Eystrasalt

Október 2016:

Mjög hefur dregið úr vexti þorsks í Eystrasalti eftir tveggja áratuga baráttu við meinta ofveiði. Skip hafa verið brennd til að draga úr sókn og trollmöskvi hefur verið stækkaður til að leyfa fiskinum að lifa lengur í þeirri von að hann stækkaði og afli ykist; "Veiða minna núna en meira seinna" stefnan.

Þessi aðferð hefur heldur betur brugðist, nú er svo komið að einungis um 5% af stofninum nær því að komast yfir undirmálsmörkin sem eru 38 cm. Svo mjög hefur dregið úr vexti að 3 ára þorskar sem voru um 2 kg 1995 eru nú aðeins 300 g, auk þess að vera grind horaðir. Hámarks stærð þorska féll úr 6 kg 2005 í 2 kg 2012 og er væntanlega enn minni nú.

Löngu er vitað að hættulegt er að brúka veljandi veiðarfæri og veiða aðeins stærstu fiskana: Það veldur aukningu á smáfiski og aukinni samkeppni um fæðu. Fiskarnir horast, mótstaða gegn sjúkdómum og sníkjudýrum minnkar og afföll aukast. Ofan á bætist að stóri fiskurinn, sem heldur aftur af offjölgun smáfiska er fjarlægður.  Árangurinn; ormagarður af horfiski. Ráð við svona ástandi er er að grisja stofninn með áherslu á að veiða smáfisk 

Vegna þess hve fátt er um ætilegan fisk er ljóst að brottkast er mikið. Hingað til hafa menn getað hent (sleppt) undirmálsfiski. En nú er komin upp sérstök staða. 

Um áramót 2016 tekur gildi ákvörðun Evrópusambandsins um að allur fiskur skuli koma í land. Brottkast er bannað frá ársbyrjun 2015.

En - allur afli telst til kvóta, líka undirmálsfiskurinn, sem áður var hent. Fróðlegt verður að fylgjast með hvað gerist þegar mestur hluti afla skipanna fer í gúanó.

Engum virðist detta í hug að það þarf að hefja markvissar grisjunarveiðar, þeir halda að veiðibann muni laga ástandið.

Árið 2004 var kvótinn 45 þús. tonn en aflinn 70 þús. tonn. Framúrkeyrslan minnkaði og 2008 varð aflinn jafn kvótanum. Svo jókst kvótinn en aflinn varð minni en kvótinn. Í bjartsýniskasti var kvótinn aukinn vegna aukinnar nýliðunar (meira af smáfiski). En kvótinn náðist ekki vegna þess að fiskurinn var að horast niður og kvótinn fyrir 2013 var settur 75 þús.tonn en einungis náðist að veiða tæpan helming þess.

Nú mætti halda að menn hefðu skilið hvað sé hér á ferðinni og gert viðeigandi ráðstafanir, minnkað möskvann og gefið sóknina frjálsa. En nei nei. Kvótinn var minnkaður um 26% milli 2014 og 15!

Sérfræðingur frá friðunarsamtökunum WWF leggur til alfriða þorskinn í tvö ár svo náttúran geti kippt hlutunum í lag!  

Viðbót 2020:

Eftir að ég flutti erindi um íslenska kvótakerfið á ráðstefnu í Póllandi árið 2009 þar sem mér var sagt að ekki væri hægt að aldursgreina þorsk í Eystrasalti með kvarnalestri lét ég senda mér hreisturssýni, sem reyndust tiltölulega nothæf til aldursútreikninga.

Ég er búinn að skrifa 3 skýrslur um aldursgreingu á þorski í Eystrasalti.

2010, 2014 og 2019.

Viðbrögð hafa engin verið, hvorki frá kollegum eða sjómannasamtökum í Danmörku þrátt fyrir að ég hafi birt grein í Fiskerblaðið ásamt því að senda skýrslurnar um allt.

Og enn vilja menn ekki halda að það sé selormur sem sé ástæðan fyrir því hve þorskurinn er lélegur og vex illa. Möguleikinn á því að þetta sé vegna ofsetningar af völdum vanveiði og möskvastækkunar er alls ekki fyrir hendi. Og nú er búið að banna allar þorskveiðar.

Hér er greinin sem ég sendi í Fiskerbladet áið 2016: