Loðnuraunir

Á að friða loðnu svo þorskurinn hafi meira að éta? - Svarið er nei.

Sífellt er talað um að friða þurfi loðnu til þess að þorskurinn fái meira að éta, en hann er nú með horaðasta móti, þyngd eftir aldri í sögulegu lágmarki að sögn Hafró. Þetta tal, um að friða loðnu í þágu þorsksins, byggist á vanþekkingu og skorti á rökrænni hugsun.

Loðnuát og hagkvæmni

Reynslan úr fiskeldi sýnir að fóðurstuðull loðnu er um 7 í lokaðri kví. Til þess að þyngjast um eitt kg, þarf þorskur í kví að éta 7 kg af loðnu. Í náttúrunni, þar sem þorskurinn þarf að eyða orku í að eltast við bráðina, má reikna með hærri fóðurstuðli, segjum 10.

Reikna verður með að þorskurinn geti ekki nýtt sér alla þá loðnu sem við veiðum ekki. Gefum okkur 60% nýtingu því það eru einnig aðrar fisktegundir að eltast við loðnuna.

Af þyngdaraukningunni sem verður á þorski er leyfilegt að veiða 25% og af því sem veitt er fer 20% í slóg og innvols. Lítur þá dæmið svona út miðað við 1000 kg av loðnu:

1000 kg óveidd loðna x 0.6 (nýting) x 1/10 (fóðurstuðull) x 0.25 (aflaregla) x 0.8 ( slægður fiskur) = 12 kg seljanlegur þorskur Hlutfallið loðna/ þorskur, miðað við þessar forsendur, er um 100, því þarf þorskur að vera 100 sinnum verðmætari en loðna til að aðgerðin beri sig. Víðs fjarri er að svo sé.

Fóðrun og veiðitilraunir í vötnum

Þegar ég var að mæla með því að silungsvötn, sem voru full af smáum og horuðum fiski væru grisjuð, til að auka þrif og vöxt fiskanna, fékk ég gjarnan þá spurningu hvort ekki væri vænlegra að gefa fiskunum meira að éta með aðkeyptu fóðri í stað þess að veiða og fækka þeim. Svarið við þeirri spurningu var að það yrði aðeins til þess að FLEIRI yrðu svangir. Enda verið marg- sýnt fram á það með tilraunum að slík aðferð gengi ekki. Eina ráðið væri að auka veiðar á smáum fiski. Auk þess hefði verið sýnt með tilraunum að miklu meiri afli fengist úr vatni ef veiðiunum væri stýrt í smáfisk fremur en stóran fisk.

Við nánari skoðun er þetta rökrétt: Stærstu fiskarnir í hverjum stofni eru mjög fáir og með því að veiða aðeins þá fæst nær enginn afli miðað við stofnstærð. Þegar slíkri nýtingu var beitt gerðist einnig annað sem menn áttu ekki von á:

Fiskur í viðkomandi vatni fór almennt smækkandi svo stöðugt þurfti að minnka möskvann til að fá eitthvað. Jafnframt fór nýliðun vaxandi og smáfiski fjölgaði. Þetta endaði svo með því að vatnið varð fullt af horuðum tittum.

Þróunin varð alltaf sú sama í öllum vötnum; ef markvisst var sótt í stóran fisk jókst nýliðun sem leiddi til offjölgunar, vatnið fylltist af smáum horuðum fiski en stofninn minnkaði í þyngd, vegna þess að þessir allt of mörgu munnar gengu of nærri fæðudýrunum. Fæðuframleiðslan minnkaði því fæðudýrin voru ofbeitt.

Fyrst var ofveiði kennt um; afli hafði jú sífellt farið minnkandi, síðar komust menn að því sanna við að leggja smáriðin net, stofninn hafði ekki verið veiddur um of í venjulegum skilningi heldur hafði rangt sóknarmynstur, að stýra sókn í stærsta fiskinn, leitt til smáfisks og hungurástands.

Það sýndi sig að hægt var að laga þetta með því að grisja smáfiskinn. Þá var unnt, ef hægt var að veiða nógu mikið, að snúa þróunninni við.

Erfðafræðin

Eitt sinn héldu menn að erfðafræðinni væri um að kenna, fiskurinn væri orðinn úrkynjaður, en það reyndist ekki rétt því vöxtur lagaðist þegar veiðimynstri og veiðiálagi var breytt. Ættu menn að leggja niður slíkt tal um þorsk á Íslandsmiðum.

