Uppbygging fiskstofna með friðun hefur ekki reynst vel

2. mars 2001.

Enn greinir menn á um líffræðilega þáttinn við stjórn fiskveiða þar sem leitast er við að beita veiðistjórnun til að stækka stofninn svo afli megi aukast. Þeir sem það vilja virðast hafa gefið sér að stór stofn sé forsenda aukins afla. Þeir virðast ekki hafa heyrt um vöxt, vaxtarhraða eða framleiðslu á lífeiningu. Þó skiptir þetta öllu máli í almennum búskap og fiskeldi. Grísum og kjúklingum er slátrað meðan þeir eru í fullum vexti og lítið þýðir að vera með mikið af fiski í eldiskví eftir að draga fer úr vexti. Öll orka úr fóðrinu fer í viðhald og ekkert verður til að selja. Seint sætta menn sig við þannig búskap.

Illa hefur gengið að byggja upp þorskstofninn og ásamt framúrkeyrslu stjórnvalda, hefur lélegri nýliðun í 12 ár samfellt verið kennt um hve brösulega það hafi gengið.

Nú hefur orðið breyting á viðkomunni, að sögn Hafró. Vel heppnað klak, sem kom upp góðum seiðaárgöngum þrjú ár í röð er nú að skila mikilli nýliðun inn í stofninn. Þetta hefur leitt til tíðra skyndilokana frá því í haust, og er það 97- árgangurinn sem er að sýna sig. Keyrt hefur úr hófi fram nú í byrjun árs, en skyndilokanir voru orðnar 50 fyrstu tvo mánuðina er voru 152 allt árið í fyrra. Það er alveg klárt að nú skal reyna teoríuna til fulls og byggja upp stofninn með friðun. All er eins og best verður á kosið, yfirfullt af smáfiski, gnótt er af loðnu, umhverfisþættir eru hagstæðir því sjór er hlýr.

Haft var eftir sjávarútvegsráðherra að "aukin smáfiskagengd væri flókið en um leið jákvætt vandamál að eiga við" og einnig sagði hann "sterka þorskárganga á undanförnum árum gefa vonir um góða veiði á komandi árum en um leið verði að tryggja að árgangarnir skili sterkum hrygningarstofni" (Morgunblaðið 10. janúar 2001).

Ég vildi svo sannarlega að honum yrði að ósk sinni, því þorskafli er nú í nær sögulegu lágmarki, en ég hef verulegar áhyggur af því að svo verði ekki.

Lítum aðeins yfir söguna og árangur fiskveiðistjórnunar til hámörkunar á þorskafla.

Þegar við fengum yfirráð yfir landhelginni höfðum og rekið útlendinga af miðunum var hægt að hefjast handa við að hámarka afrakstur fiskimiðanna.

Sú stefna sem Hafrannsóknastofnun markaði var að byggja skyldi upp þorskstofninn, stækka hann, svo hann gæfi af sér meiri afla og öruggari nýliðun. Til þess að ná þessu fram skyldi draga úr sókn aðallega á smáfiski.

Möskvi var stækkaður úr 120mm í 155mm og beitt var skyndilokunum til þess að friða smáfisk svo hann næði að vaxa og stækka stofninn. Afli Íslendinga óx til að byrja með, fór úr rúmum 300 þús. tonnum 1976 í 450 þús tonn 1981, en svo fór að halla undan fæti. Aflinn fór í 300 þús. tonn, menn fylltust skelfingu og kvótakerfið var sett á. Ein ástæða minni afla var að dregið hafði úr vaxti þorsksins. Eftir á að hyggja var það eðlilegt, menn höfðu jú friðað fisk til að láta stofninn stækka og það fjölgaði því í honum fyrst um sinn. En þar sem fæðuframboð hafði ekki aukist var fjölguninni mætt með minnkandi vexti. Náttúran lét ekki plata sig. Þegar þarna var komið hefðu menn átt að láta sér segjast og endurskoða aðferðina. Enda sætti það mikilli gagnrýni á sínum tíma þegar menn vildu bregðast við minnkandi afla og hægari vexti með enn frekaki niðurskurði!

