Vatnafiskar

Fisktegundir í ferskvatni

Sex tegundir vatnafiska finnast í íslenskum vötnum, fimm eru upprunalegar en ein er innflutt. Tegundirnar eru þessar:

Af laxaætt:

Lax (Salmo salar). Hrygnir í ferskvatni, elst þar upp 2-6 ár, gengur til sjávar, dvelur þar 1-2 ár og verður þar kynþroska. Gengur úr sjó í ferskvatn til að hrygna.

Urriði (Salmo trutta). Elur oftast allan sinn aldur í ferskvatni, vatnaurriði. Gengur einnig til sjávar á sumrin, sjóurriði, sjóbirtingur. Hrygnir alltaf í ferskvatni.

Bleikja (Salvelinus alphinus). Oftast staðbundin í ferskvatni allt árið, vatnableikja, murta. Gengur einnig til sjávar á sumrin, sjóbleikja, sjóreyður. Hrygnir alltaf í ferskvatni

Regnbogasilungur (Salmo gardineri). Innfluttur. Í heimkynnum sínum hrygnir hann í ferskvatni að vori til. Staðbundinn, gengur oft til sjávar (steelhead). Innfluttur frá Ameríku til Evrópu til nota í fiskeldi. Tímgast ekki í náttúrunni utan upprunalegra heimkynna sinna.

Af Álaætt:

Áll (Anguilla anguilla). Hrygnir í sjó (Saragasso haf), lirfurnar berast með Golfstraumnim, gengur í ferskvatn eða hálfsölt lón til uppvaxtar.

Af hornsílaætt:

Hornsíli (Gasterosteus aculeatus). Hrygnir og er algengast í ferskvatni. Dvelur einnig í hálfsöltum lónum, gengur oft í sjó á sumrin.

Lax

Ferskvatnsdvöl, hrygning og uppvöxtur

Laxinn hrygnir í ánni að hausti, þeirri sömu á og hann fæddist sjálfur í, og hrognin klekjast út vorið eftir. Hann velur sér fremur grófan malarbotn til hrygningar. Hrygnan grefur hrognin niður í mölina og eru þau 20-40 sm dýpi niðri í mölinni. Fyrstu vikurnar eftir klak nærast seiðin (pokaseiði) á forðanum sem þau hafa í kviðpokanum. Þá eru þau ljósfælin og halda sig niðri í mölinni. Þegar kviðpokinn er að verða búinn koma þau upp úr mölinni og fara að leita sér fæðu í ánni. Þeirra fer fyrst að verða vart um og eftir miðjan júni, allt eftir hitastigi.

Seiðin eru í ánni 2-6 ár og ná á þeim tíma nægilegri stærð og þroska til þess að geta gengið til sjávar. Seiðin þurfa að ná ákveðinni stærð (11-13 sm lengd) áður en þau fara til sjávar og tíminn sem það tekur ræðst af vaxtarskilyrðum í ánni, en þau geta verið mjög mismunandi. Ár eru mismunandi næringarríkar, auk þess skiptir almennt tíðarfar máli. Þéttleiki seiða í ánni hefur mikil áhrif á vöxt þeirra: Því færri seiði á flatareiningu, þeim mun hraðari vöxtur. Þetta má greinilega sjá þar sem pokaseiðum er sleppt í ár ofan laxgengra fossa. Ef hæfilegum fjölda er sleppt ná þau göngustærð á 2-3 árum en neðan við fossinn, þar sem laxinn hrygnir sjálfur og þéttleiki seiða er mjög mikill, tekur það seiðin 4-5 ár að ná sama þroska (stærð).

Sjávardvöl

Á 3.-6. vori ganga laxaseiðin til sjávar og koma aftur í ána 1-2 árum síðar til að hrygna og hafa þau vaxið gríðarlega við dvölina í sjónum. Allir laxar sem ganga í árnar eru kynþroska.

Seiðin eru 15-25 g þegar þau fara í sjó, ári síðar er laxinn orðinn um 2.5 kg (smálax), og eftir 2 ár í sjónum er hann orðinn 4-7 kg (stórlax).

Ævilok

Mestur hluti laxins deyr að lokinni hrygningu. Þeir fáu sem lifa hana af ganga aftur til sjávar vorið eftir hrygninguna (hoplax) og koma aftur sama sumar og hafa ekki bætt neinu við sig í þyngd frá því árið áður, einungis unnið upp þyngdartapið sem varð við hrygninguna og vetrardvölina í ánni. Laxinn hættir að éta nokkru áður en hann gengur í ána til hrygningar og hann étur ekkert í ánni fram að hrygningu. Þar sem hrognin eru ekki fullþroskuð þegar hann kemur, verður hann að breyta líkamsvefjum í hrogn. Hann er því orðinn nokkuð rýr þegar hrygningin fer fram.