Hvaðan kemur loðnan?

Loðnan hrygnir við S- og V- ströndina að vori og seiðin dreifast með straumi kring um land. Ungloðan heldur sig á grunnslóð, landgrunninu, fyrstu tvö sumrin, gengur þá norður í höf og kemur aftur til hrygningar eftir rúmt ár. Það er sú loðna sem nú er veidd, veiðar á ókynþroska ungloðnu heyra nú orðið sögunni til.

Loðnan er mikilvægust þorskinum sem fæða á meðan hún er að alast upp á grunnslóðinni. Stóra hrygningarloðnan, sú sem ber uppi loðnuaflann, nýtist þorskinum hins vegar aðeins þann vetur sem hún gengur til hrygningar og þá aðeins þar sem hún gengur um. Oft étur þorskurinn yfir sig og því hlýtur hún að nýtast fremur illa til vaxtar auk þess sem þetta gerist á kaldasta tíma ársins.

Hver stjórnar loðnunni?

Því er gjarnan haldið fram að þorskur sé horaður vegna þess að það vanti loðnu - Er það ekki fremur svo að hlutfallslega stór þorskstofn sé horaður vegna þess að hann hafi gengið of nærri fæðu sinni, loðnunni, og minnkað þannig stofninn?

Sú staðreynd að þorskurinn nærist á uppvaxandi loðnu gerir það að verkum að það er í raun hann sem stjórnar því með áti sínu hve mikið af loðnu gengur norður í höf til að fita sig og koma síðan aftur til hrygningar við S-land.

Svartfugl lifir líka á loðnu og sandsíli og horaður svartfugl er merki um vöntun þessara tegunda. - Á sama svæði er horaður þorskur! Hver er sökudólgurinn?

Þorskveiðar fyrir N-landi hafa verið í lágmarki í tvo áratugi. Í kvótakerfi með takmörkuðum þorskafla geta menn ekki stundað veiðar á svæðum sem gefa nær eingöngu þorsk. Þorskkvótinn er notaður sem aðgangur að öðrum tegundum og er nú orðinn nánast sem meðafli. Þess vegna hefur þorskurinn óáreittur fengið að éta upp rækjuna, loðnuna og sandsílið e.t.v. líka, en ekki nýst okkur vegna þess hve staðbundinn hann er á uppeldistímanum.

Nú sem aldrei fyrr þarf að ræða vistfræði, samhengið í náttúrunni, og hætta að einblína á ofveiði. Hvernig væri að gefa þorskveiðar frjálsar um tíma á stórum svæðum fyrir N-landi og sjá hvað gerist?

Ég stakk upp á þessu við ráðherra 2001 en því var ekki gefinn gaumur, ekki einu sinni tekið til umræðu. Það má ekki rugga (kvóta) bátnum.

(Birt í Morgunblaðinu 6. júní 2007, í styttri útgáfu)

-------------------------------------------------------------------

Sandsílið sjófuglinn og fiskurinn

Mbl. 22.okt. 2005

Mikið hefur verið fjallað í fréttum undanfarið um lélega afkomu kríu og sjófugla hér við land og annars staðar. Varp hafi misfarist og er fæðuskorti kennt um. Ekki sé lengur að finna sandsíli, sem sé aðalfæða þessara fugla.

Ekki er nó með að varp hafi misfarist heldur eru lundapysjur óvenju rýrar og vanburða og fullorðnir fuglar horaðir. Svipaðar fréttir hafa borist frá Noregi, sjófuglar á Vesturströndinni drepast úr hor, og ástandið virðist hið sama í löndunum í kring um Norðursjó. Sandsílaveiðar hafa verið bannaðar við Norðursjó en þar hefur verið lægð í sandsílastofninum óvenju lengi, eða ein 3 ár. Veiðunum hefur verið kennt um, eins og alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Norskur sérfræðingur sem rætt var við kenndi um ofveiði á sandsíli og kolmunna. Athyglisvert, því fuglar lifa ekki á kolmunna. Hér heima leggja menn til að loðnuveiðar verði bannaðar, en ekki hjálpar það sandsílinu.

