Þorskveiðistjórn í Norðursjó endurskoðuð (Fréttin var fyrst birt á RÚV 05.02.2006 18:14):

Joe Borg, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hefur samþykkt að embættismenn framkvæmdastjórnarinnar endurskoði frá grunni áætlunina um uppbyggingu þorskstofnsins í Norðursjó. Þessi ákvörðun er samkvæmt kröfu skoska þingmannsins Struans Stevensons sem krafðist þess að tekið yrði mark á vísbendingum um að veiðistjórnunin væri byggð á röngum forsendum.

Stevenson er talsmaður Íhaldsmanna í fiskveiðinefndinni og á fimmtudag var umdeild áætlun um uppbyggingu þorskstofnsins í Norðursjó til umræðu þar. Sú áætlun byggir á þeirri forsendu að þorskur hafi verið ofveiddur og aðgerðirnar eru því miklar veiðitakmarkanir, bæði með aflamarki og takmörkunum á sókn og skipastól.

Stevenson segir á heimasíðu sinni að hann hafi spurt sjávarútvegsstjórann hvort hann gæti útskýrt hvers vegna þorskstofninn í Norðursjó hefði ekki náð sér, þrátt fyrir áralanga og miskunnarlausa skerðingu aflaheimilda og þrátt fyrir þá staðreynd að á undanförnum fimm árum hefðu 60% skoska bolfiskveiðiflotans verið tekin úr umferð. Þau skip sem eftir væru mættu einungis veiða 12 daga í mánuði. Þrátt fyrir þetta sæjust þess ekki merki að þorskstofninn stækki.

Stevenson vitnaði í heimsókn þingmanna Evrópuþingsins til Sir Alistair Hardy stofnunarinnar við Plymouth háskóla, þar sem vísindamenn hefðu sýnt þeim gögn um að sjórinn í Norðursjónum hefði hitnað um tvær gráður vegna hlýnunar andrúmsloftsins og að af þeim sökum hefðu þörungar, sem þorsklirfur lifa á, hrakist meira en 200 mílur norður á bóginn. Norðursjávarþorskurinn haldi hins vegar áfram að hrygna á sömu slóðum en lirfurnar skorti æti og því komist þær ekki á legg, verði fæstar að fiskum.

Til að bæta gráu ofan á svart sé ýsustofninn sterkur en veiðar úr honum takmarkaðar vegna þess að einn og einn þorskur slæðist með aflanum og ýsan éti stóran hluta þorskseiðanna. Því væri réttara að efla ýsuveiðina ef vernda eigi þorskinn. Stevenson sagði þetta vera veigamiklar vísbendingar um að hrun þorskstofnsins megi rekja til fæðuskorts en ekki ofveiði.

Niðurstaðan varð sú að Joe Borg lýsti því yfir að hann mundi gefa embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar fyrirmæli um að rannsaka ofan í kjölinn forsendur veiðistjórnunarinnar með tilliti til þess hvort aðrir þættir en ofveiði gætu skýrt ástand þorskstofnsins.

Hafró ósammála ESB um þorskstofn í Norðursjó (Fréttin var fyrst birt á RÚV : 06.02.2006 15:10)

Björn Ævarr Steinarsson sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafrannsóknarstofnunarinnar segist ekki hafa heyrt um neinar vísindalegar niðurstöður sem bentu til þess að fæðuskortur hafi haft áhrif á stærð þorskstofnsins í Norðursjó. Ofveiði á undanförnum áratugum hafi verið ástæða þess að veiði þar hafi verið takmörkuð á undanförnum árum.

Í fréttum útvarpsins í gær kom fram að sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins hefði samþykkt að embættismenn framkvæmdastjórnarinnar endurskoði frá grunni áætlun um uppbyggingu þorskstofnsins í Norðursjó. Ákvörðunin er í samræmi við kröfu skoska þingmannsins Struans Stevensons um að tekið yrði mark á vísbendingum um að hrun þorskstofnsins megi rekja til fæðuskorts en ekki ofveiði.

Björn Ævarr Steinarsson segir að engin gögn séu um að hlýnandi sjór fyrir norðan Ísland undanfarin ár hafi haft áhrif á nýliðun þorskstofnsins þar, enda sé um allt annað hitastig að ræða þar en í Norðursjó. Hér hafi stærð og stærðarsamsetning hrygningarstofnsins verið megin ástæða þess að nýliðun hefur verið léleg og þar með afrakstur.

Drottinn hefur talað.

Þessar fréttir voru lesnar aðeins einu sinni og þeim hefur ekki verið fylgt eftir. Það er passað upp á að ekki fari fram umræður um fiskifræðileg málefni í fjölmiðlum. Minnir óneitanlega á - Rússland.

Til baka