Bleikja

Útbreiðsla

Bleikjan hefur mesta útbreiðslu laxfiskanna á Íslandi. Hún er hánorænn fiskur og kom fyrst allra fiska upp í árnar í lok síðustu ísaldar. Hún hefur því haft tækifæri til þess að komast lengst frá sjó þar sem landið lá þá dýpra í sæ en síðar varð. Urriðinn og laxinn komu síðar og komust því ekki eins langt inn í landið og bleikjan. Þó enn megi sjá þessa skiptingu, þá hafa fiskflutningar manna þurrkað út myndina að mestu. Það var t.d. enginn urriði í Skorradalsvatni þar til fyrir nokkrum árum að honum var hjálpað þangað. Þegar urriðinn, sem er varmakærari en bleikjan, nam ána fyrir neðan, hefur fossinn í Andakílsá verið kominn upp úr sjó og lokað honum leið. Bleikjan hefur verið komin áður. Bleikjan finnst allt í kring um hnöttinn norðanverðan og er sama að segja um þessi svæði að hún hefur numið land á flestum stöðum eftir síðustu ísöld. Hún hefur því ekki verið í sínum núverandi heimkynnum nema í u.þ.b.10000 ár. Syðri mörk útbreiðslusvæðisins í Evrópu eru Alpafjöll, en þar er hún í mörgum vötnum frá láglendi upp í hæstu fjallavötn. Á miðöldum var nokkuð um að bleikja í Ölpunum var borin milli vatna.

Lífshættir

Annað hvort elur bleikjan allan sinn aldur í fersku vatni, vatnableikja, eða hún gengur reglubundið til sjávar og nefnist þá sjóbleikja. Því norðar sem bleikjan lifir á hnettinum þeim mun algengara er að finna sjóbleikju og öfugt. Má þó segja að engin föst regla sé á þeim hlutum. Staðbundin bleikja er mjög ólík í útliti milli hinna ýmsu vatna og oft innan sama vatns. Þetta hefur orðið til þess að margir álíta að um margar tegundir eða stofna sé að ræða, en þrátt fyrir miklar rannsóknir hefur ekki tekist að finna nægjanlegan erfðafræðilegan grundvöll fyrir slíku. Þar sem vötn eru í sambandi við sjó er algengt að finna þrjár "gerðir" af bleikju: Sjóbleikju, venjulega staðbundna bleikju og dvergbleikju. Í vötnum sem eru nægilega djúp til að hafa eiginlegt svifsamfélag sérhæfir bleikjan sig oft sem svifæta og nefnist þá murta. Samband þriggja gerða af bleikju í einu og sama vatninu í Noregi hefur verið rannsakað með hliðsjón af því hvort þær tilheyri einum og sama hrygningarstofni þ. e. hvort hér sé um eina og sama stofninn að ræða (Nordeng 1961,1983). Þar kom ýmislegt óvænt í ljós. Sjálfur túlkaði norski prófessorinn Hans Nordeng (Nordeng 1984) niðurstöður tilrauna sinna á eftirfarandi hátt:

"Á vatnasvæði Salangenárinnar í Noregi hrygna venjuleg bleikja, dvergbleikja og sjóbleikja á mismunandi stöðum. Afkomendur foreldra af þessum gerðum þroskast í aðalatriðum á sama hátt: Kynjaskipting hjá seiðum undan öllum gerðunum er 1:1. Á æskuskeiðinu, sem stendur í 7 ár, verður nokkuð af fiskunum kynþroska við tveggja til sjö ára aldur. Þeir eru þá 10-28 sm að lengd. Fiskar sem eru 10-21 sm langir (2-6 ára) hafa bleikgráan riðabúning. Þetta er staðbundna dvergbleikjan. Fiskar sem eru 21-28 sm langir (3-7 ára) fá gulan eða rauðan riðabúning. það er venjulega (stóra) staðbundna bleikjan. Fyrstu fiskarnir sem verða kynþroska í hverjum árgangi eru hængar. Þess vegna verður hlutfall hænga sem verða kynþroska 2-6 ára gamlir hærra hjá dvergbleikjunni (4:1) en þeirri stóru staðbundnu (2:1), en hún verður ekki kynþroska fyrr en 3-7 ára gömul. Þau seiði sem ekki verða kynþroska á æskuskeiðinu, verða að gönguseiðum (sjóbleikja) sem ganga til sjávar (3-7 ára gömul og 17-27 sm löng). Þar sem hængar voru í meirihluta hjá staðbundnu bleikjunni hlýtur sjóbleikjan að hafa hrygnur í meirihluta (3:1)".