Í viðtali við Morgunblaðið 25. september sagði sérfræðingur á Hafró "að það hefði enginn skoðað þetta ástand og á meðan væri aðeins um getgátur að ræða."

Ekki mikils að vænta af þeim bæ.

Íslenskir fiskimenn hafa meiri skilning á þessu máli en Hafsteinn Guðmundsson í Flatey sagði árið 2004 í viðtali við Brimfaxa, tímarit Landssambands smábátaeigenda, um fiskinn í Breiðafirði :

,,Hér áður fyrr þóttu mikil höpp þegar fiskigöngur komu inn í fjörðinn. Nú má segja að það sé næst því versta sem getur komið fyrir. Hér er fjörðurinn fullur upp að öllum nesjum. ... það er nánast það versta sem komið getur fyrir því þorskurinn er búinn að klára allt æti. Sandsíli hefur ekki komið frá botninum upp í yfirborðið siðastliðin sex ár, þar sem það myndaði torfur sem fuglinn sótti í."

Ástand fiskstofna

Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Ísland er sú slakasta sem mælst hefur, en það er órækt merki um hungur og fæðuskort. Talið er að sjaldan hafi verið meiri ýsa við landið og útbreiðslan víðari en þekkst hefur. Algengt er að Þó þorskur á ákveðnu svæði sé horaður þá getur ýsa á sama svæði verið í ágætum holdum. Ástæðan er sú að þegar þorskur og ýsa hafa í sameiningu klárað fæðuna ofan við botninn þá getur ýsan sótt fæðu, skeljar og sandsíli, t.d., niður í botninn. Þetta sést m.a. á því að oftast er magainnihald ýsu svart af drullu.

Færeyjar

Við Færeyjar sveiflast þorskveiðar mjög mikið og hratt, væntanlega vegna samsvarandi sveiflna í stofnstærð þorsks. Sjófuglar sveiflast í sama takti og þorskaflinn, þegar aflinn er lítill er afkoma fuglanna slæm og öfugt.

Sveiflur í stofnstærð þorsks má skýra með því að þorskurinn sé leikstjórnandinn, þegar honum fjölgar gengur hann nærri fæðu sinni, m.a. sandsíli, fugli fækkar og þorskurinn sjálfur fer að horast. Hann fer að éta bræður sína, eða deyr úr hungri. Stofninn minnkar hratt og sandsílið fær frið. Fuglinn fer aftur að fá æti og varp og viðkoma eykst. Samtímis verður til meira æti handa þorski, nýliðun eykst og honum fer aftur að fjölga og atburðarrásin endurtekur sig. þetta eru ekki flókin fræði ef menn á annað borð vilja skilja þau.

Norðursjór

Ég fór í rannsóknaleiðangur á snurvoðarbáti í Norðursjó vorið 2003. Þá var í Norðursjó krökkt af ýsu af metárganginum frá 1999 og þó hún væri 4 ára gömul var hún aðeins um 30 cm að stærð, horuð og kynþroska. Jafn stór þorskur var horaður, afétinn af ýsunni. Þá var sandsíli mjög farið að minnka og sílaveiðum kennt um. Þessi ýsa úr 99- árganginum er enn ríkjandi í Norðursjó, orðin 38 cm að meðaltali, aðrir árgangar ýsu hafa ekki fengið að komast á legg, þorskurinn lélegur og sandsílið ku horfið. Enn er sandsílaveiðum kennt um.

Miklar takmarkanir eru á ýsuveiðum, vegna meintrar ofveiði og breski flotinn er nánast orðinn ónýtur, skipum sem stunda veiðar á botnfiski hefur fækkað um 70% á 4 árum. Skipin voru rifin í Danmörku og er það reyndar eina 'iðngreinin' tengd fiskveiðum, sem blómstrar þar í landi. Engum dettur í hug að tengja sandsílaskortinn við át ýsunnar, þótt ýsan sé sérfræðingur í sandsílaáti, étur hrognin og tekur sílið meðan það er niðri í sandinum fyrstu vikurnar eftir klak.

Þó horfellir hafi orðið hjá svartfugli fyrir norðan land snemma árs 2002 (www.fiski.com/svartfugl) hefur Hafró enn ekki hafið rannsóknir sem skýrt gætu málið, t.d. á fæðutengslum fugla og fiska.

