Sjávarútvegsráðherra,
Sjávarútvegsráðuneytinu, Skúlagötu 4, 101
Reykjavík
Reykjavík 21. apríl 1998
Nýjar fiskifræðilegar niðurstöður
Frá ráðstefnu í Bergen nýlega um sveiflur
í þorskstofnum N- Atlantshafsins
Hér kynni ég fyrir yður það helsta sem fram kom
á þessarri ráðstefnu og vísa til
sérstakrar skýrslu sem sem fylgir með þessu
bréfi. Ég leyfi mér að vekja athygli yðar á
eftirfarandi atriðum sem komu fram á ráðstefnunni og
snerta fiskveiðistjórn okkar Íslendinga sérstaklega.
Eftir að Kanadamenn hafa nú mælt dánartölu
í sínum þorskstofnum þegar engar veiðar hafa
verið stundaðar í 4 ár, hafa þeir fundið
að náttúruleg dánartala (M) sé 0.4 en ekki 0.2
eins og áður var álitið. Þeir hafa
leiðrétt stofnútreikninga allt aftur til ársins 1986
samkvæmt þessum nýju forsendum.
Ég tel mig hafa sannað að einstaklingsvöxtur og
nýliðun í færeyska þorskstofninum sé
í öfugu hlutfalli við stofnstærð. Sé stofninn
stór eru vöxtur og nýliðun léleg og öfugt.
Skýrslu um þetta kynnti ég og lagði fram á
ráðstefnunni
Hvort þessarra atriða um sig nægir til þess að
véfengja tilteknar forsendur núverandi
fiskveiðistjórnunar, þ.e. að hægt sé að
byggja upp stofna til frambúðar með friðun og að
stór stofn sé forsenda góðrar nýliðunar.
Ég bið yður að taka þetta til alvarlegrar athugunar.
Ef ráðherra telur að ég geti orðið að
liði við að skýra þetta mál frekar er ég
reiðubúinn til þess.
Virðingarfyllst,
Jón Kristjánsson
Svar Sjávarútvegsráðherra, dags. 6. maí
1998, tilv. 98040092:
Ráðuneytið vísar til bréfs yðar dags. 21. f.m.
ásamt gögnum varðandi ráðstefnu í Bergen um
sveiflur í þorskstofnum.
Ráðuneytið leitaði álits
Hafrannsóknarstofnunarinnar á efni bréfs yðar.
Álit stofnunarinnar barst með bréfi dags. 4. þ.m. og
sendist það hjálagt til upplýsingar.
F.h.r. Árni Kolbeinsson
Frá Hafrannsóknastofnun:
Sjávarútvegsráðuneytið
Skúlagata 4 101 Reykjavík
Í framhaldi af bréfi
ráðuneytisins dags. 29. apríl s.l. hefur
Hafrannsóknarstofnununin athugað helstu atriði sem koma fram
í bréfi Jóns Kristjánssonar frá
nýlegri ráðstefnu í Bergen.
Jón dregur í bréfi sínu fram
tvö meginatriði og dregur af þeim eina meginályktun.
Atriðin tvö eru annars vegar að Kanadamenn hafi hækkað
mat sitt á náttúrulegri dánartölu úr
0.2 í 0.4 og hins vegar að hann hafi sjálfur sannað
að einstaklingsvöxtur og nýliðun í færeyska
þorskstofninum sé í öfugu hlutfalli við
stofnstærð. Ályktun sú sem Jón dregur af
þessu er að véfengja beri þær forsendur
núverandi fiskveiðistjórnunar að hægt sé
að byggja upp stofna til frambúðar með friðun og að
stór stofn sé forsenda góðrar nýliðunar.
Um þetta er að segja að hvorugt
atriðið, sem Jón byggir á, á við um
íslenskar aðstæður, fullyrðingin um hvað eru
forsendur núverandi fiskveiðistjórnunar er röng, og
ályktunin um þessar forsendur væri röng jafnvel
þótt þetta væru forsendurnar og jafnvel
þótt atriðin ættu við um íslenskar
aðstæður. Þetta er skýrt nánar í
meðfylgjandi athugasemdum.
Undirskrifað, Jakob Jakobsson, Gunnar
Stefánsson
Hafrannsóknarstofnununin:
Athugasemdir við bréf Jóns
Kristjánssonar 5/5 1998
- Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar
til að meta náttúruleg afföll fyrir þorsk á
Íslandamiðum. Allar slíkar tilraunir hafa leitt til
þeirrar niðurstöðu að mat á
náttúrulegum afföllum er nokkurri óvissu
háð, en þó eru nokkrar vísbendingar um að
náttúruleg afföll séu hugsanlega lægri en
reiknað hefur verið með. Nýlegar kannanir af þessu
tagi benda til þess að að gildi eins og 0.4 séu of
há og gildi í námunda við 0.1 séu e.t.v.
nær lagi. Hins vegar er ekki hægt að sýna fram á
að gildið 0.2 sé örugglega of hátt og
því hefur ekki þótt sérstök
ástæða til að breyta því. Ef þetta
gildi er ofmat er líklegt að sú hóflega
nýtingarstefna sem mörkuð hefur verið skili betri
árangri en um hefur verið spáð.
