Ýsustofninn í góðu lagi

(Skrifað í október 1992. Birt í sjómannablaðinu Víkingi)

Í leiðréttingu frá Hafrannsóknastofnun sem birt var í siðasta tölublaði Víkingsins sagði að ýsustofninn væri í góðu ástandi, góð nýliðun væri á leið inn í stofninn. Tilefni þessarrar leiðréttingar var að bent hafði verið á að þrátt fyrir að ýsuafli hefði aldrei farið fram úr ráðleggingum stofnunarinnar hefði stofninn ekki byggst upp eins og verið var að reyna. Ábendingin kom fram vegna þess að Hafró hefur sífellt haldið því fram að ástæða þess að þorskstofninn hefur ekki byggst upp sé sú að alltaf hafi verið farið fram úr tillögum stofnunarinnar. Því til stuðnings hefur stofnunin birt tölur um afla sem veiddur hafi verið umfram tillögur þeirra. Ástæðan fyrir ástandi þorkstofnsins væri því eins konar uppsafnaður vandi stjórnmálamanna.

Hafró telur að ástand ýsustofnsins sé gott og hefur það til marks að góð nýliðun sé á leið inn í stofninn. Hér munu þeir eiga við árgangana 1990 og 91 en þeir hafa mælst mjög sterkir í togararallinu.

Hér áður fyrr, áður en virk fiskveiðistjórnun kom til, var ýsan veidd mjög ung og ekki var reynt að treina sterka árganga til þess að byggja upp stofninn, menn veiddu eins mikið og hægt var. Enda var ofveiði ýsunnar mikill höfuðverkur og íslenski ýsustofninn oft tekinn sem dæmi um fiskstofn sem væri ofveiddur.

Áður en lengra er haldið er rétt að líta á mynd sem sýnir ýsuafla við ísland frá 1951-1990. Athyglisvert hve aflinn er mikill á ofveiðitímabilinu. Hann fer yfir 100 þúsund tonn mörg ár í röð í óheftri sókn. Þrátt fyrir verndun og stjórn hin síðari ár hefur aflinn ekki náð að nálgast það sem hann var þegar stofninn var ofveiddur.

Afli

Ekki er nóg að stofn sé í góðu ástandi, heldur skiptir það megin máli hvað stofninn gefur af sér þ.e. hver afrakstur fæst úr honum þegar til langs tíma er litið.

Myndin að neðan sýnir stærð ýsustofnsins og þann afla sem úr honum fékkst á tímabilinu 1969-90. Sjá má að aflinn er að mestu óháður stofnstærð. Athyglisvert er að þessi ofveiddi fiskstofn skilaði um 100 þús. tonna afla í 5 ár frá 1961. Stofninn stækkar mjög mikið fram að 1980, án þess að aflinn vaxi að sama skapi. Það er e.t.v. eðlilegt því verið var að reyna að byggja upp stofninn og því haldið aftur af veiðiskap. Eftir 1980 minnkar stofninn stöðugt án þess að hægt sé að sjá að mikilli veiði sé um að kenna. Stofninn minnkar þrátt fyrir uppbyggingu og eina sem hafðist upp úr krafsinu var að verulegur afli tapaðist. Treystir einhver sér til þess að breyta þessarri uppbyggingarvisku í tap á útfluttum verðmætum og þar með gjaldeyri? Stofn

Fróðlegt er að rifja upp hvað menn álitu á sínum tíma að afrakstur yrði með réttri nýtingu. Í skýrslu um framtíð sjávarútvegs sem út kom 1976, var sagt að ef nýting ýsustofnsins væri rétt gæti hann gefið af sér um 80 þúsund tonn að meðaltali á ári. Í síðari skýrslum stofnunarinnar er talið að jafnstöðuafli ýsu sé 70 þúsund tonn. Reynslan er hins vegar sú að ýsuafli hefur aldrei náð þessu marki eftir að virk stjórn veiða var tekin upp.

