla), í stað þess að fara í innbyrðus samkeppni og sjálfát. Það er ekki flóknara en það.
Nokkrum mánuðum eftir að ég skrifaði línurnar hér að ofan kom nýtt bakslag: Sagt var að stofninn hefði verið ofmetinn og kvótinn var skorinn niður. Árið eftir kom annað bakslag, kvótinn skorinn. Samtals 60 þús. tonn á tveimur árum. Hann hefði verið skorinn meira hefði ekki verið sett sú regla árið 2000 að ekki mætti skera meira niður en 30 þús. tonn í einu stökki. Enn er talað um vanmat. Ráðgjöfin nú er að herða sultarólina enn meir, reyna að stækka stofninn með friðun.
GISP! sögðu þeir í Andrésblöðunum í gamla daga.