Skorradalsvatn

Fyrstu síðari tíma fiskirannsóknir í Skorradalsvatni voru gerðar 1972. Eingöngu bleikja og hornsíli voru þá í vatninu, en urriði úr Þingvallavatni var settur í vatnið 1974 og sjóurriði úr Skaftafellssýslum 1976. Í vatninu var þessum tíma mikið af smárri murtu, varla stærri en 12 cm, sem nýttist engum. Bleikjan var í lélegu ástandi, mikið af horuðum og smáum fiski, einungis sá hluti stofnsins sem át murtu var stórvaxinn. Þess vegna var ákveðið að sleppa urriða í vatnið í þeirri von að hann myndi nýta sér murtuna til fæðu svipað og í Þingvallavatni, verða eftirsóttur sportfiskur og e.t.v. koma meira jafnvægi á bleikjustofninn.

Slepping urriða í Skorradalsvatn tókst vel, urriðinn náði fótfestu, étur murtu, verður mjög stórvaxinn og veiðist um allt vatn. Þess má geta að það voru hálfsystkini sem sett voru út, hrognin komu aðallega úr einni hrygnu sem tekin var í Öxará. Systkinin fóru einnig í Kleifarvatn þar sem síðar hafa veiðst stórir urriðar, en ekki er vitað um viðkomu hans þar því ekkert rennur í vatnið ofanjarðar, en sem kunnugt er hrygnir urriðinn aðallega í straumvatni, ám eða lækjum.

Árin 2008-2009 voru gerðar rannsóknir í Skorradalsvatni til að afla upplýsinga um fiskstofna. Ætlunin hafði verið að rannsaka setkjarna í vatninu en af því varð ekki svo ákveðið var að nota framlag OR í fiskirannsóknir.

Hér er rannsóknaskýrsla frá 2010, en þar kemur fram að kvikasilfursinnihald í urriða er með því mesta sem finnst í vörnum hérlendis. Við vatnið eru ekki virkjanir eða borholur, svo ekki er hægt að kenna þeim um að menga vatnið líkt og gert er í Þingvallavatni.

Í þessari rannsókn reyndist urriðinn innihalda svipað magn kvikasilfur og Þingvallaurriðinn og afsannðist þar með tilgátan að kvikasilfrið stafði eingöngu frá Nesjavallavirkjun. Leitað var að hrygningarstöðvum urriða, en hann hrygnir eingöngu í straumvatni. Fitjá var seiðaveidd og rannsökuð og er hún eina hrygningarstöðin því þó örfá seiði hafi fundist í Andakílsá þá hentar hún ekki til hrygningar og seiðauppeldis, bæði er mölin of fín og svo eru miklar sviftingar í rennsli.

Þá er hér umsögn frá 2009 um malartöku við Fitjaá, en þar virðist verktaki hafa farið langt fram úr því, sem sótt var um og landeigandi gaf leyfi til. Við það tækifæri tók ég stutta kvikmynd, sem sýnir aðstæður.

Árið 2013 varð nokkur hávaði á samfélagsmiðlum þess efnis að verið væri að eyðileggja hrygningarstöðvar urriða með malartöku. Ég fór á staðinn og komst að því að lýsing veiðimannsins, sem kom umræðunni af stað hafði verið yfirdrifin.

Vegagerðin var hrædd við að fara í malartöku á grundvelli umsagnar minnar, sem getið er að ofan, svo þeir fengu Veiðimálastofnun til að gera nýja úttekt, sem var seiðaúttekt á allri Fitjaá, og þar féll þessi dómur:

"Efnisskriðið veldur óstöðugleika og hefur áhrif á lífríki á því svæði og geta áhrif þess náð langt upp fyrir efnistökusvæðið, gjarnan upp að næsta þröskuldi fyrir efnisskrið í ánni

Áin er helsta hrygningar„ og uppeldissvæði urriðans í Skorradalsvatni og stofnstærð urriðaseiða hefur margfaldast í ánni á síðastliðnum 20 árum. Efnistaka upp úr farvegi árinnar er því líkleg til að valda skaða á mikilvægu hrygningar og uppeldissvæði urriðans. Því er lagt til að annarra leiða verði leitað vegna vegagerðar í Skorradal."

Vegagerðin guggnaði enda erfitt um vik þar sem í lögum er varða röskun í og við veiðivatn segir:

Í lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 segir í 33. gr. Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu. Lögin fela því í sér að ekki skuli raska landi 100 m frá ám og stöðuvötnum eða botni þeirra sjálfra. Ef einhver telur sig á hinn bóginn þurfa að raska landi við eða í veiðivötnunum sjálfum þá þurfi að fara í gegnum leyfisferli sem nánar er lýst í lögunum.

Þegar svo ríkisstofnun setur fram þá skoðun sem getið er hér að ofan, "Efnistaka upp úr farvegi árinnar er því líkleg til að valda skaða á mikilvægu hrygningar og uppeldissvæði urriðans, þá verður mönnum erfitt um vik. Þrátt fyrir að svæðið þar sem taka á mölina sé ónothæft til hrygningar má alltaf henga sig á að "áhrifin nái langt upp fyrir efnistökusvæðið" án þess að rökstyðja það í tilfelli Fitjaár má þó alltaf benda á "lífríki vatnsins að öðru leyti".

Það er nefnilega slý í botninum, hluti lífríkisins, sem skaðast við malartökuna.

--------

Þá ber þess að geta að malartekja var áætluð við svæði sem Veiðimálsstofnun kallar no. 2 og við svæði no. 3, en Veiðó telst til að svæði 3, sem er neðsta svæðið, hafi 20% af framleiðslugildi árinnar þó það sé lengsta svæðið eða um 60% af lengd fiskgenga hluta árinnar.

Þá ber að athuga að mölin er ekki tekin úr ánni heldur við ána og malarnám raskar því ekki hrygningarstöðvum að neinu leyti. Það er svo matsatriði hvað mönnum finnst um röskun af malartekju við ána.

Gert í janúar 2019

Til baka- Heim