Elliðavatnssíðan

Hér er efni sem tengist Elliðavatni og Elliðaám - uppfært 24/7/2017

Riðhóll, oft kallaður Höfðinn. Myndin er tekin á ís í janúar 2002. Elliðavatnsbærinn í baksýn

Elliðavatn

Nýjasta rannsóknin, gerð 2016

Eldra efni

Sérstakar rannsóknir voru gerðar á fiskstofnum Elliðavatns 2001 -2003 en Kópavogsbær og Reykjavíkurborg ákváðu að hafa samvinnu um úttekt lífríkisins á vatnasvæðinu vegna væntanlegra byggingaframkvæmda við vatnið og áhyggjur manna um átroðning og mengun við Elliðavatn og Elliðaár. Þá voru uppi getgátur um álmengun í Elliðavatni svo gerð var rannsókn í Osló með þeirri niðurstöðu að hár álstyrkur hafði engin áhrif fisk við hátt sýrustig (pH 9.0) eins og er í Elliðavatni, og ættu þessar áhyggjur að vera úr sögunni. Þeir svartsýnustu hafa þó ekki verið sannfærðir enn.
Þáer því sífellt haldið fram af Veiðimálastofnun og Náttúrustofu Kópavogs að bleikju hafi fækkað í vatninu, hún sé jafnvel að hverfa. Ein fullyrðingin er frá desember 2006, frá Þórólfi Antonssyni Veiðimálastofnun, í samtali við Vötn og Veiði. Látið er eins og engir hafi stundað rannsóknir á vatninu nema þeir á Veiðimálastofnun og í engu lætur hann þess getið að ég (J.Kr.) mældi bleikjustofninn árin 2001-2003 eins og sjá má í skýrslum hér að neðan, sú síðasta var gefin út 2004 og var um afföllin í stofninum 2003. Í þeirri skýrslu er samantekt á rannsóknum Veiðimálastofnunar árin1971-1984 en ég sá um þær þetta tímabil.

Ekki á af Elliðavatni að ganga, því nú er búið að finna "áður óþekkt" sníkjudýr í bleikjunni og allt sagt vera í fári. Tetracapsuloides bryosalmonae heitir það og að sögn (Morgunblaðið 6/12/08) veldur það miklum afföllum í bleikju.

Líklegt þykir mér að þetta hafi alltaf verið til staðar en uppgötvist svo eins og margt annað þegar smásjárnar verða betri og þörfin fyrir rannsóknarfé eykst, - eða þannig.

Stofnstærð bleikju á árunum 2001-2 mældist um 9000 fiskar og heildarafföll milli ára um 30% . Þá segir í skýrslunni um afföllin í stofninum 2003, sjá slóð að neðan:

"Eldri gögn benda til að stærðarsamsetning bleikju hafi lítið breyst frá 1971. Merkingar 1978-80 gáfu til kynna að (hrygningar)stofninn í Helluvatni væri um 9000 fiskar (Jón Kristjánsson munnl. uppl.) Í þessum merkingum var ekki hreinn hrygningarfiskur.

Nýlega hefur verið haldið fram að bleikju hafi fækkað á seinni árum, jafnvel að hún sé að hverfa. Það þarf ekki endilega að stafa af fækkun bleikju, heldur af aukningu á urriða, og / eða breytinga á hlutfalli tegundanna vegna breytinga á samkeppnisaðstöðu. Benda má á styrkari stöðu urriðaseiða gagnvart laxi í Hólmsá, Suðurá og Elliðaám. Gegn bleikju vinnur þurrkun riðastöðva hennar vegna niðurdráttar af völdum vatnsmiðlunar í Elliðavatni, en riðin eru mjög grunnt (á 10-50 cm dýpi).

Sú mynd sem staðlaðar tilraunaveiðar Veiðimálastofnunar gefa er ekki í samræmi við niðurstöður þessara stofnmælinga. Stærri fiskur og kynþroska fiskur virðist vanmetinn og hlutfall tegundanna er sennilega skakkt. Tilraunaveiðar fara fram eftir að bleikja er farin að torfa sig og ganga á rið og netin eru lögð á dæmigerðum og þekktum búsvæðum urriða, en útbreiðsla tegundanna er mjög háð dýpi og botngerð."

Aftur á heimasíðu