Jón Kristjánsson fiskifræðingur:

Skrifað fyrir Fiskifréttir í Janúar 2001, einnig birt á fiski.com.

Leiðir friðun smáfisks til aflabrests?

"Það þarf að vernda smáfiskinn til þess að hann fái að þyngjast og gefa meira af sér" sagði Sigfús Schopka talsmaður Hafró um tillögur togaraskipstjóra þess efnis að færa viðmiðunarmörkin niður.

Þetta er með ólíkindum því búið að reyna þetta árangurlaust í 20 ár. Allan tímann er búið að reyna að segja þeim á Hafró að þetta sé rangt og þeir hafa fengið nær aldarfjórðung til að kynna sér málið. Fyrir utan að þetta sé í blóra við alla vistfræði og verði að flokkast undir þráhyggju þá hrannast upp vitneskja sem sýnir að ekki standist að "geyma fiskinn í sjónum og láta hann stækka".

Þetta virðist engan enda ætla að taka því valdastrúktúr stofnunarinnar leyfir ekki gagnrýni innan frá og gagnrýni utan frá er vísað á bug með fúkyrðum eða einhverju þaðan af verra. Ráðamenn horfa hugsunarlaust upp á þetta og segja að þetta séu virtustu sérfræðingar. Aðrir gefa þeim skip..

Um allan heim er árangur svipaðrar stefnu að koma í ljós, fiskstofnar eru skakkt veiddir með þeim árangri að stórfiskur hverfur og hungraður hægvaxta smáfiskur tekur við. Ofveiði er kennt um og viðbrögðin eru að draga frekar úr veiðum, einkum á smáfiski. Nægir að nefna Barentshaf í austri og Nýfundnaland í vestri. Hinum megin á hnettinum í Ástralíu, er sama umræða í gangi, þar er talað um að ekki sé heil brú í því sem fari frá opinberum ráðgjöfum. Lesa má meira um afleiðingar friðunarstefnunnar á vefsíðu minni, http://www.fiski.com

Fróðlegt var að sjá línuritið yfir fjölda skyndilokana frá árinu 1991 til dagsins í dag. Í því er svipaður hrynjandi og í þorskaflanum á sama tímabili.

Ætla má að fjöldi skyndilokana sé til marks um mergð smáþorks hverju sinni og mætti því ætla að í kjölfar tíðra lokana kæmi tímabil aukins afla, í takt við hugmyndafræðina um að hann muni stækka og gefa af sér meiri afla -síðar.

Skyndilokanir (lína) og þorskafli (súlur) 1991-2000.

Hér má sjá saman fjölda skyndilokana (línurit) og afla (súlurit). Þarna er greinilega sami taktur en tveimur árum eftir að fjöldi skyndilokana nær hámarki minnkar aflinn (-síðar)! Greinilega ekki það sem ætlast var til.

Innstreymi smáfisks vex frá 1991 og nær hámarki 1993. Á meðan fellur aflinn (stofninn minnkar). Smáfiski fækkar og lágmark verður 1997. Aflinn vex frá 1996 en er nú aftur farinn að minnka aftur en skyndilokunum heldur áfram að fjölga. Það sem af er árinu (2001) eru þær orðnar 35 og er því enn að fjölga. Miðað við þessa reynslu ætti þorskafli að halda áfram að falla 2001 og ná lágmarki 2 árum eftir hámark lokana, þ.e. árið 2003. Verður þetta þróunin?

Fræðunum hefur einnig fleytt fram og sýnt hefur verið fram á að viðtekin nýtingarstefna sé röng. Til hliðar við hina viðurkenndu opinberu sérfræðinga er hópur fræðimanna sem talar fyrir daufum eyrum og á jafnvel í erfiðleikum með að fá birtar greinar sem eru á skjön við hinn opinbera sannleika.

Ég hlustaði á fyrirlestur um daginn. Það var lokafyrirlestur í viku syrpu um fiskveiðistjórnun, haldinn fyrir nemendur í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Fjallað var um stjórnun í því sem kallað var "small scale fisheries", sem útleggja má veiðar einyrkja eða lítilla útgerða, og voru dæmi tekin úr stóru vötnunum í Afríku. Þar háttar svo til, eins og í vistkerfum fiska almennt, að hver étur annan sem étur enn annan sem lifir á öðrum o.s.frv.

Til þess að geta staðið undir beitarálaginu verður stofn þeirra sem étinn er (bráðarinnar) að vera miklu stærri en stofn ránfiskanna. Oft er miðað við tífalda stærð. Með því að éta stjórnar ránfiskurinn stofnstærð bráðarinnar. Ef ránfiskurinn er veiddur, en ekki bráðin, þá fjölgar í stofni bráðarinnar og afleiðingar í þeim stofni verður hungur eða dauði. Ef bráðin er veidd, sveltur ránfiskurinn.

Sem dæmi má taka þorsk og loðnu. Algengt er að heyra menn segja að ekki megi veiða svo mikið af loðnu því þá geti þorskurinn ekki vaxið. Allir kinka kolli þegar þetta er sagt. Þetta gildir einnig á hinn veginn. Ef veiddur er þorskur en ekki loðna, leiðir það til fjölgunar loðnu. Afleiðingin er aukin samkeppni, hungur og meiri afföll í loðnustofninum.

Auðvelt er að fá menn til að skilja að jafnvægi verður að vera í veiðum á loðnu og þorski en minna er þekkt að þetta getur einnig innan stofns sömu tegundar.

Við vitum að stór þorskur étur smáþorsk sem etv. étur enn smærri þorska. Þannig má segja að þorskurinn sé á mörgum þrepum í fæðukeðjunni og þar ríki eitthvert innbyrðis jafnvægi í stofninum. Þegar þrengja fer að stórum þorski með mat, vegna þess að smærri þorskur afétur hann, fer hann að éta smærri þorska og laga þar með eigin stöðu og koma á jafnvægi.

Ef við veiðum eingöngu stóran þorsk erum við að fjarlægja einn þann þátt sem heldur smáþorski í skefjum. Hungur fer þá að sverfa að smáþorskinum, hann horast, horfellur eða étur enn smærri þorska og þannig koll af kolli. Útkoman er smávaxinn stofn, stofnstærðarsveiflur eða sambland af hvoru tveggja.

Í lok áðurnefnds fyrirlesturs voru nemendur spurðir um hvað væri til ráða. Ekki stóð á svari: Nota veiðarfæri, eða sambland af veiðarfærum, sem veiða jafnt allan fisk án tillits til stærðar.

"Rétt" sagði kennarinn, "það verður að taka sneið af kökunni upp úr og niður úr, ekki éta úr henni botninn eða tína ofan af henni jarðarberin".

Þróun þorskafla 1990-2009. Greinin hér að ofan var skrifuð 2001, græna súlan. Spáin sem þar var sett fram var þessi: Miðað við þessa reynslu ætti þorskafli að halda áfram að falla 2001 og ná lágmarki 2 árum eftir hámark lokana, þ.e. árið 2003. Verður þetta þróunin? Þetta reyndist rétt, en átti svo enn eftir að versna.