- Fróðlegt er að fylgjast með
endurmati á náttúrulegum afföllum í
þorski við Kanada og rétt að læra af þeirri
vinnu. Vandséð er samt, hvernig á að taka slíkar
niðurstöður og yfirfæra beint á aðra stofna.
- Í þeim plöggum sem Jón
leggur fram kemur ekkert fram sem bendir til þess að þegar
stofninn (við) Færeyjar er stór sé nýliðun
léleg eða öfugt, né heldur að neikvætt samband
sé milli vaxtar og stofnstærðar, enda birtir Jón ekkert
slíkt samhengi. Ályktun þessi er ekki byggð á
neinum gögnum um stofnstærð og vandséð hvaðan
hún er gripin. Við fyrstu sýn virðist Jón telja
að afli sé það sama og stofnstærð en
slíkt er þó slík kórvilla í
fiskifræði að erfitt er að trúa því
að um annað en misskilning sé að ræða.
- Tengsl stofnstærðar og nýliðunar
hafa verið talsvert rannsökuð fyrir íslenskan þorsk.
Komið hefur í ljós að líkur á
lélegri nýliðun aukast talsvert þegar stofninn er
lítill, þ.e. niðurstaðan er öfug við
það sem Jón heldur fram. Þetta er sama ályktun og
fundurinn dró samkvæmt yfirliti Jóns. Erfitt er að
sjá, hvernig Jón getur sjálfur dregið gagnalaust
aðrar ályktanir en sá fundur sem hann sjálfur sat,
eða hvernig hann getur yfirfært ályktanir sem eru dregnar
án gagna fyrir Færeyjar yfir á Íslandsmið.
- Tengsl vaxtar og stofnstærðar hafa einnig
verið talsvert rannsökuð fyrir þorsk á
Íslandsmiðum, og raunar miklu meira en t.d. fyrir þorsk
við Færeyjar. Í ljós hefur komið að ekki
verða greind tengsl milli stofnstærðar og vaxtar. Þetta
atriði í málflutningi Jóns á því
ekki við. Hins vegar virðist sem vöxtur hafi verið heldur
minni á þriðja áratug aldarinnar en á
undanförnum áratugum og er því hugsanlegt að
þarna hafi komið í ljós
þéttleikaháður vöxtur. Þessar
niðurstöður voru að sjálfsögðu notaðar
þegar mótuð var núverandi stefna um nýtingu
stofnsins og hefur því þegar verið tekið tillit til
þeirra. Ályktun Jóns um að þetta atriði
breyti forsendu um nýtingarstefnu væri því röng,
jafnvel þótt atriðið hefði verið rétt.
- Jón fullyrðir í bréfi
sínu að " forsendur núverandi fiskveiðistjórnunar"
sé m.a. að "hægt sé að byggja upp stofna til
frambúðar". Þetta er rangt. Niðurstaða
vinnuhóps um nýtingu fiskstofna var sú, að
hófleg nýting stofnsins væri hagkvæm og gilti einu
hvort umhverfisaðstæður yrðu á þann veg að
stofninn stækkaði, eða hvort óhagstæðar
umhverfisaðstæður leiddu til þess að nýliðun
yrði áfram léleg og stofninn stækkaði ekki.
Í síðara tilvikinu myndi aflinn ekki aukast en kostnaður
myndi hins vegar lækka umtalsvert frá því sem var um
1992.
- Jón fullyrðir einnig að önnur
forsenda fiskveiðistjórnunar sé að "stór stofn
sé forsenda góðrar nýliðunar". Þetta er
rangt. Slíkt er ekki forsenda en hins vegar mun það hafa mikil
viðbótaráhrif á hagnað ef aukin nýliðun
verður raunin.
Rétt er að benda á, að hvert
einasta atriði sem hér er rakið hefur margsinnis verið
útskýrt fyrir Jóni sérstaklega, fyrir almenningi
í gegnum fundi og fjölmiðla og í skýrslum
Hafrannsóknarstofnunarinnar og Þjóðhagsstofnunar.
Fundur með sjávarútvegsnefnd Alþingis 11.
maí 1998
Ég sendi bréfið hér að ofan einnig til
Sjávarútvegsnefndar Alþingis, Steingrímur
Sigfússon var þá formaður, hún brást
betur við og boðaði mig á sinn fund. Þar fór
ég yfir erindið sem ég flutti á
ráðstefnunni í Bergen og leiddi líkur að
því að brátt færi íslenski
þorskstofninn að minnka, þrátt fyrir fullyrðingar
ráðgjafa að hann væri vaxandi vegna markvissrar
uppbyggingar. Menn hlustuðu og spjölluðu fram og aftur en
síðan hef ég ekkert frétt, menn hafa greinilega ekki
tekið þetta alvarlega. Þess ber að geta að eftir
fundinn með mér, mættu fulltrúar Hafró
hjá nefndinni til að ræða áhyggjur mínar.
Ekki fékk ég að frétta hvaða boðskap
þeir höfðu en get þó passlega giskað á
það í ljósi umsagnarinnar sem stofnun hafði
áður gefið og birtist hér að ofan.
Aftur á forsíðu