Síðan þetta gerðist eru liðin 18 ár. Alltaf hefur verið fast við sömu hugmyndafræðina, að byggja upp með friðun, bíða með að veiða svo fiskur næði að stækka. Árangurinn sést hér á línuritinu sem sýnir þorskaflann og hlut útlendinga í honum frá 1970. Ekki virðist ætlunarverkið hafa tekist sem skyldi.

Þorskafli á Íslandsmiðum 1970-1999

Árið 1998 þegar aflinn fór að skríða upp frá 200. þús. tonnum, 2/3 af því sem hann var þegar nauðsynlegt þótti að setja kvótakerfið á, voru menn þó ánægðir. Sögðu að nú hefði uppbyggingin tekist, stofninn væri að stækka! Vart var búið að sleppa orðinu, þá mældist stofninn aftur minnkandi og dregið var úr veiðum. Nú hét það að stofnmatið hefði breyst því veiðanleikinn hefði verið rangt metinn Ekki var nú lengur hægt að skamma sjómenn og ráðherra fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælunum frá Hafró. Og ekki eru menn neitt að gefa sig enn eftir þessa bitru reynslu eins og fram kom hér að ofan.

Það er svo að eigi óskin um uppbyggingu stofnsins með friðun að rætast verður fæðuframboð að vera nægjanlegt. Mælikvarðinn á það er holdafar, vaxtarhraði og kynþroskastærð fiskanna. Ekki er nóg að menn segist sjá næga fæðu eða átu um allan sjó. Fiskurinn verður að geta nýtt sér þessa fæðu til vaxtar og viðgangs í samkeppni við aðra fiska. Þar eru þrif hans besti mælikvarðinn. En meðalvöxtur þorsks er sem stendur undir meðallagi ef eitthvað er og fregnir berast af horuðum fiski svæðisbundið og jafnvel smáum kynþroska fiski en það er órækt merki um svelti. Það er því ekki að sjá að tilefni sé til þess nú að raða meiru á garðann.

Engar tilraunir hafa verið gerðar til þess að gá að því hvort ekki væri heppilegt að veiða fiskinn smærri, eins og gert var allt til 1975 með ágætum árangri. Þorskur er staðbundinn á flóum og fjörðum og ætti að vera hættulaust að gera slíka veiðitilraun.

Nýlega hefur bæst við ný vitneskja en rannsókn á þorskstofnum innfjarða hefur sýnt að vöxtur takmarkist af fæðuskorti. Í rannsóknarskýrslu Björns Björnssonar fiskifræðings á Hafró, "Takmarkast vöxtur íslenska þorskstofnsins af fæðu?", sem birtist nýlega í Riti fiskideildar segir m.a.:

"Það virðist því vera að fæðuskortur þjái Íslenska þorskstofninn í heild sinni, niðurstaða sem gæti haft áhrif á fiskveiðistjórnun og rannsóknir á því hvernig auka megi afrakstursgetu stofnsins."

Ályktunarkaflinn í lok greinarinnar er stuttur og laggóður, en hann er svona:

"Niðurstöður benda til að vaxtarhraði hjá villtum þorski takmarkist að öllu jöfnu af fæðuframboði. Þessi niðurstaða gæti haft nokkur áhrif á fiskveiðistjórnun og aðgerðir til aukinnar afrakstursgetu. Þannig sýnist ekki vænlegt til árangurs að setja út mikið magn af ungviði (seiðasleppingar), en athuga mætti þann möguleika að fóðra fiskinn með ódýrum bræðslufiski (loðnu) til þess að auka vöxtinn."

Menn geta svo botnað hvað þetta þýðir á mæltu máli!

Það er komið að úrslitastund. Ef þorskafli minnkar enn í kjölfar þessarar síðustu tilraunar verða menn að fara í uppgjör og taka til heima hjá sér.


Aftur á forsíðu