Hans Nordeng gerði einnig eldistilraunir sem styrktu þessa tilgátu. Hann tók hrogn úr öllum þrem bleikjutegundunum og ól upp hvern seiðahóp fyrir sig. Það sýndi sig að afkomendur hverrar gerðar um sig skiptust í þrjá útlitshópa á sama hátt og hann hafði fundið hjá bleikjunni í Salangen. Nordeng dró þá ályktun af þessu að allar gerðirnar tilheyrðu sama stofni og deildu sömu erfðaefnum.

Lífsferill vatnableikju

Hrygning hefst yfirleitt þegar líða tekur að hausti, frá seinniparti ágústmánaðar fram að jólum, sumstaðar hefst hún enn síðar og getur þá staðið fram í mars, mismunandi eftir vötnum. Fer það eftir svæðisbundnu hitafari, en fiskar stíla upp á að seiðin klekist á þeim tíma vors sem fæðudýrin eru að vakna. Eins er líklegt að hrygningartíminn breytist í takt við árferðið. Hrognin klekjast á þremur mánuðum við 3-4 gráðu hita. Það tekur seiðin um tvo mánuði að klára kviðpokann, svo fimm mánuðum eftir hrygningu verða seiðin að vera farin að finna sér fæðu sjálf. Seiði frá hrygningu í desember eru því að fara á kreik í maí. Seiðin eru 12-17 mm við klakið og 22-26 mm þegar kviðpokinn er búinn og þau fara að afla sér fæðu. Enn er lítið vitað um seiðin frá því að kviðpokastigi lýkur og þar til þeirra verður vart í smáriðin net, liðlega ári síðar. Þá eru þau orðin 10-12 sm að lengd. Ástæða þessa þekkingarskorts er að aðferðir skortir til þess að finna svo smáa fiska. Einungis er unnt að ná seiðum með rafmagni í fjörum, sú aðferð dugir hins vegar ekki á djúpu vatni. Aðalfæða seiðanna sem lifa í fjöruborðinu eru oft mýlirfur og smá krabbadýr. Eftir tvö ár er bleikjan orðin 20-22 sm að lengd og þriggja ára er hún 28-32 sm. Vöxturinn er breytilegur, sum árin vex bleikjan vel og sum illa, fer það eftir fæðuframboði og árferði.

Kynþroski og hrygning

Í bleikjuvötnum er mjög misjafnt hve stór eða gömul bleikjan er þegar hún hrygnir í fyrsta skipti. Gjámurturnar á þingvöllum eru t.d. kynþroska 8 sm langar og í Mývatni eru hrygnurnar stundum 50-60 sm þegar þær hrygna í fyrsta sinni. Sýnt hefur verið fram á að samband er á milli þeirrar hámarksstærðar sem bleikjan getur náð í ákveðnu vatni, og stærðar (lengdar) hennar við fyrstu hrygningu. Hámarksstærðin er um 20% meiri en kynþroskastærðin. Með kynþroskastærð er átt við stærð hrygnanna í fyrsta sinn sem þær hrygna, stærð hænga við hrygningu er yfirleitt óbrúkleg vegna s.k. dverghænga sem eru algengir hjá laxfiskum.

Þetta má túlka þannig að vaxtarskilyrði (fæðuskilyrði), fæða, fæðuöflun, samkeppni, ráði meiru um kynþroskastærðina en erfðaþættir. Sagt á annan hátt: Kynþroskastærðin er mælikvarði á fæðuskilyrðin hverju sinni. Þetta hefur komið glögglega fram í Mývatni í þeim mjög svo breytilegu fæðuskilyrðum sem þar hafa verið síðustu árin. Veturinn 82-83 var kynþroskastærðin á Geiteyjarströnd um 40 sm og hámarksstærð ufir 60 sm. Vaxtarskilyrði voru mjög góð í vatninu árin 1981 og 82. Veturinn 1985-86 var kynþroskastærðin 35 sm og hámarksstærðin innan við 50 sm (með undantekningu nokkurra fiska). Árin 1983 og 84 voru fæðuskilyrði afar léleg í vatninu.