Eðlilegasta lausnin á þessum sandsílaskorti og fugladauða er að mínu mati sú að stórauka þorsk og ýsuveiðar, nokkuð sem myndi gefa af sér miklar tekjur.

Ólíklegt er að Hafró fallist á slíka lausn, enda punga þeir út 70 milljónum króna í matvælaaðstoð - til að kaupa loðnu handa hungruðum þorski í Arnarfirði.

Hafró enn í dellunni! Júní 2004.

Nú kom hún ráðgjöfin, 5% niðurskurður í þorski, ekki vegna þess að stofninn hefði minnkað í höfðum talið (þeir eru nákvæmir í talningunni þarna á Skúlagötunni), heldur vegna þess að hann hefði lést, - fiskarnir væru horaðir, með tóman maga, horaðri en þeir hefðu gert ráð fyrir í fyrra. Þeir hefðu mátt vita þetta því fiskurinn hefur verið að horast lengi, það er búið að vara þá við og sjófugl hefur verið að drepast úr hungri. En vei, ó nei, ekki hlusta eða læra af reynslunni. -Vér einir vitum- Og nú á að bjarga málunum með því að draga úr veiðum! Láta stofninn éta sig niður og drepast úr hor, engum til gagns.

Svartfugl deyr úr hungri

25. janúar 2002

Um miðjan janúar fór dauðan svartfugl, aðallega langvíu og stuttnefju, að reka á fjörur NA-lands. Eðlilega sperra menn eyrun þegar svona fréttir berast. Fugladauði vegna hungurs þýðir að ekkert sé fyrir hann að éta á slóðinni. Ef ekkert er að éta fyrir fugl er sennilega lítið að éta fyrir fisk. Þessi fugl lifir aðallega á ungloðnu sem einnig er kjörfæða þorsks. Loðnan heldur sig uppi í sjó, þar sem hún nærist á svifdýrum (rauðátu). Má því leiða líkur að því að þorskurinn á þessu svæði hafi lítið að éta. Sú eðlilega spurning vaknar hvernig á því standi að loðnan og önnur síli séu ekki þar sem þau eiga að vera. Fyrir því geta verið margar ástæður og skulu hér tvær nefndar:

Sagt er að skilyrði fyrir Norðurlandi séu með besta móti, sjór hafi verið hlýr og áturíkur síðast þegar svæðið var rannsakað. - Þar sem loðnan er kaldsjávartegund er hugsanlegt að skilyrði séu orðin of góð fyrir hana. En, hún var þarna í fyrra í svipuðum skilyrðum. - Þessi skýring er ekki líkleg.

Oft er fugladauði undanfari hruns í fiski. Það sem gerist er að mikil mergð fiskjar étur upp fæðudýrin, aféta fuglinn, fiskurinn sveltur síðan sjálfur og drepst. Þetta heitir að éta sig út á gaddinn og fuglinn verður óumbeðið fórnardýr. Þessi atburðarrás er þekkt; kreppan í Færeynum í upphafi níunda áratugarins byrjaði með, eða fór saman með, fugladauða. Þegar loðna hvarf úr Barentshafi 1986-7 minnkaði langvíustofninn um 90%. Sterkur árgangur þorsks frá 1983 át upp loðnuna. Þorskstofninn stækkaði ekki eins og búist hafði verið við, hann féll úr hor 1988-89.

Fari á versta veg gæti fugladauðinn verið fyrirboði lélegrar loðnuvertíðar 2002-2003 og enn frekari minnkunar þorskstofnsins. Ekki brást Hafró neitt sérstaklega við þessum tíðindum. Spunnu upp með eindæmum langsóttar skýringar um samspil íss og fæðu, ísrek í austur og vestur sem ruglaði fuglinn svo að hann missti af matnum.... -- Einhvern tíma hefði þetta þótt ástæða til að senda rannsóknaskip á staðinn, en - það er bundið við bryggju.

Barist við smáfisk

Janúar 2002

Ungþorskurinn kallar á að vera veiddur og enn er verið að berjast gegn því að menn veiði hann. Stöðugar skyndilokanir eru í gangi til þess að ná markmiðinu: Byggja upp stofninn með friðun. Mig minnir að þetta sama vandamál hafi líka verið í gangi fyrir ári og þá hafði Árni Matt sagt að þetta færi að lagast þegar fiskur stækkaði og gengi til hrygningar. Sagan endalausa?

