Er vitlaust gefið?

(Sjómannablaðið Víkingur no. 8, september 1991)

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

Steinn Steinar

Svört skýrsla

Svört skýrsla Hafró hefur enn einu sinni kynt undir umræðuna um fiskveiðistjórnun. Svo virðist sem það hafi komið mönnum að óvörum að enn skyldi lagt til að dregið yrði úr þorskafla. Þetta finnst mér einkennilegt því Hafró hefur alltaf sagt að það séu stöðugt að bætast í stofninn "lélegir árgangar". Það sem er öllu alvarlegra er sú staðreynd að með núverandi nýtingarstefnu mun verða dregið úr leyfilegum afla á hverju ári allt þar til tilviljuninni þóknast að fæða af sér "sterkan" árgang og skila honum inn í veiðina. Ef það verður 1991 árgangurinn, fer hann fyrst að skila einhverjum afla 1995, fjögurra ára gamall. Með sama niðurskurði og verið hefur síðastliðin þrjú ár, um 10% á ári, verður aflinn 1995 kominn niður í 180 þúsund tonn. Fari svo að 91 árgangurinn verði stór, og það er fyrsti batinn sem við getum vænst skv. Hafró, er viðbúið að hann verði friðaður til þess að nota megi hann í uppbyggingu stofnsins. Svo gæti það eins gerst að 91 árgangurinn og þeir sem á eftir koma verði einnig lélegir. Hvað á þá að gera?

Árið 2001: Hér er ekki úr vegi að skella upp mynd sem sýnir hvernig þróunin varð í þorskveiðunum. Þorskveiðin 1995 varð 169 þúsund tonn.

Mynd

Smáfiskur skyldi fá að vaxa

Umræða um fiskveiðistjórnunina gengur úr á tvennt: Hvernig eigi að vernda og byggja upp fiskstofna og hvernig eigi að skipta aflanum. Lítum aðeins á "verndun" fiskstofna en látum skiptingu kökunnar liggja á milli hluta að sinni.

Þegar við fengum full yfirráð yfir landhelginni og þurftum ekki lengur að keppa við útlendinga um aflann var stefnan sett. Ofveiðinni og smáfiskadrápinu, sem Bretum var aðallega kennt um, skyldi hætt. Smáfiskur skyldi fá að vaxa upp og sókninni stillt í hóf svo stofnarnir næðu að stækka. Þá yrði síðar unnt að veiða meira af stórum fiski með minni tilkostnaði, því afli á sóknareiningu myndi aukast þegar stofninn stækkaði. Möskvi var stækkaður og farið var að beita skyndilokunum þar sem mikið var um smáfisk. Þá urðu togarar að hverfa að mestu af hrygningarstöðvum þorsksins.

Snögg minnkun varð í afla á smáþorski og fiskifræðingar voru ánægðir með árangurinn.

í grein í Ægi 1980 segir Sigfús Schopka fiskifræðingur á Hafransóknastofnun eftirfarandi:

" .."fjöldi þeirra fiska sem eru 3 og 4 ára að aldri í veiðinni hefur minnkað verulega síðastliðin ár eða eftir að áðurgreindar friðunaraðgerðir komu til framkvæmda. Þessi minnkun á 3 og 4 ára fiski í lönduðum afla gæti þýtt annað hvort það, að klak hafi misfarist eða hér sé um áhrif friðunar að ræða. Niðurstöður seiðarannsókna og ungfiskarannsókna benda aftur á móti til þess að klak hafi ekki brugðist að undanförnu flestir árgangar eru að minnsta kosti meðalárgangar, sumir stórir eins og 1976 árgangurinn - þrátt fyrir lægð í hrygningarstofni. Það verður því að gera ráð fyrir, að minnkandi hlutdeild smáfisks í afla megi rekja til friðunaraðgerða."

Ástæðulaus ótti

Menn höfðu áhyggjur af allt öðru á þeim tíma því Sigfús heldur áfram:

"Eftir því sem þorskstofninn stækkar í framtíðinni og afli á sóknareiningu vex, útheimtir það frekari aukningu skrapdaga. ...Fjöldi skrapdaga þýðir meiri sókn í hinar botnfisktegundirnar, sem þegar eru ýmist fullnýttar eða ofveiddar. Hafrannsóknastofnunin mælti með 15 þús. lesta hámarksafla á grálúðu í ár. Grálúðuaflinn stefnir aftur á móti í nær tvöfaldan hámarksafla eða 28 þús. lestir."

Nú er lagt til að grálúðuafli 1991/1992 fari ekki yfir 35 þús. tonn, eftir "ofveiði" liðinna ára sem varð allt að 60 þús, tonnum.

Ótti Sigfúsar reyndist ástæðulaus því hlutirnir breyttust allsnarlega. Dregið hafði úr vexti þorsks árlega frá því að möskvi var stækkaður og vaxtarhraðinn náði lágmarki 1983, þegar ekki náðist að veiða leyfilegan afla. Þetta varð til þess að kvótakerfinu var komið á, timabundið að því er sagt var þá.

Hvað hafði gerst? Jú, þorskstofninn hafði snarminnkað vegna fæðuskorts. Stefnan sem átti að skila svo miklu hafði brugðist. Það var ekki fæðugrundvöllur fyrir aukinni friðun og stækkun stofnsins. Minnkun vaxtarhraða sýndi það svo ekki varð um villst.