Fæða-fæðuöflun-samkeppni

Vöxtur og viðgangur fiska fer eftir fæðuskilyrðum hverju sinni. Sé lítið um mat er vöxtur hægur, ef nóg er að hafa vaxa þeir vel. En ekki er nóg að magn fæðu sé fyrir hendi, hún verður að vera auðfengin og auðmelt. Bleikjan er dýraæta, þ.e. hún getur ekki nærst á fæðu úr jurtaríkinu. Þegar fæðuskilyrði eru góð og samkeppni lítil um matinn, nærist bleikjan á krabbadýrum og eru kornáta (Eurycercus lamellatus) og vatnsfló (Daphnia longispina) oft í mestu uppáhaldi. Þegar rykmýið flýgur upp étur hún það eingöngu, enda er mýið fæða sem er auðvelt að ná í og yfirleitt er um stóra munnbita að ræða. Þetta gildir á sumrin, en vetrarfæðan er mest mýlirfur þegar þær er að hafa, annars eru smá hornsíli oft algeng fæða að vetri til.

Hið almenna mynstur í góðum fæðuskilyrðum er oft þetta: Eftir að ísa leysir á vorin étur bleikjan nær eingöngu mýpúpur. Eftir að mýið er flogið fer að bera á smákrabba í fæðunni, fyrst vatnsfló, siðan kornátu er líða tekur á sumarið. Þessi dýr eru étin langt fram eftir hausti, með íblöndun mýpúpa þegar þær eru á ferðinni. Stundum er skötuormur (Lepidurus articus) aðalfæðan seinnipart sumars og á haustin, en mjög virðist misjafnt hve mikið er af honum frá ári til árs.

Þegar fæða minnkar og samkeppni eykst, breytist fæðunámið verulega.

Til þess að hægt sé að átta sig á því hvernig og hvers vegna fæðunámið breytist, er rétt að fjalla aðeins um hvernig bleikjan fer að því að éta og hvernig samkeppnisaðstaða og fæðuþörf einstakra fiska breytist með stærð.

Þegar bleikjan tekur til sín fæðuna opnar hún munninn mjög snöggt þannig að fæðudýr sem er fyrir framan fiskinn, sogast inn í munninn. Svo lokar hún munninum tiltölulega hægt og pressar vatnið út á milli tálknboganna. Á tálknbogunum eru tindar sem mynda eins konar greiðu, tálknsíuna, sem hindrar fæðudýrin að komast út með vatninu. Þegar vatnið er farið út, er fæðunni "kyngt". Bilið milli tindanna í tálknasíunni ákvarðar stærð fæðudýranna sem verða eftir. Ef dýrin eru smávaxnari en bilið fara þau út með vatninu. Það eru því takmörk á því hve smá dýr bleikjan getur étið. Bleikja hefur fínni tálknasíu en urriði og getur því étið smærri agnir. Þess vegna finnast svifdýr sjaldan í urriðum sem komnir eru af æskuskeiði. Smáar bleikjur hafa fínni síu en stórar og geta því nýtt sér smærri dýr.

Vert er að hafa í huga að fæðuskilyrði í vötnum geta rýrnað á tvo vegu: Annað hvort getur framleiðsla fæðudýra minnkað almennt, td. vegna verri umhverfisskilyrða, hita, kulda, áburðarleysis, gruggs eða þess háttar, eða vegna þess að fiski fjölgar miðað við fæðuframboðið. Síðarnefnda ástæðan virðist yfirleitt miklu algengari.

Ef skoðað er í maga fiska við slík skilyrði kemur í ljós að magainnihald einstaklinganna er oft æði misjafnt, gagnstætt því sem finnst í góðæri og áður var minnst á. Eins er fæðusamsetningin í maga hvers einstaklings oft mjög blönduð. Þetta ber vott um samkeppni, einstaklingarnir lifa á þeirri fæðu sem þeir eru hæfastir að ná í. Þar sem smáfiskar eru hæfari til þess að ná í smá dýr, getur svo farið í slæmum tilfellum að þeir aféti stærri fiska, a.m.k. er varðar sumar fæðutegundir. Það má t.d. hugsa sér að smáfiskur beiti sum krabbadýr svo skart, að ekki nema lítill hluti þeirra nái þeirri stærð að geta nýtst stórum fiski. Stórir fiskar verða því að snúa sér að stærri dýrum af tegundum sem ekki eru étnar undir eðlilegum kringumstæðum. Í Mývatni og fleiri vötnum, eru þettra vatnabobbi (Lymnaea ) og hornsíli.

