Heim frá Brussel. Maí 2006.

Það var lífsreynsla sitja fund fiskveiðinefndar EB og fá að flytja þar erindi, en mér var boðið þangað ásamt Jörgen Niclasen frá Færeyjum og Sigurjóni Þórðarsyni alþingismanni. Fundurinn hófst kl. 15.00 og var rætt um hvernig laga mætti orðalag í tilskipunum um fiskveiðimál svo reglur yrðu skýrari og auðskiljanlegri. Þá var rætt um takmarkanir á fiskveiðum, verndun sjávarvistar, t.d. skaðsemi trolla fyrir botninn, mengun og fleira sem kunnugt er úr umræðu hér þegar menn skilja ekki neitt í neinu og vilja kenna alls konar hlutum um rýrnun fiskstofna.

Þá var rætt um kröfur sjómanna um olíustyrki, helst ræddu menn um þá lausn að skipta um vélar í öllum fiskiskipum, setja í þau eyðsluminni vélar!

Umræðan var stirð og þung enda mörg tungumál. Hægt var að velja um 11 mismunandi mál til að hlusta á. Ótrúlegt að hægt sé að skiptast á skoðunum við svona aðstæður.

Þegar stutt var í að við flyttum erindin gekk formaður ráðgjafanefndar ICES í salinn. Hann settist langt frá okkur og lét lítið á sér bera. Ekki heilsaði hann okkur og fór án þess að kveðja strax eftir fundinn.

Þetta var fínt, sýnir að þeim er ekki sama þarna hjá Hafrannsóknaráðinu.

Í erindi mínu varpaði ég fram þeirri spurningu hvort lélegt ástand flestra fiskstofna væri afleiðing af líffræðilega rangri fiskveiðistjórnun. Erindið var svipað því sem ég flutti í Peterhead og finna má á ensku síðunni.

Jörgen sagði frá Færeyska kerfinu og benti á að færeyski þorskstofninn væri sá eini sem hefði skilað svipuðum meðalafla síðustu 10 ár og hann hefði gert í 90 ár þar á undan, meðan allir aðrir þorskstofnar skiluðu ekki nema 10-40% af fyrri afla.

Sigurjón talaði sem stjórnmálamaður og líffræðingur og fannst einkennilegt að menn sæju ekki eða viðurkenndu ekki vitleysurnar í stærðfræðifiskifræðinni.

Við fengum gott hljóð og athygli en greinilegt var að menn höfðu ekki heyrt þessa náttúrufræði áður. Nokkrir voru áhugasamir og spjölluðu við okkur og etv. var þarna sáð fræjum sem ná að spíra, ef jarðvegurinn er frjósamur.

En þvílíkt apparat! Og þetta vilja menn fá yfir sig.

Í sal fiskveiðinefndar EB

Til baka