Sagan endalausa.

Ég bjó til nýja gátu í safnið. Gamla gátan sem ég dáðist alltaf að var svona: Hvað er það sem stækkar og stækkar því meir sem er tekið af því?

Svarið var gatið.

Sú nýja er svona: Hvað er það sem minnkar og minnkar því minna sem tekið er af því? Svarið kemur í lok þáttarins.

Enn er þorskurinn ofveiddur segir Hafróliðið. En það fylgir sögunni að þyngd þorsks eftir aldri sé í sögulegu lágmarki og að svipað sé ástatt með ýsuna; það þurfi að skera niður kvótann vegna þess að hún sé óvenju horuð.

Sagt er að skortur sé á æti. Þetta er breyting frá fyrri árum þar sem dýpst hefur verið í árinni með því að segja að "það væri ýmislegt sem kynni að benda til fæðuskorts". Nú er þetta sum sé opinberlega viðurkennt í æðstaráðinu. Vegna þessa, að stofninn sé léttari vegna hungurs, skal draga úr veiðum.

Við stöndum því í sömu sporum og haustið 1983 þegar sama staða kom upp og ég sperrti eyrun þar sem ég var að aka í bíl mínum í Borgartúninu, allir muna jú hvar þeir voru staddir þegar stórtíðindi dynja yfir.

Sú ráðstöfun, að skera niður afla við slíkar aðstæður, var þvert á það sem ég og mínir félagar vorum að gera, grisja silungsvötn til þess að örva vöxtinn og stækka fiskinn með ágætum árangri. Þetta með að grisja varð síðar skammaryrði, notað til að gera grín að minni röksemdafærslu, fæddi af sér það sem menn kölluðu "grisjunarkenningu"

Nú, 23 árum seinna, eru Hafróurnar enn á sama stað, hefur tekist að ná aflanum niður í 190 þús. tonn, Hann var þó 300 þús. tonn þegar lagt var af stað 1983, for helvede!

Glæsilegt, en ekki orð um það meir.

Svarið við gátunni hér að ofan er: þorskstofninn.