Hornsíli eru torétin vegna gaddanna og bobbinn er tormeltur vegna kuðungsins, enda finnast þessi dýr sjaldan í bleikjumögum þar sem nóg er af annarri fæðu.

Murta

Þetta er nafn á sviflægri smábleikju í Þingvallavatni en er einnig notað um sviflæga bleikju í öðrum vötnum. Í vötnum þar sem bleikjan lifir á svifi, t.d. murtan í Þingvallavatni, Vesturhópsvatni, Skorradalsvatni og Svínavatni, má sjá hvernig samkeppnin fæðudýrin kemur fram í þeirri hámarksstærð sem fiskarnir ná.

Vitað er að ef fiskur er settur í fisklaust vatn breytist samsetning svifdýranna. Stærstu tegundirnar hverfa að mestu og það sem meira er, hámarksstærð einstaklinga sömu tegundar fer minnkandi við tilkomu fiskjar í vatnið. Þetta er vegna þess að stærstu dýrin eru valin til átu. Því meira sem er af fiski hlutfallslega, þeim mun smærra verður dýrasvifið. Að því kemur að að stærð fæðudýranna og sú næring sem þeir gefa fiskinum, kemst í jafnvægi við þá orku sem kostar að afla þeirra. Fæðan er aðeins næg til viðhalds en um vöxt er ekki að ræða. Smáfiskurinn stendur betur að vígi þar sem fæðuþörf hans er minni, og hann er fær um að nýta sér smærri dýr. Hann vex því vel meðan hann er smár en snögglega dregur úr vextinum þegar hann nálgast hámarksstærðina. Þegar stofn sviflægrar bleikju er skoðaður, virðast allir fiskarnir vera steyptir í sama mót. Allir eru álíka stórir þtt þeir séu misgamlir. Hámarksstærðin sem þeir geta náð ákvarðast af sambandinu milli nýliðunar og dánartölu annars vegar og heildarframboði af svifdýrum hins vegar. Þetta hlutfall er breytilegt í hinum ýmsu vötnum og það getur einnig breyst með tíma í einu og sama vatni. Þess vegna verður hámarksstærðin mismunandi milli vatna.

Sem dæmi má nefna að hámarksstærð Þingvallamurtu hefur verið 19.5-25.5 sm eftir tímabilum, 12-14 sm á murtu í Skorradalsvatni, 23-25 sm í Svínavatni og 27-29 sm í Vesturhópsvatni.

Sjóbleikja

Sjóbleikja gengur til sjávar á vorin, oft strax eftir að ísa leysir. Hún er í sjónum 6-8 vikur, þá gengur hún aftur í ána. Stærri og eldri fiskarnir koma til að hrygna og hafa vetursetu, ókynþroska fiskar eingöngu til að hafa vetursetu. Stærstu og elstu fiskarnir ganga fyrstir upp í ána, ungur og geldur fiskur kemur seinna. Bleikjan er 12-20 sm að lengd þegar hún gengur til sjávar í fyrsta skipti og er þá 2-6 ára gömul. Í sjónum fer hún ekki langt, heldur sig mest innfjarða í nánd við ána sína. Hún lifir á marfló og smásílum og stækkar hratt í sjónum. Bleikjan er ekki í sjó á veturna og hún hrygnir í ánni sem hún ólst sjálf upp í. Oft safnast margir bleikjustofnar saman á einum stað sem hentugur er til vetrardvalar. Þannig má finna á veturna í Norðurá í Borgarfirði bleikjur, sem áður hafa hryngt í þverám Hvítár uppi við Gilsbakka á Hvítársíðu