Sömu kallar, með sömu veiðarfæri, á sömu skipum, á sömu bleyðum.

Á þessum tímamótum hefði verið rétt að endurskoða friðunarstefnuna í Ijósi reynslunnar. En það var ekki gert. Áfram var haldið tilraunum til þess að byggja upp stofninn. Mjög sterkir árgangar komu fram árin 1983 og 1984. Þeir fóru að veiðast sem þriggja ára fiskar 1986 og 1987 og veiddust að meðaltali tæpar 16 milljónir þriggja ára fiska hvort árið um sig sem er nær fjórföldun miðað við ársmeðaltal þriggja ára fiska tímabilið 1977-83. Miðað við það sem kom á land af þessum árgöngum þegar þeir voru þriggja ára hefði mátt áætla að stærð hvors árgangs um sig væri a.m.k. þrisvar sinnum meiri er árganganna 1974-80 (Inni í meðaltalinu er hinn frægi 76-árgangur sem "týndist", sællar minningar).

En þetta var ekki túlkað þannig þá. Sagt var að svo mikið hefði aflast af smáfiski vegna þess að menn hefðu sótt svona mikið í hann. Erfitt er þó að fá þá skýringu til að ganga upp. Sömu kallarnir með sömu veiðarfærin á sðmu skipunum á sömu bleyðunum koma allt í einu með um fjórfalt magn smáfiskjar að landi. Ástæðan getur varla hafa verið önnur en að það hafi verið svona miklu meira af þessum fiski á miðunum. Þessir árgangar "entust" ekki sem skyldi og var miklu smáfiskadrápi kennt um!! Ég sá þennan smáfisk um borð í togara vorið 1988. Hann var grindhoraður og leit út eins og skiptilykill. Ég er viss um að hann var þá farinn að drepast úr hungri í stórum stíl. En Hafrannsókn leyfir ekki hærri náttúrulega dánartölu en 18% á ári, allt þar fram yfir skrifast á veiðar. Horástand þessa fisks kom ekki fram því að á þeim tíma viktaði Hafró ekki þorskfiska. Fiskur var lengdarmældur og viktin "fundin" með því að fara í töflur um meðalsamband milli lengdar og þyngdar.

Að finna blóraböggla

Þrátt fyrir að möskvastækkun, aflatakmarkanir og skyndilokanir hafi engu skilað er nú enn ráðlagt að hjakka í sama farinu og jafnvel að hjakka enn fastar. Leggpoki, sem sleppir meiru af smáfiski í gegn, hefur verið tekinn í notkun og fundin hefur verið upp smáfiskaskilja sem vænst er til að geri kraftaverk.

Umræðan í þjóðfélaginu einkennist af því sem Hafró er búin að hamra inn í fólk í nærri tvo áratugi. Hún snýssnýst um það að finna blóraböggla. Hverjir hendi smáfiski og hve miklu. Það er eins og menn muni ekki að hér á árum áður voru drepin feikn af smáfiski og miklu hent. Ekki þarf annað en að lesa gömlu togarasögurnar til að komast að raun um það. Íslenskir togarar stunduðu vetrarlangt veiðar á smáþorski í gúanó á sjötta áratugnum; þótti ljótt en var samt gert. Ofveiði og rányrkja Breta var aðalvopn okkar í landhelgisbaráttunni og svo mætti lengi telja. Hér var stunduð rányrkja og smáfiskadráp áratugum saman og það gaf miklu meiri afla en friðunarstefna gerir í dag.

Varla nokkur maður veltir því fyrir sér hvernig ná megi hámarksafrakstri fiskstofnanna, sem er allt annar hlutur en að vernda þá og stækka. Aðalatriðið er hvað hægt er að veiða úr hverjum stofni en ekki hversu stór hann er. Spurningin er hvernig eigi að fara að þvi.

Það sem máli skiptir er vöxturinn og fjöldi fiskanna. Þessu má líkja við peninga á bók. Ef engir eru vextirnir, þá skiptir ekki máli hve höfuðstóllinn er stór, afraksturinn verður enginn. Neikvæðir vextir skapa meira tap því stærri sem höfuðstóllinn er. Sama máli gegnir um dýrastofna, þar með talinn fisk, en þeir á Hafró virðast halda að um fisk í sjó gildi alveg sérstök lögmál. Það er ekki hægt að stækka höfuðstól (stofn) umfram það sem fæðuframboðið leyfir.

Bóndi, sem ætlaði sér að auka framleiðslu á kjöti með því að slátra lömbunum tveggja ára gömlum í stað sumargamalla án þess að auka fóðurmagnið, kæmist fljótt að því fullkeyptu.

Áframhaldandi tilraunir á fjöregginu, byggðar á þeirri "fiskifræði" sem lýst hefur verið hér á undan, leiða ekkert annað af sér en eymd og volæði. Nefnd sú sem er að endurskoða fiskveiðistefnuna verður að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar. Hún verður að kryfja til mergjar hvers vegna áratuga óheft sókn og rányrkja skilaði meiri og stöðugri afla en friðunarstefnan gerir í dag. Það fæst aldrei botn í fiskveiðistefnuna nema rétt sé gefið, vistfræðin verður að vera í lagi.


Aftur á forsíðu