Mörg er búmannsraunin

Í tilefni af meintri ofveiði á Nýfundnalandsmiðum. (Skrifað í febrúar1994, birt í Víkingi).

Nýlega ákváðu stjórnvöld í Kanada að skera niður þann þorskkvóta sem áður var búið að úthluta á miðunum við Nýfundnaland og Labrador. Það var gert á grundvelli nýjustu stofnmælinga sem sýndu að stofninn hafði minnkað mikið. Kvótinn var lækkaður úr 185 þúsundum tonna í 120 þúsund tonn, niðurskurður um 65 þúsund tonn frá því sem var þó lítið fyrir. Sjómenn brugðust hart við og þetta þóttu tíðindi hér heima. Ekki hef ég orðið var við að sjómenn efuðust um réttmæti mælinga eða stanslausra tilraunir til þess að byggja upp þorskstofninn með því að takmarka afla. Nei, sökudólgarnir eru sagðir erlendir togarar, einkum spænskir, portúgalskir og þýskir, sem stunda veiðar utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögu Kanada. Þeir eru að veiðum syðst á Nýfundnalandsmiðum, á þeim hluta Miklabanka sem er utan 200 mílna markanna. Útlendingarnir sverja og sárt við leggja að þeir veiði ekki umfram heimildir en þeir eru reyndar að veiða á alþjóðlegu hafsvæði.

Sjómenn á Nýfundnalandi hafa beðið Helga Hallvarðsson skipstjóra að veita sér tækniþekkingu svo þeir geti klippt aftan úr sjóræningjunum og, - hann hefur ákveðið að verða við því. Stjórnvöld í Kanada hafa einnig beðið sjávarútvegsráðherra okkar að beita sér fyrir því á alþjóða vettvangi að stöðva rányrkjuna og, - hann ætlar að verða við því.

Allt er þetta hið einkennilegasta mál. Hvernig er unnt að kenna veiðum utan 200 mílna um meintar ófarir fiskstofna innan ógnarstórrar lögsögu? Þessu mætti líkja við að við Íslendingar færum að kenna veiðum Færeyinga á þeirra eigin miðum um ofveiði á íslenska þorskstofninum. Auk þess hafa merkingar og rannsóknir á þorski við austurströnd Kanada sýnt að hann er fremur staðbundinn og heildarstofninn er samsettur úr mörgum undirstofnum.

Árið 1973 var aflakvóti fyrst settur á Nýfundnalandsmiðum og aflamarkið var þá 666 þúsund tonn. Þessi afli náðist ekki, aflinn 1973 varð 355 þúsund tonn, og næstu árin á eftir varð aflinn miklu minni en kvótinn sem gefinn var út.

Myndin sýnir heildaraflann frá 1959 og hvernig hann skiptist milli veiðisvæða og veiðiaðferða. Í byrjun nítjándu aldarinnar veiddust þarna um 150 þúsund tonn á ári en þá var fólksfjöldinn í landinu ekki nema um 20 þúsund manns. Aflinn árin 1905 -34 var 270 þúsund tonn að meðaltali á ári, mestur 1918, 350 þúsund tonn, en þá hafði fólksfjöldinn liðlega tífaldast. Sjötta áratuginn var aflinn 200-300 þúsund tonn á ári, og árið 1959 var aflinn fór í 360 þúsund tonn 1959 og óx í 810 þúsund tonn 1968. Eftir það dró úr aflanum og var hann kominnn niður í 468 þúsund tonn 1972. Kvótinn var ekki veiddur 1973 og afli minnkaði stöðugt árin á eftir. Minnstur varð aflinn 1978, 139 þúsund tonn, en þá var komin 200 mílna landhelgi við Kanada.

Athyglisvert er að togaraafli Kanadamanna á djúpslóð var ekki nema 2000 tonn (tvö þúsund tonn!) 1976 þegar útlendingar eru að hverfa af miðunum eftir að hafa veitt allt að 700 þúsund tonnum nokkrum árum áður á sömu veiðislóð. Kanadamenn áttu engin veiðiskip til þess að sinna þessum veiðum þegar útlendingarnir hurfu á brott svo nýting þessarrar slóðar datt niður í nánast ekki neitt.