Urriði

Lífshættir

Eins og áður sagði nam urriðinn land á eftir bleikjunni og finnst því ekki í eins mikilli hæð og hún, þó svo fiskflutningar manna hafi mjög svo ruglað þá mynd. Urriðinn er varmakærari en bleikjan og gerir meiri kröfur til umhverfisins. Hann hefur litla möguleika á að keppa við bleikju í hrjóstrugum ám og finnst því ekki þar. En við góð skilyrði hefur hann betur í samkeppninni, en þá fer einnig að gæta samkeppni frá laxinum. Urriðinn finnst því helst í ám sem eru "í meðallagi" ef svo mætti að orði komast. Eins má búast við honum ofan fiskgengra fossa í laxám. Urriðinn er fyrst og fremst straumfiskur. Hrognin þurfa mikið súrefni og hann hrygnir nær undantekningarlaust í rennandi vatni. Eftir klak leita seiðin úr ám og lækjum í vötnin nema þar sem árnar renna beint í sjó, þá ganga þau til sjávar og við tölum um sjóbirting. Mismunandi er hve lengi seiðin dvelja í ánum eftir hrygninguna, áður en þau leita í vötnin. Virðist það fara eftir næringarástandi ánna. Ef skilyrði eru léleg yfirgefa þau þær snemma, en ef góð vaxtarskilyrði eru í ánum geta jafnvel liðið nokkur ár uns seiðin fara að ganga úr þeim í viðkomandi vatn. Svo virðist að fæðuskilyrðin stjórni þessu: Þegar ekki er lengur matur og pláss handa uppvaxandi fiski, verður að róa á önnur mið. Ár og lækir sem renna úr vötnunum eru næringarríkari og vatnsmeiri en þær sem renna í vötnin. Þess vegna eru bestu uppeldisstöðvar urriðans yfirleitt í afrennsli stöðuvatnanna.

Samkeppni, fæða

Oft er talað um að urriðinn sé ránfiskur hinn mesti og á það sér væntanlega skýringar í því að oft finnast fiskseiði í maga hanns. Ef betur er að gáð eru seiðin yfirleitt hornsíli, en stundum má einnig finna bleikju í maga hans, einkum í vötnum þar sem er murta eins og t.d. í Þingvallavatni. Einkum eru það stærri fiskarnir sem leggja sér bleikjuna til munns. Annars eru botndýr aðalfæða urriðans. Þar má nefna vorflugulirfur, mýlirfur og púpur, vatnabobba og skötuorm. Mjög sjaldgæft er að hann éti sín eigin afkvæmi, jafnvel í ofsetnum hreinum urriðavötnum, þar sem allur fiskstofninn er á hungurmörkum, stenst hann freistinguna.

Ef litið er á vötn af svipaðri gerð þar sem annars vegar er eingöngu urriði, og hins vegar eingöngu bleikja og fæðuval fiskanna er skoðað, kemur í ljós að fæðunám þessarra tegunda er mjög svipað. Bæði urriði og bleikja éta nánast sömu fæðudýr ef þau eru eina fisktegund vatnsins. Séu tegundirnar saman í vatninu kemur allt annað í ljós. Urriðinn heldur sig aðallega í fjörubeltinu , á grunnu vatni, og lifir þar á vorflugulirfum og botndýrum en bleikjan er fjær ströndinni og dýpra og nærist aðallega á krabbadýrum. Hér ríkir samkeppni milli tegundanna, og hvor tegundin um sig étur það sem hún er færari að ná í. Ef hornsíli er einnig í vatninu, flóknar málið enn og margt sem sjá má í fjöltegunda vötnum, má skýra með mismunandi kröfum sem tegundirnar gera til umhverfisins og hvernig umhverfið gerir þeim mishátt undir höfði. Velgengni urriðans í slíkri samkeppni fer t.d. eftir því hve hann hefur góðar hrygningarstöðvar. Hann þarf rennandi vatn til hrygningar og sé bleikja sett út í urriðavatn sem hefur lítil tengsl við ár og læki, getur urriðinn horfið vegna samkeppninnar sem bleikjan veitir honum. Ef hrygningarstöðvar eru góðar heldur hann velli, en breytir oft mjög um lífshætti. Vaxtarhraði, svæðaskipting og fæðunám laga sig að hinum nýju aðstæðum.

Urriðinn étur fisk þegar hann er kominn í þrot með annan mat. Þess vegna er hægt að nota hann til þess að hafa áhrif á aðra fiskstofna. Þar sem mikið er um urriða, vegna þess að hrygningarstöðvar eru mjög góðar, eins og t.d. í Apavatni, verður ekki vart við ofmergð hornsíla eins og þekkt er í Mývatni. Hann virðist sjá um að halda fjölgun hornsíla innan vissra marka.

Oft eru fiskar sem lifa á öðrum fiskum, eins og urriðinn t.d, viðkvæmir fyrir veiði. Þeir hafa mikla yfirferð, eru stórir og veiðast því vel. Mikil sókn með stórriðnum netum hefur það í för með sér að fiskætum fækkar og í verstu tilfellum taka smáfiskarnir yfirhöndina. Ef dæminu er snúið við, má fækka smáfiski með því að bæta lífslíkur fiskætanna.

