Tilgangslaust að fjölga einstaklingum í sveltandi fiskstofni

-- segir Jón Kristjánsson fiskifræðingur

,,Vöxtur og nýliðun er þeir tveir þættir sem mestu máli skipta þegar meta á ástand fiskstofna. Vaxtarhraðinn er mælikvarðinn á það hvort fiskarnir hafi það gott eða ekki. Ef vaxtarhraði er lítill fær hver munnur minna en hann þarf. Þá er tvennt til ráða, í fyrsta lagi að auka fæðuna, sem er ekki hægt þegar um villta fiska er að ræða, eða að veiða meira til þess að fækka einstaklingum. Aukin veiði gefur þá þeim sem eftir lifa tækifæri til að vaxa meira," sagði Jón Kristjánsson fiskifræðingur í samtali við Fiskifréttir en Jón er einn ötulasti gagnrýnandi núverandi fiskveiðistjórnunar.

Jón sagði að fæðuframboðið í sjónum væri svo lítið að þorskurinn fengi vart meira að éta en það sem dygði honum til að viðhalda þyngd sinni. ,,Ef magn fæðunnar er tvöfaldað með því að taka annan hvern þorsk í burtu þá tvöfaldast ekki vöxturinn, eins og margir gætu ályktað, heldur allt að sexfaldast hann vegna þess að viðbótarfæðan fer öll í að auka vöxtinn. Þegar fiskur sveltur þá fer sú litla fæða, sem hann nær í, öll í það að viðhalda þyngdinni en skilar sér ekki í meiri framleiðslu. Þess vegna dugir ekki að friða fisk sem vex ekki því hann skilar engri framleiðslu eftir sem áður. Ef einstaklingum er fækkað með aukinni veiði leiðir það ekki til þess að stofninn minnkar heldur getur stofninn þvert á móti stækkað því þá fara áður ofbeittir fæðustofnar að framleiða meira og þeir fiskar sem eftir lifa verða miklu stærri og öflugri, þetta er spurning um fjölda munna.

Vanveiðin veldur ekki aðeins hungri hjá fiskinum, heldur verður ofbeit á sílis- og loðnuseiðum sem aftur veldur fugladauða" sagði Jón.

Færri og stærri þorskar - aukin nýliðun

,,Ef nota á vistfræðilega stjórnun á fiskstofnum þarf að meta ástand fisksins. Ef vaxtarhraðinn er lítill á að auka veiðarnar. Ef vaxtarhraðinn er mikill þá er óhætt að geyma fiskinn í sjónum til að leyfa honum að stækka. Við það að fækka fiskum eykst ekki aðeins vöxturinn heldur einnig nýliðunin. Bætt fæðuskilyrði verða til þess að fleiri seiði ná að komast á legg. Það er alltaf nóg af seiðum, sem bíða eftir tækifæri til uppvaxtar og reynslan er sú að þegar veiði er aukin í of þéttan fiskstofn, þá eykst nýliðun. Þetta er regla en ekki undantekning. En þá verður einnig að mæta því með auknum veiðum á smáfiski" sagði Jón ennfremur.

4ra ára og 11 ára jafnþungir

Jón benti á að samkvæmt skýrslum frá Hafrannsóknastofnun væri vöxtur og þyngd þorsks eftir aldri nú sá minnsti sem hefur mælst. ,,Það segir okkur enn og aftur að fæða á hvern einstakling í þorskstofninum er af skornum skammti. Ég kannaði sjálfur vöxt og kynþroska þorsks við sunnanverðan Breiðafjörð árið 2005. Niðurstöður mínar voru þær að þorskar sem voru 4ra ára og 11 ára voru jafnþungir, eða um eitt og hálft kíló. Skýringin er sú að fæðan takmarkar vöxtinn. Eftir að fiskurinn hefur náð ákveðinni þyngd, eða einu og hálfu kílói, er fæðan of lítil til að fiskurinn geti stækkað svo nokkru nemi," sagði Jón.

Allt farið á verri veg

Jón sagði að það væri tilgangslaust að friða fisk sem ekki vex og sömuleiðis væri tilgangslaust að fjölga einstaklingum í sveltandi fiskstofni. Hann benti á að mestur vaxtarhraði væri hjá 3-4 ára þorski og þar væri þyngdaraukningin á hvert kíló mest. ,,Við eigum að veiða mest af smærri fiski því hann skilar mestum afrakstri. Bretarnir veiddu þennan fisk í stórum stíl á Íslandsmiðum hér áður fyrr og þess vegna var aflinn svo mikill. Á þeim árum voru Bretarnir annars vegar að veiða smáþorskinn og Íslendingar hins vegar að

moka upp stóra vertíðarfiskinum. Nú höfum við bæði friðað smáfiskinn og stóra þorskinn með því að stoppa netaveiðar í langan tíma á vertíðinni. Og hver er árangurinn? Eftir friðunaraðgerðir hefur allt farið á verri veg með ástand þorskstofnsins en enginn virðist geta lagt saman tvo og tvo, þ.e. dregið réttan lærdóm af því sem blasir við öllum þeim sem sjá vilja," sagði Jón.