Þegar við fengum yfirráð yfir allri fiskveiðilögsögunni hófst hin ,,rétta" nýting ýsustofnsins. Grípum niður í lýsingu Jóns Jónssonar fyrrverandi forstjóra Hafró:

,, ...1976 urðu gagnger stakkaskipti á nýtingu stofnsins, er möskvi var stækkaður í 155 mm, og koma þessi umskipti vel fram í mikilli aukningu stofnsins seinni hluta áttunda áratugarins. Um líkt leiti kom stór árgangur frá 1973 í gagnið og nýttist hann á allt annan og betri hátt en fyrri árgangar. Áhrif stærri möskva sjást m.a. í því að 1972-1976 var árlega landað að meðaltali 6.4 þús. tonnum af þriggja ára ýsu, en næstu fimm árin var meðal ársafli jafn gamallar ýsu 1.2 þús. tonn. Jafnframt óx hlutur sex ára fisks úr 2.3 þús tonnum í 5.1 þús. tonn." (Jón Jónsson 1990).

Hér leggur höfundur mikið upp úr að minna sé farið að veiðast af smáýsu og meira af þeirri sem er stærri og eldri og finnst það af hinu góða. En honum virðist hafa láðst að koma auga á þær breytingar sem urðu á afla við þetta nýja sóknarmynstur:

Fyrra tímabilið veiddust 6.4 þús. tonn af smáýsu og 2.3 þús. tonn af stórri ýsu eða alls 8.7 þús. tonn, en seinna tímabilið, í góða ástandinu, veiddust 1.2 þús. tonn af smáýsu og 5.1 þús. tonn af þeirri stóru, alls 6.3 þús tonn eða 28% minna. Stækkun möskvans, það að bíða með að veiða fiskinn og láta hann vaxa, leiddi m.ö.o. til um 30% aflarýrnunar! Dágóður árangur það.

Líklegasta ástæða þess að afli minnkar þegar beðið er með að veiða fiskinn er sú að dánartala vex og það dregur úr vexti þegar einstaklingum (þessum sem verið er að geyma til seinni tíma) fjölgar í stofninum. Ég benti á það í grein hér í Víkingnum fyrir tveimur árum að ýsan í Faxaflóa væri óvenju smá eftir aldri og Hafró staðfesti í grein í Víkingi nokkru síðar, að óvenju mikið væri um hægvaxta ýsu með allri suðurströndinni. Síðan hefur verið hljótt um þessa staðreynd og lítt farið fyrir skýringum á fyrirbrigðinu.

Þrátt fyrir að afli sé minni með nýja sóknarmynstrinu hefur ekki verið hvikað frá stefnunni. Hún hefur verið hert ef eitthvað er, skyndilokanir vegna of mikils smáfisks hafa verið tíðar og heilu svæðunum hefur verið lokað til þess að vernda smáýsu. En allt kemur fyrir ekki, afli vex ekki og ýsukvótinn náðist ekki einu sinni á síðasta fiskveiðiári. En nú segir Hafró að stofninn í góðu ástandi og mikil nýliðun (smáfiskur) sé á leið inn í stofninn. Það verður dapurlegt að þurfa að fylgjast með framhaldi þessarar friðunarstefnu sem hefur ekki leitt til annars en aflataps og erfiðleika.

Merkingar á ýsu.

Á árunum 1952-1964 voru alls merktar 28564 ýsur á ýmsum stöðum umhverfis land, og endurheimtust 1567 eða 5.2% (Jón Jónsson 1990). Þetta er mjög lágt endurheimtuhlutfall, minna en hjá öðrum fisktegundum. Lágar endurheimtur geta átt sér ýmsar orsakir: Merkjum ekki skilað. Gera má ráð fyrir að trassaskapur í skilamennsku eigi jafnt við allar tegundir, hlutfallslega minni skil af ýsumerkjum verður því að skýra öðruvísi. Hún drepst frekar en annar fiskur eftir merkingu, er viðkvæmari. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að ýsan er mjög viðkvæm fyrir hnjaski. Lágt veiðihlutfall myndi einnig geta skýrt léleg merkjaskil. Sennilega eru lélegar endurheimtur merkja sambland af öllu þessu en þetta bendir til þess að ýsa sem lent hefur einu sinni í veiðarfæri veiðist sjaldan aftur. Því er mjög vafasamt að nota of stóran möskva við ýsuveiðar, annað hvort á að banna togveiðar eða nota möskva sem heldur meiru af fiski.

Heimildir:

Jón Jónsson 1990. Hafrannsóknir við Ísland II. Eftir 1937. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1990.

Ástandsskýrslur Hafrannsóknastofnunar.


Aftur á forsíðu