Þannig mætti setja út stálpaðan urriða, sem gjarnan væri búinn að læra að éta hornsíli. Jafnframt þyrfti að smækka netamöskva til þess að hlífa stóru fiskunum svo þeir geti haldið áfram að beita hornsílastofninn. Þegar Sogið, sem fellur úr Þingvallavatni, var virkjað eyðilögðust helstu hrygningarstöðvar urriða við vatnið og urriða fækkaði. Tilgátur eru um að við það hafi murtu fjölgað í vatninu og hún um leið smækkað. Eins hefur orðið vart við sveiflur í stærð og mergð murtunnar. Murtuveiðar voru nær engar tímabilið 1986- 91, hún var þá svo smá að hún fór í gegn um netin. Hún hefur svo stækkað aftur síðustu árin.

Sjóbirtingur

Þegar urriðinn gengur til sjávar nefnist hann sjóbirtingur. Lífsferillinn er sviðaður og hjá sjóbleikju, helsti munurinn er að hann dvelur lengur í sjónum, gengur seinna upp í árnar á haustin, yfirleitt ekki fyrr en nótt tekur að dimma. Hann er ekki í sjó á veturna en veiðist of vel á vorin þegar hann er að ganga til sjávar, þá alsilfraður.

Hornsíli

Hornsílið er smár fiskur og verður yfirleitt ekki stærra en 5-7 sm . Stundum finnast mun stærrri síli, m.a. í Mývatni, eða allt að 10-12 sm að lengd. Hornsílið hefur enga beina efnahagslega þýðingu og er ekki veitt til nytja. Lítið er enn vitað um vöxt hornsíla í íslenskum vötnum, eða hversu gömul þau geta orðið. Það er ekki fyrr er á síðustu árum að hornsíli hafa verið rannsökuð hérlendis og þá einkum í Mývatni, í tengslum við kísilgúrvinnslu í vatninu. Á árunum 1988-9 virtust vera 4-5 stærðarhópar af sílum í vatninu. Þau stærstu eru um 10 sm að lengd, líklega fjögurra ára.

Hrygning og klak.

Hornsílin hugsa vel um afkvæmi sín, því þau gæta hrognanna meðan þau eru að klekjast og seiðanna fyrstu dagana eftir klakið. Þetta er ólíkt laxfiskunum sem grafa hrognin sín í mölina þegar best lætur og síðan ekki söguna meir. Hængurinn tekur að sér þetta hlutverk. Þegar líða fer að hrygningartíma fer hængurinn að búa til hreiður. Það gerir hann úr slýþráðum sem sem hann finnur sér, hann safnar þeim saman og vefur úr þeim kúlu sem er hol að innan. Op er á hliðinni og hann límir slýið saman með slími sem hann fær af sjálfum sér. Til þess að hreiðrið haldist stöðugra, ber hann í það sand. Hængurinn verður rauður á kviðinn um riðatímann. Þegar hreiðrið er fullgert reynir hann að lokka til sín hrygnur og fá þær til þess að hrygna í hreiðrið. Á hann oft í mikilli samkeppni við aðra hængi um hrygnurnar svo oft verður af mikill slagur. Nái hann í hrygnu þá gýtur hún eggjum sínum í hreiðrið og hængurinn frjógvar þau strax á eftir.

Hrogn hornsílanna eru stór miðað við sjálfan fiskinn og þar af leiðandi fá, tugir eða fá hundruð, eftir stærð hrygnunnar. Þetta er eðlilegt hjá fiskum sem hugsa svo vel um afkvæmi sín sem hornsílið gerir. Hver hrygna hrygnir mörgum sinnum yfir hrygningartímann. Hún gýtur eggjum sínum með fárra daga millibili og er alltaf að framleiða ný, þannig að frjósemin er miklu meiri en fjöldi hrogna sem finnast í hrygnunni á hverjum tíma gefur tilefni til að ætla. Hrognin klekjast á 2-3 vikum og allan tímann gætir hængurinn þeirra. Meðan seiðin eru ósjálfbjarga sér hann um að þau haldi sig í hreiðrinu og passar upp á að þau séu ekki étin af öðrum sílum sem eru sólgin í þau. Algengt er að hann fái fleiri en eina hrygnu til að gjóta í hreiðrið svo hann er meir og minna upptekinn við seiðauppeldi allan hrygningartímann. Hrygning hefst snemma sumars og stendur langan tíma og fer það sennilega eftur fæðuskilyrðum hve hrygningin stendur lengi fram á haustið.