Étur sjálfan sig

Jón gat þess einnig að til væri fjöldi rannsókna sem sýndu fram á að þorskur stundaði sjálfrán í náttúrunni. Magasýni sýndu að þorskur er hluti fæðunnar og sjómenn hefðu einnig oft séð þorskseiði vella út úr þeim þorski sem þeir veiða. Þorskurinn étur þannig undan sér einkum og sér í lagi þegar mikill fæðuskortur er. Jón sagði að það væri einhverra hluta vegna sterk tilhneiging hjá vísindamönnum að gera mun minna úr þessari staðreynd en efni stæðu til. ,,Stofninn er að leitast við að ná jafnvægi með því að þorskurinn étur sjálfan sig. Ef sjálfránið er í miklum mæli segir sig sjálft að sóunin er mikil því til þess að þyngjast um eitt kíló þarf þorskurinn að éta 10 kíló af öðrum þorski," sagði Jón.

Gamla góða veiðimunstrið

,,Það þarf fyrst og fremst að veiða meira til að koma lagi á þorskstofninn. Menn spyrja kannski á móti hvort ekki sé hætta á því að þorskstofninn verði þurrkaður upp. Ég tel svo ekki vera. Menn geta aldrei veitt meira en visst magn af þorskstofninum, ef til vill 30-50%, vegna þess að fiskurinn lærir að forðast fiskiskipin og veiðarfærin. Ég held að það verði aldrei hægt að ganga það nærri þorskstofninum með veiðum að hann bíði tjón af. Ég vil jafnvel ganga það langt að heimila frjálsar veiðar á þorski en það má ekki nefna slíkt í dag án þess að viðkomandi sé álitinn óábyrgur. En það er alltaf hægt að grípa inn í ef allt stefnir í voða, t.d. stöðva veiðar tíma- eða svæðisbundið. Næstbesta kerfið er að hafa ákveðna veiðidaga eins og Færeyingar eru með og ákveðinn fjölda skipa í hverjum veiðiflokki. Þar stjórna menn sókninni en ekki aflanum og þá þarf ekki að henda fiski. Mitt ráð er að heimila skuli veiðar á eins miklu af þorski og unnt er, einkum og sér í lagi veiðar á smáum fiski en einnig veiðar á stóra vertíðarfiskinum. Við eigum að fara í gamla góða veiðimunstrið sem gaf okkur hér áður fyrr hundruð þúsunda tonna ársafla af þorski áratugum saman. Við verðum að auka þorskveiðina því ef það er fæðuskortur í sjónum, eins og dæmin sanna, þá vantar ekki fleiri fiska," sagði Jón Kristjánsson.

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

Fiskifréttir báðu einnig um álit Björs Ævarrs Steinarssonar, sviðsstjóra veiðiráðgjafarsviðs Hafrannsóknastofnunar, og fer það hér á eftir:

"Með því að draga úr sókninni og hlífa þannig betur hraðvaxta fiski má auka afrakstur úr hverjum árgangi verulega þegar fram líða tímar, eða allt að 10-20%." (Fiskifréttir 13. mars 2008)

Meðalþyngd þorsks hefur farið minnkandi á undanförnum árum og er nú að nálgast sögulegt lágmark. Samt sem áður er ekki hægt að segja að þorskurinn sé illa haldinn eða horaður því holdastuðlar eru síst minni en áður. Ástæðan fyrir lækkandi meðalþyngd er hins vegar sú að þorskurinn er nú styttri miðað við aldur en áður," sagði Björn Ævarr Steinarsson, sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafrannsóknastofnunar, í samtali við Fiskifréttir.

Sex ára þorskur var að meðaltali um 69 sentímetra langur árið 1997 en árið 2007 var sex ára þorskur að meðaltali um 63 sentímetrar. Björn sagði að meginskýringin á þessari þróun, þ.e. minni meðallengd, væri rakin til þess að fæðuframboð hefði minnkað. Sérstaklega hefði aðgengi þorsks að loðnu verið takmarkað seinni árin en einnig hefði verið minna af annarri fæðu, svo sem rækju, sandsíli o.fl. Beint samband er talið vera milli meðalþyngdar þorska og ástands loðnustofnsins. Undanfarna áratugi hefur Hafrannsóknastofnun getað spáð fyrir um meðalþyngd þorska fram í tímann eftir stærð og ástandi loðnustofnsins.

Veiðar hafa áhrif á lengdardreifingu

Björn tók fram að fleiri þættir en fæðuframboð réðu því að lengd þorsks við gefinn aldur hefði breyst. Þannig sýna fyrstu niðurstöður tveggja rannsókna, er kynntar voru á nýlegri þorskaráðstefnu Hafrannsóknastofnunarinnar, að veiðar hafi hugsanlega meiri áhrif á lengdardreifingu þorsks en áður var talið. "Veiðar beinast í meiri mæli að þeim fiski sem er stór miðað við aldur (lengd, þyngd), þ.e. að hraðvaxta fiski. Hægvaxta fiskur sleppi því fremur. Þetta tengist einnig umræðu um að veiðar hafi áhrif á erfðabreytileika þorsks, til dæmis á kynþroskaaldur. Veiðar virðast sem sagt velja þann fisk sem er lengstur og þyngstur innan hvers aldursflokks og afleiðingin er lægri meðallengd í stofni eftir aldri."