Ekki hefur mér tekist að afla upplýsinga um hvers vegna svo mjög dró úr afla upp úr 1970. Aflinn úr Labradorstofninum minnkaði lang mest og benda má á að þorskstofninn við Vestur Grænland beið mikið afhroð á þessu sama tímabili vegna snöggra breytinga á umhverfisskilyrðum til hins verra. Vegna ávinninga í landhelgismálum má ætla að dregið hafi úr veiðum útlendinga síðari hluta tímabilsins.

Árið 1983 var afli við á Nýfundnalandsmiðum 232 þúsund tonn og þær fréttir bárust til Íslands að Kanadamenn væru að byggja upp þorskstofninn og ætluðu sér að veiða 700 þúsund tonn árið 1987 og hér heima höfðu menn áhyggjur að þetta myndi hafa áhrif á fiskverð og samkeppnisaðstöðu okkar. Þetta gekk ekki eftir, aflinn breyttist lítið frá því sem hann var 1983 og nú er svo komið að markið er sett á 120 þúsund tonn. Litlar upplýsingar hafa sést um hvers vegna uppbygging stofnsins gekk ekki eftir aðrar en þær að það hafi kólnað og svo auðvitað, -ofveiði.

Fróðlegt er að kynna sér nokkur atriði í líffræði þorsks við Nýfundnaland og þau viðfangsefni sem sjómenn, útgerðarmenn of fiskifræðingar voru að glíma við á áttunda áratugnum. Hér má sjá vöxtinn en myndin sýnir þyngd 4-8 ára þorsks frá 1971-90. Það ber að athuga að þessi þyngd byggir ekki á viktun fiska heldur mælingu á lengd þeirra. Síðan er notað meðalsamband milli lengdar og þyngdar og það notað til þess að breyta lengdum í þyngd (!). innig ber að geta þess að tölurnar miðast við landaðan fisk en þar kemur skekkja vegna þess að veiðarfærin veiða best stærstu fiskana í hverjum aldursflokki. Árið 1989 er 4 ára þorskur að meðaltali 740 g og 8 ára fiskur 2.1 kg. Þetta er afar hægur vöxtur eins og sést m.a. af því að þorskur af íslandsmiðum er að meðaltali 1.8 kg 4 ára og 5.8 kg 8 ára. Afleiðing af þessum hæga vexti er sú að þótt möskvastærð í poka sé 135 mm, kemur þorskurinn ekki inn í veiðarnar að fullu fyrr en hann er orðinn 7 ára gamall. Það getur margt gerst í lífi fisks fram að þeim tíma.

Þegar vöxtur er svona hægur hafa allar breytingar á umhverfisþáttum og fæðuframboði mikil áhrif. Einn slíkur þáttur er sókn, en hún hefur óbein áhrif á fæðuframboðið með því að fækka í stofninum.

Hér má sjá nýliðun í stofninn frá 1959. Nýliðunin (fjöldi 3 ára fiska sem árlega bætast í stofninn) er mikil og jöfn fram til 1969 en þá fellur hún skyndilega í 255 milljónir fiska. Síðan koma tveir lélegir árgangar í röð og nýliðunin fer að taka reglulegum sveiflum. Einnig er athyglisvert að lélegust árgangarnir koma alltaf tveir saman. Ein skýring á svona reglulegum sveiflum er að nýliðunin sé háð þéttleika fiskanna, eldri fiskar hafa áhrif á afkomu þeirra yngri, beint eða óbeint. Varla er hægt að skýra minnkandi afla frá 1970 með lélegri nýliðun því fiskurinn fer ekki að veiðast að fullu fyrr en hann er orðinn 7 ára gamall.