Hafró dýpkar skotgrafirnar

Desember 2000, Kjallari DV

Nú hefur Hafró látið erlenda reiknimeistara yfirfara aðferðir sínar og mat þeirra var að þær væru í góðu lagi en veiðanleikinn hefði verið rangt metinn og þorskstofninn því ofmetinn þegar uppbyggingin stóð sem hæst. Óljóst er hver tilgangurinn er með þessu því þeir á Hafró hafa alltaf verið vissir í sinni sök.

Hér hlýtur að liggja fiskur undir steini. Ýmislegt, m.a. minnkandi þorskafli, bendir til þess að þorskkvótinn verði skorinn niður enn frekar á næsta ári og þá getur verið gott að hafa uppáskrifað vottorð þess efnis að allt sé í lagi um borð.

Árið 1998 ríkti almenn ánægja með að tekist hefði að byggja upp þorskstofninn úr lægðinni 1994 og bjart væri framundan. Menn gerðu ráð fyrir að þorskstofninn héldi áfram að vaxa, uppbyggingin hefði tekist. Stjórnmálamenn höfðu hlýtt ráðleggingum (les: fyrirmælum) fiskifræðinga og sjómennirnir höfðu haldið sig á mottunni.

Á opnum fundi í maí þetta ár hélt ég því fram að stofninn væri kominn yfir hámarkið, væri aftur farinn að minnka og myndi ná nýrri lægð 2003-2004.

Hafró rak upp ramakvein og sagði þetta óábyrgt tal og út í hött. Ráðgjöfin 1998 varð óbreytt frá árinu áður en rúmu ári síðar ráðlagði Hafró um 20% samdrátt

Á þessum tíma, 1977- 98, var þorskur fyrir V- og NV- landi farinn að horast og mikið var um sjálfát. Stofninn var að bregðast við minnkandi fæðuframboði á einstakling, þeir smáu horuðust og þeir stóru átu þá litlu eins og stundum í mannheimum. Sú stefna að geyma fisk og "láta" stofninn stækka hafði brugðist eina ferðina enn og náttúran var að grípa í taumana. Ekki er þó nóg með að þorskurinn éti sjálfan sig, of stór þorskstofn er einnig í samkeppni við aðra nytjastofna og étur annað hvort úr þeim eða frá þeim. Flestir nytjastofnar hafa verið á niðurleið um sinn. Þorskstofninn er á niðurleið og hann mun fara neðar, kraftaverk kemur ekki í veg fyrir 20-25% niðurskurð í vor (2001). Til þess þyrfti nefnilega stefnubreytingu hjá Hafró.

Þessi "tíska í fiskifræði" að draga saman afla og friða smáfisk, er að eyðileggja sjávarútveg í byggðum landsins.

Nú er það sem sé veiðanleikinn sem hefur sett strik í reikninginn. Veiðanleiki er vandamál hjá Hafró sem ég minnist ekki að hafa heyrt þá tala um áður. Mikill veiðanleiki skapar góð aflabrögð, lítill veiðanleiki veldur ördeyðu. Í eina tíð voru notuð hugtök eins og að fiskur gæfi sig til, væri tregur, handóður eða væri við. Nú heitir þetta breytilegur veiðanleiki og væntanlega verður þá til veiðanleikastuðull sem þarf að meta (giska á).

Oft verður maður fyrir barðinu á svona "veiðanleika". Ég var við laxveiðar í tvo daga en fékk ekki neitt. Kunningi minn var á sama stað síðar í sömu vikunni og fékk 11 laxa. Veiðanleikinn hafði breyst svona skyndilega. Ekki þó alveg, því veiðifélagi kunningja míns hafði ekki fengið neitt í sama veiðitúr þannig að veiðanleikinn virðist gera mannamun. Hafró ætlar enda að rannsaka veiðanleikann svo minnka megi skekkjur í stofnmatinu.

Ég get lagt ýmislegt í púkkið. Mér var kennt að fiskur gæfi sig helst til á aðfallinu, lúða veiðist helst um fallaskiptin. Þá vissum við strákarnir að veiðanleiki jókst stórlega ef við notuðum hvítmaðk við silungsveiðar í fjörunni fyrir vestan. Mikla lotningu bárum við þá fyrir þeim sem áttu spún. Það var nú tæki sem jók veiðanleikann svo um munaði.