Fæða

Hornsílin éta allt sem að kjafti kemur og því er gjarnan sagt um þau að þau séu gráðug. Nær væri að kalla þau alætur sem ekki gera sér rellu út af því hvaðan gott kemur.

Þetta hefur valdið því að þau hafa verið álitin skaðræðisdýr í vötnum þar sem þau éti gráðugt seiði og egg nytjafiska. Svona ályktanir voru algengar (og eru) meðan menn héldu að allt sem stæði fiskveiðum fyrir þrifum væri að mikið af fiski færist á fyrsta æviskeiði (friðunarstefnan). Ef hægt væri að koma í veg fyrir það myndi hagur veiðimanna vænkast, sbr. laxa- og silungaklak á fyrri hluta þessarar aldar. En það er ekki nóg að hafa urmul lítilla fiska, það verður líka að vera eitthvað handa þeim að éta (aflastefnan, veiðistefnan). Það er fremur að hornsílin séu í samkeppni við bleikju og urriða um fæðu og afétið þessa stofna. Hornsílaplágur eru þekktar t.d. úr Mývatni þar sem hornsílin valda því að bleikjustofninn hrynur vegna fæðuskorts og svo falla þau sjálf í valinn, einnig vegna fæðuskorts. Þegar svo fiski hefur fækkað ná fæðudýrin sér aftur á strik, það verður blómlegt fyrir fiska, þeim fjölgar og sagan endurtekur sig.

Rannsóknir á fæðunámi hornsíla á íslandi hafa verið slitróttar, en staðfesta í aðalatriðum það sem sagt er hér á undan, að þau séu lítt sérhæfð og éti nánast það sem býðst hverju sinni.

Samkeppni

Ber að hafa í huga að þó mikið sé af ákveðnum fæðutegundum í hornsílamögum þá þarf það ekki jafnframt að þýða að sama fæðutegund sé aðgengileg fyrir bleikju á sama tíma. Vegna smæðar sinnar geta hornsílin nýtt fæðuna fyrr (meðan fæðudýrið er smávaxið) en bleikjan. Hún hefur grófa tálknagreiðu miðað við hornsílin og missir meira af smæstu dýrunum í gegn.

Hornsílið getur því hugsanlega afétið bleikju með því að "klára" ákveðin fæðudýr áður en þau verða nægjanlega stór fyrir bleikjuna. Þegar bleikju eða urriðaveiðar eru stundaðar af krafti verður það oft til þess að hornsílum fjölgar. Veiðarnar minnka samkeppni og eru hornsílinu í hag þar sem óvinum þeirra fækkar. Í bleikjuvötnum sem eru laus við hornsíli er allt að því tífalt meira af bleikju en í sambærilegum vötnum þar sem hornsíli er til staðar ásamt bleikjunni.

Áll

Hrygningarstöðvar álsins eru í Saragasso hafinu. Lirfurnar berast hingað með Golfstraumnum og tekur ferðalagið um þrjú ár. Lirfan er flatvaxin og kallast gleráll. Um það bil sem hún kemur upp að ströndinni verður myndbreyting á lirfunum og þær breytast í seiði sem líkjast fullorðnum ál, minna þá helst á litla ánamaðka, 5-10 sm langa. Seiðin taka sér búsetu í ám, vötnum eða sjávarlónum og alast þar upp til kynþroskaaldurs. Tekur það mislangan tíma eftir skilyrðum, líklega 5-10 ár. Fullorðni állinn gengur til sjávar að næturlagi á haustin. Hann á langa ferð fyrir höndum og er vel feitur. Állinn er oft veiddur á leið sinni til sjávar. Þar sem álar af stórum svæðum fara um þröng sund er mikið veitt af ál. Má þar nefna dönsku sundin. Hrygnurnar eru stærri en hængarnir og þar með verðmætari neysluvara.

Hér á landi var reynt að veiða ál til útflutnings. Sambandið, eitt stærsta fyrirtæki landsins í eina tíð, setti af stað veiðiverkefni á árunum 1960-70 að mig minnir. Veiðar gengu vel en illa gekk að halda utan um útflutning og sölu. Síðar hafa ýmsir lagt stund á álaveiðar en illa hefur gengið að selja, m.a. vegna þess að íslendingar þekkja ekki ál sem mat og meðhöndlun, reyking t.d. er vandasöm og kunnátta ekki fyrir hendi.

Eftir að jólahlaðborð urðu vinsæl í lok síðustu aldar fluttu menn inn ál til þess að hafa á borðum.


Aftur á forsíðu