Í byrjum áttunda áratugarins var eins og áður sagði farið að reyna að byggja upp stofninn með því að draga stórlega úr veiðum. Mætti ætla að þá hafi aflabrögð verið orðin léleg og erfitt og dýrt að ná í fiskinn. Svo var þó alls ekki, a.m.k. ekki hjá togurunum. Þvert á móti, afli skipa var svo mikill að vandræði sköpuðust af. Það vandamál sem menn þurftu að fara að glíma við upp úr 1980 og náði hámarki 83-84 var að togararnir fóru að fá svo stór höl að þeir réðu ekki við þau. Algengt var að fá 25 tonna höl og oft kom fyrir að trollin náðust ekki inn. Á þessum tíma var flotinn að taka í notkun kör og kassa og við það minnkaði plássið um borð. Einnig fór mikilll tími í aðgerð og frágang að fiskurinn vildi skemmast svo henda þurfti hluta aflans. Úrkast jókst á þessum árum, frá 0.5% 1970 í 11% af þyngd árið 1986.

Reynt var að bregðast við þessu með því að minnka togtímann. Árið 1980 var meðal togtími um 2 stundir en fór niður í eina og hálfa að meðaltali 1987. Þetta var þó ekki nóg því stundum þurfti ekki nema rétt að taka í blökk til þess að trollið fylltist. Einnig voru teknir í notkun aflanemar (Scanmar) svo hífa mætti áður en allt færi í voða.

-Ekki er allt búið enn: Möskvastærð var breytt, frá 128 mm 1980 í 135 mm eftir 1983, og leggmöskvi tekinn í notkun af hluta flotans svo meira slyppi út. Einnig var reynt að breyta veiðihæfni trollsins þannig að fiskurinn slyppi út eftir að visst magn væri komið í pokann. Svokallaðir "gluggar" (windows) voru settir á pokann eða belginn og var tilgangurinn að reyna að takmarka afla í hali við 12 tonn sem þótti viðráðanlegt. Notkun glugga hófst 1983 og náði hámarki 1988 en þá var notkunin 78% hjá þeim skipum sem upplýsingum var aflað um. Á trollið voru skornir 1-3 gluggar og var meðalstærð þeirra um hálfur fermetri. Árangurinn af notkun glugganna var ekki ótvíræður, stundum voru þeir ekki rétt staðsettir og eins gátu þeir stíflast. Eins saumuðu menn þá saman aftur ef lítið var að hafa um sinn.

Ekki er mér kunnugt um ástandið á miðunum eða hvaða veiðibrellur menn hafa þar nú, en er furða þó útlendingar séu að reyna að kroppa sér eitthvað í svanginn fyrir utan 200 mílurnar?

Athyglisvert er að árgangarnir frá 1986 og 87 eru þeir stærstu síðan 1968 en þeir eru enn ekki komnir í veiðanlega stærð. Er réttlætanlegt að takmarka aflann svona mikið þegar svo sterkir árgangar eru á leiðinni? Fréttir þess efnis að lítið sé um loðnu og búið sé að friða hana svo hún geti nýst þorskinum sem æti leiða óneitanlega hugann að Barentshafi og því sem gerðist þar. Selur er líka sagður vandamál. Selafár var líka sagt vandamál í Barentshafi þegar hrunið varð þar en enginn talar um það nú. Getur verið að fiskveiðistjórn sé að valda hruni í fiskistofnum við Nýfundnaland líkt og hún gerði í Barentshafi?

Heimildir:

Harold Thompson, 1943. A Biological and Economic Study of the Cod (Gadus Gallaris, L.)in the Newfoundland Area. Research Bulletin No.14. Department of Natural Resources St. John's.

D.W. Kulka 1989. Methods employed by the Canadian offshore fleet as a means to limit thesize of catches in the 2J3KL cod fishery. CAFSAC Reasearch Document 89/32. Department of Fisheries and Oceans, St.John's, Newfoundland.

J.W. Baird og fleiri, 1990. The assessment of the cod stock in NAFO Divisjons 2J, 3K, and 3L.CAFSAC Reasearch Document 90/18. Department of Fisheries and Oceans, St.John's, Newfoundland.

Til baka á forsíðu