Lykillinn að viðhaldi kvótakerfisins?
Það sem heldur kvótakerfinu gangandi er sú trú manna að það sé hægt að veiða síðasta fiskinn. Duglegust í að halda þessu fram er Rannsóknastofnun Ríkisins, - Hafró. Allir, þ.á.m. stjórnmálamenn, trúa því að það sé nauðsynlegt að skera niður veiðar, þeir ræða ekki möguleikann: Er ekki allt í lagi að veiða? Er eitthvert gagn í að friða fisk? Áratuga friðun hefur ekki skilað öðru en aflaminnkun!
Hafró hélt rástefnu um þorsk hér á dögunum. Ég ákvað að vera með þó ekki fengjust upplýsingar um hvernig hún yrði skipulögð. Það kom í ljós að hún fylgdi gamalkunnri uppskrift, sem gekk út á hræða landann og fá útlendinga til að samþykkja vinnubrögð Hafró.
Fyrst kom fyrirlestur Kanadamanns, sem sagði hvernig veiðarnar hefðu útrýmt þorskinum á Miklabanka, stofninn hefði ekki náð sér enn og að við Íslendingar yrðum að passa okkur að lenda ekki í sama feninu og passa okkur á ofveiðinni.
Þá tóku við fyrirlestrar fluttir af Íslendingum, flestum starfandi á Hafró eða gervitunglum hennar, um hin ýmsustu efni. Fá erindi fjölluðu beint um þorskrannsóknir þó það væri þema ráðstefnunnar og varla er hægt að flokka yfirlit um "þróun þorskstofnsins og veiða" undir rannsóknir. Nægilega mikið hefur verið skrifað um það.
Endað var með samantekt samherja þeirra frá ICES, sem dró erindin saman. Þar var m.a. vikið að því að við yrðum að fara varlega, passa okkur á ofveiðinni svo ekki færi hér eins og í Kanada.
Fjölmiðlamenn höfðu svo viðtöl við útlendingana, sem brýndu fyrir okkur að við yrðum að passa okkur á ofveiðinni. - Ég flutti erindi á ráðstefnunni, einn af örfáum "utangarðsmönnum" og hér er samantekt míns fyrirlestur:
Aldur, vöxtur og kynþroski þorsks við sunnanverðan Breiðafjörð.
Við nýtingu þorskstofnsins er stefnt að því að vernda 4 ára fisk og yngri. Eru viðmiðunarmörkin, (í lengd) notuð við lokun smáfiskasvæða. Viðmiðunarmörk árið 2005 voru 25% < 55 cm.
Eftir mælingar og tíðar skyndilokanir í framhaldi af því, var stóru svæði í Breiðafirði lokað með reglugerð í nóvember 2004. Að beiðni Landssambands smábátaeigenda var aldursdreifing í afla línubáta rannsökuð.
Sýni voru tekin Í janúar 2005 úr afla þriggja báta sem höfðu róið með línu á hefðbundin heimamið og lönduðu í Grundarfirði. Tekin voru 40 aldurssýni úr þorski frá hverjum bát. Helmingur þorsksýna var tekinn af undirmálsfiski flokkuðum á sjó, helmingur af öðrum fiski, annars óvalið í hverjum flokki fyrir sig. Fiskarnir voru lengdarmældir, vegnir og skráð var kyn og kynþroski.120 þorskar voru á lengdarbilinu 44-70 cm. Aldur þeirra var 3-11 ár, 3 ára fiskar voru ókynþroska, en frá 4 ára aldri var kynþroskahlutfall í hverjum árgangi 70-80% Þorskurinn vex á 3-4 árum upp í u.þ.b. 45 cm og tæpt kíló að þyngd en bætir litlu við sig eftir það. 8 og 9 ára fiskar eru að jafnaði 57-58 cm og 1,8 kg að þyngd. 92% 5 ára, 71% 6 ára og 53% 7 ára þorska voru undir viðmiðunarmörkum, 55 cm.
Fyrirspurnir til mín að loknu erindi einkenndust af því hvort ég hefði staðið rétt að sýnatöku, hvort ég hefði aldursgreint rétt eða reiknað rétt.
Menn virtust ekki telja það neitt atriði að þarna var fiskur sem ekki var að vaxa...