Mætti auka afrakstur úr hverjum árgangi

Björn tók skýrt fram að rannsóknum á samspili veiða og meðallengdar þorsks væri ekki lokið en hann sagði að ef endanleg niðurstaða yrði í samræmi við fyrstu vísbendingar mætti hugsanlega snúa þróuninni við með breyttum áherslum í veiðum. "Með því að draga úr sókninni og hlífa þannig betur hraðvaxta fiski má auka afrakstur úr hverjum árgangi verulega þegar fram líða tímar, eða allt að 10-20%. Þetta er enn ein röksemdin fyrir því að hagkvæmt sé að minnka sóknina í þorskinn. Með því að draga úr sókninni byggjum við upp stofninn og veigamikill liður í því yrði að fá hærri meðalþyngd í hverjum árgangi," sagði Björn.

Sjálfsát ekki áberandi

- Hafið þið orðið varir við að þorskur á Íslandsmiðum stundi mikið sjálfsát?

"Við höfum rannsakað þúsundir þorskmaga á ári hverju, bæði þorsk sem veiðist í stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar og einnig fáum við magasýni frá fiskveiðiflotanum. Við teljum okkur því hafa nokkuð góðar upplýsingar um hvað þorskurinn étur. Það er þekkt fyrirbæri í líffræðinni að þorskurinn stundar sjálfsát. Stórþorskurinn étur ungviði og milliþorskurinn étur enn yngri þorska. Í þeim magasýnum sem við höfum rannsakað er sjálfsát ekki áberandi en vissulega er þetta þáttur sem hafa ber í huga. Sjálfsát þorsks er til dæmis meira í Barentshafi en á Íslandsmiðum. Ástæðan fyrir litlu sjálfsáti hér við land er sú að tiltölulega lítið er hér af stórfiski. Yfirleitt er ekki við því að búast að sjálfsát aukist að marki fyrr en búið er að byggja upp stofn með fjölda stórfiska. Þegar þorskstofninn er kominn yfir tiltekna stærð dregur jafnframt úr framleiðni hans, m.a. vegna þess að þá eykst sjálfrán. Þess vegna er rætt um að ná hrygningarstofni þorsks á Íslandsmiðum upp í 400-500 þúsund tonn og að ekki sé hagkvæmt að hann sé miklu stærri."

Góð nýliðun skiptir meira máli en vaxtarhraði

- Hvert er svar ykkar við þeirri fullyrðingu að þorskstofninum yrði betur borgið ef veiðarnar væru auknar því þá fengju þeir sem eftir lifa meira að éta og jafnframt að fáir öflugir einstaklingar gætu staðið undir góðri nýliðun?

"Okkur finnst sú kenning að auka veiðarnar við núverandi aðstæður vera fráleit. Fyrir það fyrsta finnast engar vísbendingar um það að þorskur hér sé að drepast úr næringarskorti. Þvert á móti er holdafar fisksins í góðu lagi, eins og ég hef nefnt. Hins vegar liggur það fyrir að vaxtarhraðinn er að minnka og hefur verið að sveiflast niður um 20-30%. Það þýðir að vísu að afraksturinn úr hverjum árgangi, sem kemst á legg, er minni en áður. Hins vegar er þorskur langlíf tegund og ef fæðuframboð breytist til hins betra er hann fljótur að nýta sér það. En við verðum að hafa það í huga að afrakstur þorskstofnsins veltur ekki aðeins af meðalþyngd heldur einnig fjölda fiska í hverjum árgangi. Við höfum orðið vitni að mun meiri sveiflum í nýliðun en vaxtarhraða. Við höfum verið að sjá fimmfaldan mun í stærð árganga eftir því hvernig nýliðun hefur tekist til. Þess vegna skiptir öllu máli að auka nýliðun. Ef sveiflur eru 20-30% í meðalþyngd en munur á nýliðun er fimmfaldur, er augljóslega meiri ávinningur fólginn í því að ná nýliðuninni upp heldur en vaxtarhraða. Við þurfum að eiga sterkan hrygningarstofn til þess að tryggja nýliðun. Hrygningin byggist á því að þorskurinn sé á réttum stað á réttum tíma. Eftir því sem hrygningarstofninn er stærri og hrygningin dreifist á stærra svæði og á lengri tíma, aukast líkurnar á því að nýliðunin verði góð. Með því að veiða stofninn niður er verið að vinna gegn því markmiði að byggja upp hrygningarstofninn," sagði Björn Ævarr Steinarsson.


Aftur á forsíðu