Og eina sögu verð ég að segja um veiðanleikann. Ég var við laxveiðar og eftir nokkra þolinmæði fann ég flugu sem snarbreytti veiðanleikanum. Ég veiddi sex laxa á hana í beit en sá sjöundi sleit og fór með fluguna góðu. Ég fékk ekki meira þann daginn því flugurnar sem ég átti eftir í boxinu gátu ekki skapað svona veiðanleika. Ef rannsóknirnar ganga vel verður etv. hægt að kaupa veiðanleika á litlum flöskum. Þá þarf kannske að draga úr sókn en útgerðarkostnaður ætti að minnka. Eitthvað fyrir Kára að fást við? Stefán faðir hans vissi mikið um veiðanleika, skrifaði bækur um hann.Þessa dagana veiðist lítið af þorski. Ekki vegna þess að minna sé af fiski. Nei, það er veiðanleikastuðullinn sem er svona lágvaxinn.

----------------------------------------------------------------------

Stefnir í niðurskurð á þorskkvótanum vorið 2001?

Í pistlinum hér á undan lét ég að því liggja að verið væri að undirbúa niðurskurð vorið 2001. Síðan hafa komið fram fleiri vísbendingar um að sú ályktun hafi veri rétt. Fyrstu niðurstöður úr togararalli vorsins gefa til kynna að vísitala sé ein sú minnsta sem mælst hafi, svipuð og hún var árið 1994. Þetta gefur til kynna að kvótinn verði lækkaður um 30 þúsund tonn, en það er mesta leyfileg breyting milli ára. Sú regla var notuð í fyrsta skipti í fyrra, var reyndar búin til þá til að þurfa ekki að lækka kvótann of mikið. Ef kvótinn verður settur í 190 þúsund tonn hefur hann lækkað um 60 þúsund tonn á tveimur árum. Hvað með uppbygginguna?

Hér á eftir fer grein sem ég skrifaði og birti í "Fiskifréttum" í tilefni smáfiskaumræðunnar um áramótin 2000-2001.

----------------------------------------------------------------------

Leiðir friðun smáfisks til aflabrests?

Janúar 2001, skrifað fyrir "Fiskifréttir"

"Það þarf að vernda smáfiskinn til þess að hann fái að þyngjast og gefa meira af sér" sagði Sigfús Schopka talsmaður Hafró um tillögur togaraskipstjóra þess efnis að færa viðmiðunarmörkin niður.

Þetta er með ólíkindum því búið að reyna þetta árangurlaust í 20 ár. Allan tímann er búið að reyna að segja þeim á Hafró að þetta sé rangt og þeir hafa fengið nær aldarfjórðung til að kynna sér málið. Fyrir utan að þetta sé í blóra við alla vistfræði og verði að flokkast undir þráhyggju þá hrannast upp vitneskja sem sýnir að ekki standist að "geyma fiskinn í sjónum og láta hann stækka".

Þetta virðist engan enda ætla að taka því valdastrúktúr stofnunarinnar leyfir ekki gagnrýni innan frá og gagnrýni utan frá er vísað á bug með fúkyrðum eða einhverju þaðan af verra. Ráðamenn horfa hugsunarlaust upp á þetta og segja að þetta séu virtustu sérfræðingar. Aðrir gefa þeim skip..

Um allan heim er árangur svipaðrar stefnu að koma í ljós, fiskstofnar eru skakkt veiddir með þeim árangri að stórfiskur hverfur og hungraður hægvaxta smáfiskur tekur við. Ofveiði er kennt um og viðbrögðin eru að draga frekar úr veiðum, einkum á smáfiski. Nægir að nefna Barentshaf í austri og Nýfundnaland í vestri. Hinum megin á hnettinum í Ástralíu, er sama umræða í gangi, þar er talað um að ekki sé heil brú í því sem fari frá opinberum ráðgjöfum.

Fróðlegt var að sjá línuritið yfir fjölda skyndilokana frá árinu 1991 til dagsins í dag. Í því er svipaður hrynjandi og í þorskaflanum á sama tímabili.

Ætla má að fjöldi skyndilokana sé til marks um mergð smáþorks hverju sinni og mætti því ætla að í kjölfar tíðra lokana kæmi tímabil aukins afla, í takt við hugmyndafræðina um að hann muni stækka og gefa af sér meiri afla -síðar.